11.12.2011 18:18
Að vera hrútur um fengitímann
781. Það er mikið líf og fjör í fjárhúsum landsins þessa dagana því nú er hafinn sá tími sem hrútarnir hafa beðið eftir með ákefðarglampa í augum allt árið. Það verður mikið "hopp og hí og hamagangur á Hóli" í sveitum landsins eins og þeir Ríómenn sungu hér um árið og svo koma blessuð lömbið í heiminn í vor þegar fuglarnir fara að syngja, sólin að skína blómin að anga o.s.frv. Því má svo auðvitað bæta við að þar með hefur verið tryggt að landsmenn fái sunnudagslærið sitt með rauðkáli og grænum baunum næsta vetur. En þessa mynd rakst ég á einhvers staðar á víðáttum netsins og þarna má sjá lambrollurnar bíða í röðum eftir að komast að, því allar vilja þær verða næstar.
Við að sjá þessa mynd
rifjast upp meira en 40 ára gömul saga úr Barnaskóla Siglufjarðar þegar
kennarinn spurði nemendur eitt sinn hvað þá langaði mest til að verða þegar
þeir yrðu stórir og svörin voru á ýmsa lund eins og gengur. Flugmaður, kennari,
skipstjóri, lögga, bílstjóri, sjómaður og svo mætti lengi telja. Svar eins
ónefnds nemanda sem í dag gegnir viðulegri stöðu hér á Siglufirði, skar sig þó
úr með afgerandi hætti.
"Mig langar mest til að vera
hrútur um fengitímann í fjárhúsunum hjá pabba" svaraði hann án þess að blikna.
Stór hluti bekkjarins
hreinlega sprakk og kennarinn mun hafa átt mjög bágt með að halda andlitinu, en
annar hópur nemenda hló ekki neitt því hann skildi ekki hvað var svona fyndið.