15.07.2011 18:38
Dagur þrjú og ferðalok
733. Á laugardagsmorguninn
hafði létt nokkuð til og þau ský sem lægst sigldu, héldu sig velflest ofan fjallatoppana
innanvert og vestantil í firðinum. Efsti hluti Siglufjarðarmúla var þó enn vel "bólstraður"
og freistaði því ekki eins og á stóð. Það voru talsverð vonbrigði, því hann
hafði verið ofarlega á óskalistanum. Það var því ákveðið að ganga á
Illviðrishnjúk (895 m.) frá Siglufjarðarskarði og klára þannig vesturfjöllin að
undanskilinni Skrámhyrnu og Strákafjalli.
Það reyndist ekki mikið mál
að komast upp í skarðið, það hafði nýlega verið rutt og vegurinn orðinn ágætlega
þurr.
Það vakti athygli okkan að miðstrengurinn
í "háspennu"mastrinu var slitinn, en einhvern tíma hefði það valdið verulegum
vandræðum í bænum. Það hlaut því að vera
búið að leggja hann í jörð, þó ég minnist þess ekki að hafa heyrt af þeim
framkvæmdum.
Það var lagt á brattann eftir
stutta göngu frá skarðinu. Fjallið sem fara þarf yfir áður en komið er að rótum
Illviðrishnjúks, er klettótt og hentar alls ekki öllum, því það þarf að klífa
upp litlar klettasnasir og fyrir sumar þeirra. Gangan niður af því sunnanverðu
er þó öllu minna mál.
Ég er búinn að spyrja marga
að nafni þessa fjalls, en hef enn ekki fengið þau svör sem ég sætti mig fyllilega
við. Við Siglfirðingar þekkjum Illviðrishnjúk sem mun einnig hafa verið nefndur
Illveðrahnjúkur, en Fljótamenn og Skagfirðingar þekkja hins vegar margir hverjir
Illviðrishnjúka í fleirtölu. Þá er átt við þrjá hnjúka sem blasa við úr Fljótunum
og mun "nafnlausa" fjallið vera eitt þeirra. Hins vegar gengur mikill hryggur
bæði niður úr því, en einnig Fjallinu þar sem Illviðrishnjúkurinn (okkar
Siglfirðinga) er efstur, og er allnokkur skál á milli þeirra eins og sést á
myndinni hér að ofan. Það er því tæplega hægt að halda því fram (að mínu mati) að
skyldleiki fjallanna sé nægilega mikill til að samheitið Illviðrishnjúkar fái
fullkomlega staðist. Ef einhver getur bætt einhverju við mínar takmörkuðu upplýsingar,
yrði þær vel þegnar.
Það urðu nokkrir
eftirlegusnjóskaflar á vegi okkar, sem reyndust vera mun mýkri og þægilegri undir
sóla en allt grjótið og urðin og melirnir.
En svo var toppnum allt í
einu náð, bæði skyndilega og skemmtilega óvænt. Lítill skýhnoðri hafði setið
þar meðan við voru á leiðinni þangað upp, en það var eins og hann losnaði allt í
einu frá fjallinu og flaut frá því þegar aðeins nokkrir metrar voru eftir upp
að vörðunni.
Útsýnið yfir fjörðinn var eins
og best verður á kosið, ef frá er talið þykknið fyrir utan nesið og yfir
Siglunesmúlanum. Eftir að hafa staldrað við í dágóða stund og m.a. leitað að
gestabókinni sem fannst ekki, lá leiðin aftur niður fjallið. Við kölluðum þann
hluta ferðarinnar auðvitað "niðurgang".
Þegar komið var ofan í
slakkann milli hnjúksins og "nafnlausa" fjallsins skildu leiðir. Magnús gekk
niður hliðina, (græna línan) sem mun vera algeng gönguleið eftir því sem mér er
sagt. Ég hafði þá á orði að lítið vit væri í að fylgja þeim eftir sem villtist í
skógræktinni, en hefði betur látið það ósagt. Maggi fór nefnilega
skynsamlegustu leiðina, þrátt fyrir að nokkuð væri á brattann að sækja allra síðasta
spölinn. Ég sá nefnilega ekki betur þaðan sem ég var, en að við mér blasti bein
og ágætlega greiðfær leið framhjá klettum og klungri í tiltölulega litlum
hliðarhalla. (Rauða línan). Annað og miklu verra kom þó í ljós og mér var alveg
hætt að lítast á blikuna um tíma, og ég mæli ekki með því að nokkur maður "fíflist"
til að eiga leið um þessa vondu leið. Þegar ég var loksins kominn á leiðarenda,
beið Magnús við bílinn svolítið undirfurðulegur á svipinn.
1. Siglufjarðarskað.
2. Fjallið sem er nafnlaust Siglufjarðarmegin.
3. Illviðrishnjúkur.
En þar sem dagurinn var ekki
allur, var ákveðið að kíkja á rústir Evangerverksmiðjunnar
Kvöldið leið svo í góðum gír
og talsverðum stíganda, ef þannig mætti að orði komast. Nokkru eftir að Hjálmarnir
höfðu lokið leik sínum á Kaffi Rauðku (en þangað lá leið flestra) og hópurinn aftur
kominn í hús, var slegið upp svolitlum tónleikum á Aðalgötunni og eins og sjá má
voru menn í talsvert góðum "filing".
Á sunnudagsmorguninn skartaði
fjörðurinn sínu fegursta og ég er ekki frá því að í það minnsta sumir hefðu alveg
getað hugsað sér að bæta eins og einum degi við dvölina. Til að nýta þó einhvern
hluta af þessu frábæra veðri, var gengið á Ríplana um hádegisbilið.
En hvað eru Ríplarnir gætu þá
einhverjir spurt. Hlíðarrípill, Hafnarrípill, Skriðurípill, Skálarrípill og
Bakkarípill (talið frá suðri) eru þau nöfn sem gefin voru snjóflóðavarnargörðunum
sumarið 2009. Hugmyndin bar sigurorð af öðrum tillögum í samkeppni um nöfn á þá
og eru komin frá þeim heiðursmönnum, Hannesi, Páli og Örlygi sem standa að Örnefnafélaginu
Snók.
Og því er svo við að bæta að Rípill er nafn á garði eða hrygg í landslagi, og mun orðið vera talsvert notað í jarðfræði. Eins og þeir vita sem til þekkja eru garðarnir eitt allra vinsælasta svæði til útivistar og göngu í Siglufirði.
Á Ríplaröltinu varð okkur litið upp í Gimbrakletta, en þeir stóðu greinilega vel undir nafni þá stundina því þar voru gimbrar í klettum.
En nú var komið að
kveðjustund og brottför. Þetta voru búnir að vera sérdeilis frábærir dagar, þrátt
fyrir að skýjafarið hafi ekki verið eins og ýtrustu væntingar stóðu til og
þokubakkar hafi verið allt að því óhóflega þaulsætnir á hnjúkum fjallanna.
Að lokum vil ég geta þess að
frá og með "núinu" er sá sem þetta ritar rokinn lengst inn í inndali
Skagafjarðar að trússa með öldungis óviðjafnanlegum hópi hestamanna og ætlar að halda sig þar næstu 5-7 dagana í algjöru tölvu og slitróttu
símasambandsleysi.