21.04.2011 01:41
Annir
703. Það hefur verið meira en nóg að starfa síðustu daga og vikur. Reyndar svo mikið að sárafáar stundir hafa verið afgangs til að kíkja í bloggheima, hvort heldur til að láta ljós sitt skína, eða rýna í færslur þeirra sárafáu sem enn hafa ekki yfirgefið þá veröld og annað hvort flúið eða snúið á vit fésbókarsíðna. Eftir gríðarmikinn endasprett tókst svona nokkurn vegin að ljúka langþráðum áfanga í endurbótavinnunni á Suðurgötunni á Siglufirði og var íbúðin afhent ekki nema viku á eftir áætlun. Hún Stína er nú flutt inn og segir að það sé góður andi í húsinu.
Þá beið næsta verkefni, en það fólst í stífum æfingum vegna fyrirhugaðra tónleika í Bátahúsi. Sá tími sem til stefnu var, hefði líklega reynst full knappur fyrir einhverjum árum, en reynslan hjálpar vissulega til og allt small saman undir lokin. Mér reiknast nefnilega til að samanlagt höfum við sem ætlum að troða þar upp, lagt hvorki meira né minna en u.þ.b. 200 ár að baki í spilamennsku.
En jafnframt hefur verið setið við skriftir einhverja klukkutíma á dag, því mikið stendur til á þeim vettvangi á næstunni. Líklega er þó ekki tímabært að gefa út neinar stóryrtar yfirlýsingar um þá hluti að sinni.
Ég finn ekki snúruna milli myndavélarinnar og tölvunnar. Kannski gleymdist hún fyrir norðan og kannski er hún endanlega týnd. Ef hún er fyrir norðan leysist málið á morgun, en ef ekki þá þarf að komast í lesara sem ég á ekki. Á meðan er eitthvað á annað myndir í gíslingu inni á kortinu, myndir sem ég hefði gjarnan viljað vera búinn að birta hérna á síðunni jafnvel leggja svolítið út af. Það er þó ekki öll sagan því myndavélin sem hefur reynst mér svo vel undanfarin ár er alveg að verða "búin á því". Það þýðir að mig fer að sárvanta myndavél og það frekar fljótlega. Hingað til hefur Leó júníor lóðsað mig um allar svoleiðis slóðir sem geta reynst amatörum eins og mér hreint út sagt hálfgert torleiði, en nú eru aðstæður hans aðrar en áður var. Ég er ekkert allt of viss um hvað hentar mínum sérþörfum í dag, því nokkrar kynslóðir myndavéla hafa komið og farið síðan ég fjárfesti síðast í einni slíkri.
(Allar ábendingar eru vel þegnar.)
En talandi um að hafa nóg að gera og sjá helst ekki fram úr verkefnunum, kemur gamla spakmælið "vinnan göfgar manninn" stundum upp í hugann. Einnig ágæt saga sem ég heyrði um ýtumann á Siglufirði á árum áður þegar snjóaði mun meira en nú gerir á vetrum. Sá sagði að það væri ekkert dásamlegra en að vakna þreyttur að morgni og líta út um gluggann. Sjá þá að það hefði snjóað alla liðlanga nóttina og dagurinn myndi engan veginn endast til þeirra verka sem fram undan væru.