11.07.2011 01:56

Dagur eitt

731. Fimmtudagurinn sem var fyrsti göngudagurinn, var allur grárri en vonir höfðu staðið til. Það sást ekki til sólar, heldur aðeins upp í miðja hlíðar fjallanna vegna þokunnar sem grúfði yfir öllu. Eftir hafragrautinn, súrmjólkina og annað morgunfóður var staðan rædd. Fram að hádegi hafði ýmist verið horft til fjalla eða kíkt á veðurspána í tölvunni, en hún gaf tilefni til að ætla að ekki væri útilokað að það gæti jafnvel eitthvað létt til þegar liði á morguninn. En þegar ekkert hafði breyst og klukkan farin að ganga eitt, var haldið af stað upp með Hvanneyraránni, gengið upp á skálarbrún og þaðan upp í Gróuskarð. Eftir svolítið nestisstopp var haldið af stað upp í þokuna áleiðis upp að Hvanneyrarhyrnu (640 m). Þaðan mátti grilla í Skrámuhyrnu til norðurs, en hún heitir eftir tröllskessunni Skrámu sem á að hafa búið í helli sínum í norðanverðum Engidal meðan hún var og hét. Þangað er stikuð leið og síðan áfram út á Strákafjall, en ekki var hún árennileg í þokunni.


Tröllsleg ásýnd hennar varð þó ekki til þess að hræða Kristjönu frá því að feta sig meðfram kaðlinum áleiðis að henni, en þarna fyrir norðan er landslag allt með því hrikalegra sem gerist í siglfirsku fjöllunum. Við hin fylgdumst með, en ekki höfðu aðrir löngun til að fylgja henni í þennan könnunarleiðangur.


Frá Hvanneyrarhyrnunni lá leiðin næst til suðurs eftir hvössum brúnum Hvanneyrarskálarinnar, en vestan við þær er því sem næst lóðréttur klettaveggurinn niður í Engidalinn.


Magnúsi fannst hátt niður og brattleikinn mikill, þrátt fyrir að ekki sæist nema lítillega áleiðis niður í dalbotninn og hafði sýnilega engan áhuga á að standa allt of nærri brúninni.


Skagfirðingurinn Snorri og Edda sem bjó eitt sinn á Siglufirði voru sama sinnis. Sá sem þetta ritar og hefur séð alla leiðina niður í dalbotninn, veit vel að þær systur skynsemin og varúðin er heppilegir förunautar í svona ferðum þó svo að hann hafi einstaka sinnum orðið viðskila við þær á ferðum sínum.


Þarna hefur stór steinn fallið ofan á syllu og staðnæmst þar eins og minnisvarði eða ábending til ferðalanga um að tefla ekki á tæpasta vað.


Það er gægst fram af brúninni og ofan í enn eitt gilið sem virðist ekki hafa neinn neðri enda, engan botn, heldur liggja nánast beint niður, niður, niður.


Forvitnin togar þó alltaf í og Snorri gægist fram af skaflbrúninni þrátt fyrir einhverjar athugasemdir samferðarmanna og kvenna.


Hann tekur þeim af svolítilli léttúð og reynir að gera engil í harðan snjóinn, en þegar hann stendur upp sést lítið eftir af verkum hans. Það vill auðvitað enginn engill eiga heima á svona stað.


Eftir talsvert labb í kring um Hvanneyrarskálina grillti í útlínur Hafnarhyrnunnar (687 m). Þokan hafði þau áhrif á skynjunina að umhverfið varð allt einhvern vegin mun magnaðra og hrikalegra, sveipað dulúð og ófyrirsjánlegt.


En toppnum var náð og þó að útsýnið þaðan væri ekki það sem hafði í upphafi verið vænst, var upplifunin af ferðinni engu að síður sérstök og mögnuð á sinn hátt. Það var líka komið að öðru nestisstoppi.

Af hyrnunni lá leiðin suður Hafnarfjall ofan Leirdala, þar til komið var að stikunum sem marka Dalaleið. Þar var staldrað við Styrbjarnardys og þriðja nestisstoppið tekið. Annað slagið virtist vera að létta til og stundum grillti í hesthúsin langt fyrir neðan, en rofin í þokuna stóðu jafnan stutt yfir.

Fljótlega eftir að lagt var af stað frá dys hins óheppna Styrbjarnar sem endaði að sögn lífshlaup sitt uppi á miðri Dalaleið, var komið niður fyrir þokubrúnina. Nú var aðeins eftir gangan niður Skjaldarbringur og melinn milli giljanna.


Þessi lækjarspræna spratt út út gilveggnum rétt eins og hún bunaði út um rörenda. Skrýtið fyrirbæri, en segir okkur að margir eru þeir lækirnir sem ekki sjást á yfirborðinu. 


Sumir voru orðnir vatnslitlir og lækurinn freistaði. Það var því sveigt af leið og fyllt á flöskur. En nú var stutt eftir, klukkan var að verða sjö og í bækistöðinni á Aðalgötunni beið hópsins steiktur fiskur ásamt tilheyrandi meðlæti sem var vissulega tilhlökkunarefni. Þökk sé henni Gullu.

Því er svo við að bæta að eftir matinn og svolítið spjall um afrek dagsins, var farið í kvöldgöngu um eyrina og bryggjurnar, þar sem sagan var rifjuð upp ásamt því sem væntingar til framtíðar voru skeggræddar. Uppbyggingin við smábátahöfnina vakti auðvitað alveg sérlega mikla athygli. Áformað hafði verið að setjast stundarkorn inn á Rauðku, en staðurinn reyndist því miður lokaður þó að enn væri stundarkorn í miðnætti.


Rauða línan sýnir leiðina sem gengin var en gulu tölustafirnir nokkra þeirra áfangastaða sem koma við sögu.

1. Rafstöðin þar sem gangan hófst.

2. Gróuhnjúkur og Gróuskarð - fyrsta nestisstoppið.

3. Hvanneyrarhyrna.

4. Hafnarhyrna.

5. Styrbjarnardys á Dalaleið.

6. Hesthúsahverfi og göngulok.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 285
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496781
Samtals gestir: 54811
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 10:47:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni