14.10.2011 11:45

Trúarrit og helgisögur

                    

758. Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum Siglfirðingnum að nýjasta fréttablað félagsins okkar er komið út, stærra, meira, innihaldsríkara og skemmtilegra en nokkru sinni fyrr og er þá ekki nema örgrunnt í árinni tekið. Allt yfirborð boðskapsins sem þar er að finna, er að upplagi flosmjúkt og innblásið af rómantík liðins tíma, en undirtónninn í senn súrssætur og rammur rétt eins og sú taug sem aldrei mun slitna. Enda mun hún auðvitað ekki gera það, því jarðvegurinn nyrðra var og er bæði svo góður og næringarríkur að þar er næga rótfestu að finna. Meðan blaðið er lesið er lítill vandi að lygna aftur augunum, líða yfir í annan heim og láta sér hverfa allt veraldarvafstur nútímans. Sjá fyrir sér ótölulegan fjölda skrautlega karaktera sem margir hverjir eru því miður farnir úr hinum sýnilega heimi. Sumir höfðu á vendipunkti lífs síns ratað til Klondike norðursins með lítið handa í millum annað en áræðni, gott upplag og óbilandi bjartsýni, en aðrir lituðu hvunndaginn í litla firðinum björtum og skærum litum og juku á fjölbreytileikann í mannlífsflórunni. Í blaðinu eru einnig ófáar sögur af þeim sem yfirgáfu æskuslóðirnar með trega í sinni og af illri nauðsyn, lögðu upp með nesti og nýja skó rétt eins og karlssynirnir í ævintýrunum forðum, fundu sínar prinsessur í fjarlægum löndum og sigruðu heiminn í leiðinni. Að minnsta kosti það væna sneið af honum að hún dugði mönnum vel alla þeirra hunds og kattar tíð, og allt var þetta ekki síst að þakka upprunavottorðinu sem ávalt var haft með í farteskinu.

Það er fjarri mér að gagnrýna fortíðarþrána og allar þær góðu minningar sveitunga minna sem í blaðinu er að finna. Enda er ég hvort eð er fullkomlega vanhæfur til slíks vegna þess hve málið er mér skylt, auk þess sem ég er yfirlýstur fylgismaður þess að hampa heimaslóðunum hvernær sem tækifæri gefst ásamt öllu því sem þeim tengjast.

En það var haft eftir einum af mætari mönnum sem býr nyrðra, að eftir lesturinn hefði honum það ferið fullkomlega ljóst að þarna væri komið það trúar og helgirit Siglfirðinga sem væri vel til þess fallið að vera þeirra leiðarstjarna til framtíðar. Annar er sagður hafa tekið undir þá skoðun og taldi rétt að finna ritinu stað uppi í hillu milli Biblíunnar og sálmabókarinnar.

En hvað sem slíkum vangaveltum líður og að öllu gríni slepptu, þá verður ekki annað sagt en að vel hafi tekist til og við höldum áfram að vera stolt af uppruna okkar.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495960
Samtals gestir: 54733
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 17:12:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni