25.10.2011 16:33

Smáfjallið Keilir


763. Það máltæki er þekkt sem segir að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Líklega á það ágætlega við um fyrirætlanir mínar síðan um mitt ár 2007, þar sem smáfjallið Keilir stendur þá fyrir þúfuna og ég fyrir hlassið.




Það var í júnímánuði það fræga ár 2007 að Gámaþjónustugönguhópurinn lagði upp í þeim tilgangi að ganga á Keili, og ekkert bennti til annars en sú ætlun myndi ganga eftir, bæði vel og greiðlega.




Hún gerði það líka framan af, eða allt þar til við vorum komin upp í miðjar hlíðarnar. Þá fór skyndilega að hvessa og eftir ótrúlega stutta stund var komið hífandi rok. Ég tók samt nokkrar myndir, en þær reyndust allar vera mismunandi mikið hreyfðar þegar að var gáð og eins og sést hér.




Hífandi rok er þó sennilega full lítið sagt, því veðrið var alveg stjörnuvitlaust og engan vegin stætt. Við komumst eiginlega hvorki upp né niður fjallsöxlina sem er þó varla nokkur öxl, heldur miklu frekar eins og svolítið brot í skriðuna.




Húfan hans Magnúsar var löngu fokin út í veður og vind og hann barðist við að fjúka ekki sömu leið. Svo er ég ekki frá því að ég hafi heyrt í fjúkandi hraunmolum eða möl, svei mér þá.




Þegar lægði aðeins milli hviða, létum við okkur gossa fram af "axlarbrotinu" og niður skriðuna. Þar sem fjallið er ekki hátt, tók ekki langan tíma að komast niður að rótum þess, en þar var hins vegar hæglætis veður. - Skrýtið.




Síðan þessi ferð var farin hef ég margsinnis hugsað mér að ljúka við hafið verk, haska mér af stað, klára málið og komast á toppinn. Það er nú ekki eins og sé verið að plana ferð á Hvannadalshnjúk. En það hefur nú samt alltaf orðið eitthvað til þess að gera fyrirætlanir mínar um að komast upp á Keili í góðu veðri og taka fullt af myndum, að engu. Nánast í hverjum einasta mánuði síðastliðin fjögur ár, hafa hugsanir um alveg bráðaðkallandi og löngu tímabæra Keilisferð verið að dúkka upp einhvers staðar í undirmeðvitundinni.  Í gær mánudaginn 24. okt. virtist tækifærið svo hreinlega hafa fæðst með dagrenningunni. Um hádegisbilið var ég ákveðinn í að drífa mig af stað, en stundu síðar var ég ekki alveg eins viss. Auðvitað er margt sem þarf að gera, sem er meira aðkallandi en eitthvað rölt út um víðan völl. En veðrið var svo flott og það spáði rigningu mestalla vikuna. Það var ekki fyrr en um þrjúleytið sem ég loksins tók af skarið, ók af stað og staðnæmdist ekki fyrr en á bílastæðinu upp við Höskuldarvelli.




Ég staldraði aðeins við og virti fyrir mér hraunið, mosann og fjallahringinn. Ótrúlega flott allt saman í haustlitunum og glampandi sóskininu. Ég smellti af nokkrum myndum í átt að þéttbýlinu og Esjunni, Akrafjallinu og Skarðheiðinni.




Ég gekk af stað milli hraunbreiðunnar og misfellunnar í landslaginu sem er eins og langur varnargarður, hannaður til að stöðva hraunrennsli. Hinum megin og sunnan við hana (misfelluna) eru hinir rennisléttu og grösugu Höskuldarvellir og enn sunnar Trölladyngja. Þangað ætla ég líka einhvern tíma að fara.




Ég gekk áfram og var nú kominn alveg suður fyrir Keili. Mig minnti að einhvers staðar hérna ætti að sjást hvar gengið er upp á hraunið í átt að fjallinu, en vegna þess hve sólin var orðin lágt á lofti, var erfiðara að átta sig á umhverfinu. Skuggarnir voru orðnir ótrúlega langir og mjög dökkir, og sinan svo undarlega rauðleit.




