23.06.2011 00:19

Tónleikar að baki, ættarmót framundan


724. Það verður vart annað sagt en að tónleikarnir í Salnum í Kópavogi hafi tekist alveg ljómandi vel, og það jafnvel þó ég segi sjálfur frá. Það seldist upp fyrr í vikunni og myndaðist langur biðlisti að sögn forstöðumanns hússins. Það hefur því verið ákveðið að endurtaka leikinn, en þó ekki fyrr en að liðnu sumri því Salurinn verður lokaður vegna sumarleyfa næstu vikurnar. Það var óneitanlega gaman að sjá "stráka" eins og GunnarTrausta hafandi náð sæti á fremsta bekk rétt eins og í þrjúbíói hjá Oddi Tóra fyrir hálfri öld eða svo, og Ómar Ragnarsson skella sér á lær nokkrum sætaröðum aftar í hvert skipti sem Þuríður lét eitthvert gullkornið vaða.


Það var líka mjög skemmtilegt og ekki síður áhrifamikið að hlusta á Jóhann Vilhjálmsson syngja lagið "Lítill drengur" sem faðir hans, stórsöngvarinn Vilhjálmur Vilhjálmsson söng til hans fyrir hartnær fjórum áratugum. Viðtökurnar sem hann fékk voru líka frábærar, hver einasti maður í salnum reis úr sæti sínu, það var klappað og stappað bæði vel og lengi og þó nokkur tími leið þar til við gátum byrjað á næsta lagi. Svarfdælingurinn Júlli sem var hljóðmaðurinn okkar, sagði svo við okkur eftir tónleikana að hann hefi ekki betur séð en að einhverjir hefðu verið að reyna að klifra upp á sætisbökin þegar mest gekk á. En það er rétt að taka það fram að tónleikagestir virtust vera með allra dannaðasta móti, - alla vega svona framan af. Og svo var meðalaldurinn... - eigum við ekki bara að segja að fólkið í salnum hafi velflest verið búið að taka út fullan þroska. Það voru sem sagt allir í firna góðum fíling.


En með morgninum skal haldið norður yfir heiðar þar sem svolítið ættarmót verður haldið á Aðalgötunni um helgina. 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 505
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495882
Samtals gestir: 54725
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 15:25:38
clockhere

Tenglar

Eldra efni