14.09.2011 01:40
Fossarnir í Skútudal
752. Þær eru fleiri náttúruperlurnar
í firðinum okkar en allt of margir gerir sér grein fyrir, og meira að segja eru
þær margar hverjar "right under our nose" eins og það er sagt á "erlensku". Fyrir
nokkru lagði ég leið mina upp í Hestskarð til að kanna uppgönguleið á Pallahnjúk,
en á niðurleiðinni myndaði ég ótrúlega fallega fossa sem eru í öðrum læknum sem
renna úr Hestskarðsskálinni. Og þó þeir hafi sést áður hér á síðunni og það
ekki fyrir svo löngu síðan, finnst mér ekkert að því að rifja flottheitin upp.
Ég gerði mér svo ferð skömmu síðar til að skoða hinn lækinn sem rennur úr sömu skál, en í honum eru líka nokkrir mjög athyglisverðir fossar. Leiðin lá fyrst að munna Héðinsfjarðargangna, en þegar þangað var komið beygði ég til hægri inn Skútudalinn og áleiðis að Borholunum. Rétt fyrir sunnan munnann er komið að báðum lækjunum. Þar sem ég hafði þegar myndað þann nyrðri, hélt ég áfram og staldraði við þann syðri.
Og þá er enn eftir að skoða fjölmarga litla fossa sem eru ofarlega í Skútuánni.