31.08.2011 23:15
Létt skot í beinni

747. Í gær fékk ég létt skot í beinni í síðdegisútvarpinu á rás 2.
Forsaga málsins er sú að um páskana héldum við nokkrir burtfluttir Siglfirðingar ásamt söngkonunni Þuriði Sigurðardóttur tónleika í Bátahúsinu hér á Sigló. Þetta vatt upp á sig og tónleikarnir urðu fleiri. Síðast var uppselt í Salnum í Kópavogi, svo ákveðið var að endurtaka þá fljótlega eftir sumarfrí starfsfólks. Frá upphafi höfðum við gert upp samkvæmt hlutaskiptareglu, þar sem Þuríður hafði einn og hálfan hlut. Þegar á leið fór hún fram á hækkun og var með rúma tvo hluti sem litlar athugasemdir voru gerðar við, á síðasta uppgjöri. En þó að salan á næstu tónleika hafi farið mjög vel af stað og eflaust eigi eftir að seljast upp á þá líka, varð ég meira en lítið hissa þegar ég fékk tölvupóst þar sem söngkonan bauð okkur strákunum að spila undir hjá sér fyrir fjörutíuþúsundkall. Mér þótti þetta fullmikil lækkun úr níutíuþúsunum. Ég afþakkaði því boðið, sagði mig frá viðfangsefninu og bara ekkert frekar um það að segja af minni hálfu.
Ég hafði verið úti að múra í
kring um glugga og skrapp inn í síðdegiskaffi, akkúrat þegar hún var í viðtali
á rásinni. Ég heyrði hana þá segja að fyrri tónleikar yrðu toppaðir þar sem snillingurinn
Gunnar Gunnarsson píanó og hljómborðleikari væri genginn til liðs við hana. Hljómar
ekki illa, en ég kannaðist við klangið í röddinni og vissi auðvitað um leið hverjum sneiðin var ætluð. Gunnar er frábær tónlistarmaður og ég veit að tónleikarnir
verða örugglega hin besta skemmtun, en það er nú óþarfi að láta svona.