Það vakti athygli mina hve mikið var af rjúpu á þessu svæði, og ég sem hélt að hún væri orðin með allra sjaldgæfustu fuglum. Alla vega hefur umræðan um verulega takmörkun á veiðum frá því sem áður var, bent til slíks. En þar sem ég var nú kominn nokkuð vestur fyrir fjallið þótti mér sýnt að ég hefði gengið fram hjá slóðanum yfir hraunið. Það var því um fátt annað að ræða en að demba sér yfir það þaðan sem ég var staddur og það slóðalaust. Að öðrum kosti myndi ég líklega ekki enda göngu mina fyrr en í Grindavík.




Ekki verður sagt að ég hafi farið stystu eða greiðfærustu leið að settu marki, en þetta hafðist nú allt saman. Reyndar var klukkan orðin heldur mikið og krókurinn hafði ekki farið vel með tímaáætlunina. En gat ég snúð við þegar stóð við rætur fjallsins? Nei, það var auðvitað alveg af og frá, þó það hefði eflaust verið það skynsamlegasta í stöðunni vegna orðinna tafa. Það var greinilega farið að rökkva, en þetta var nú ekki svo hátt. Klifrið upp er aðeins 250 metrar á hæðina, þó toppurinn sé að vísu 379 m yfir sjávarmáli. Ég lagði af stað upp skriðuna að sunnanverðu og dró ekkert af mér. Ég vissi að þetta var kapphlaup við klukkuna og í leiðinni birtuna. Fyrir mér er það nefnilega til lítils að klifra upp á fjall ef ekki er hægt að taka myndir. Ég var næstum því sprunginn af mæði þegar ég stóð á toppnum og smellti af í áttina að Keflavík. 




En stundin hafði gengið mér úr greipum og birtan með. Það var alveg sama hvaða stillingu ég prófaði, allar myndir urðu beinlínis vondar eins og sjá má. Ég hefði líklega getað náð einhverju vitrænu í flöguna ef ég hefði haft þrífótinn meðferðis og tekið myndir á tíma, en slíku var ekki að heilsa því hann var heima og meira að segja geymdur á bak við hurð. Það dimmdi hratt og ég sem átti eftir að ganga til baka yfir flatlendið, hraunið, eftir lægðinni milli hraunsins og misfellunar og að stæðinu. Það var því ekki um annað að ræða en drífa sig af stað niður. Ég renndi mér fótskriðu langleiðina niður á jafnsléttu og skokkaði síðan af stað. Leiðin að hrauninu var vörðuð og ég sá alltaf næstu vörðu bera við himin, því þær voru staðsettar þar sem landið var aðeins hærra en næsta umhverfi. Alveg frábær pæling þessar vörður.




Ég var nú kominn að hrauninu og sá í skini tungls og stjarna að slóðin var aðeins dekkri en nánasta umhverfi. Ég gaf mér þá tíma til að staldra við og smella lokamyndinni af Keili þar sem hann bar eins og kolsvarta og risavaxna hundaþúfu við dökkbláan himininn sem var með appelsínugulan kraga. Síðan fetaði ég mig áfram eftir slóðinni. Ég skal viðurkenna að mér fannst ekkert sérlega notalegt að sjá svört göt ofan í hraunið. Þar undir gat bæði verið pínulítið holrúm upp á fáeina sentímetra, en líka eitthvað miklu stærra. Þetta gekk nú samt allt saman bærilega til að byrja með, en á endanum týndi ég auðvitað slóðinni. Eftir það var farið mjög hægt yfir og stafirnir mikið notaðir til að kanna hvar best væri að drepa niður fæti. Hraunið er reyndar úfnara næst misfellunni en á móti kom að það var stutt eftir. Ég var mjög feginn þegar ég var skrönglaðist niður af hraunbrúninni og sá móta fyrir kindaslóðinni sem ég gat síðan fylgt alveg niður að bílastæði. Það var komið kolniðamyrkur og ég gekk næstum því á bílinn þegar ég kom að honum. Yfirleitt er talið hæfilegt að gefa sér 2-3 tíma til Keilisferðar, en ég var að þessu sinni heila 5 tíma. Það er þó ekki allt, því enn er tilgangnum ekki náð. Það á eftir að taka næstum allar myndirnar. Er ekki annars sagt að allt sé þegar þrennt er?


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 129
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495506
Samtals gestir: 54626
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 11:16:11
clockhere

Tenglar

Eldra efni