06.07.2011 01:38
Nýir tímar
729. Þegar högg dixilmannanna bergmála
ekki lengur í Gimbrarklettum og Staðarhólshnúk, þarf að finna nýtt segulafl sem
knýr Klondike norðursins áfram til frægðar og
frama. Það þarf að finna og virkja nýjar hugmyndir, nýjar uppsprettur og nýjar
auðlindir. Ég sé ekki betur en að það hafi tekist með ágætum. Einn af sonum
fjarðarins lognhlýja sem ól hann, hafi nú snúið aftur og leyst úr læðingi leynda og undirliggjandi orku
kraftmikilla sveitunga sína. Hrifið þá með sér í leit að nýjum ævintýrum, fundið
þau og gert að sínum.
Æskan sem hló eitt sinn mót
framtið sinni á iðandi síldarplönum en hefur breyst í miðaldra fólk, finnur nú
gömlu draumana sína endurborna. Ekki aðeins í Róaldsbrakka, Gránu og Bátahúsi,
heldur einnig í gömlu Bátastöðinni. Rauðka, Hannes Boy og bláa Dagshúsið hafa
gengið í endurnýjun lífdaga og öðlast nýtt og nútímalegt hlutverk. Bæjarmiðjan
hefur færst til og það án pólitískrar handayfirlagningar í afgömlum stíl, endalaust þras, mas og bras sem er líklegra en flest annað til að kæfa góða hugmynd í fæðingu, eða grenndarkynninga sem kalla á einhverjar verulega skiptar og sundrandi skoðanir umdeildra eða jafnvel hæpinna hagsmunaaðila.
Þetta bara gerðist og það er gott mál.
Ég gat ekki annað en glaðst yfir
og með nýliðnum dögum, fest þá í kubb til minningar um þann tíma þegar sól síldarinnar
lagði grunninn að sjálfum nútímanum og síðan framtíðinni sem bíður kankvís og óræð
bak við næsta horn.
Kaldur júní hefur kvatt
og sólríkur júlí mun vonandi verma sálina og andann. Það er gaman að vera til.
Svo gaman að hver hálftími getur hæglega umbreyst í heil þrjú korter í hugum
vorum ef við erum bara nógu móttækileg. Það lengir lífið til muna og gerir
það líka skemmtilegt. Hér er gaman að vera og Siglufjörður er
rosalega "inn" í dag.
Skrifað af LRÓ.