16.12.2011 00:04

Á Síldarballi 1988


786. Ég rakst á þessa mynd í Afmælisriti Siglfirðinafélagsins sem kom út í haust þar sem fór frekar lítið fyrir henni. Reyndar svo lítið að ég tók ekki eftir henni fyrr en ég hafði flett nokkrum sinnum í gegn um blaðið. Hún hefur líklega verið tekin á Siglfirðingaballi í Félagsheimili Seltirninga um vorið 1988, en þá var safnað í Siglufjarðarband til að koma fram með nokkur lög. Á myndina vantar því miður Selmu Hauks sem hefði gert myndina mun áferðarfallegri.

En fyrir utan þann sem þetta ritar og situr við rauðu Farfisuna, eru þarna talið til hægri; Biggi Inga, Gummi Ragnars og Maggi Guðbrands. Þetta var sama samsetning og skipaði Miðaldamenn árið 1978. Þá var Selma aðeins 15 ára og þurfti undanþágu barnaverndaryfirvalda til að syngja með okkur tvö fyrstu giggin, eða þar til hún náði ballaldri, en Magnús var helmingi eldri og langelstur eða þrítugur. Við gerðum stundum svolítið úr því að það væri 100% aldursmunur á elsta og yngsta meðlimi hljómsveitarinnar á sínum tíma, en það var allt í gáðu gríni. Það hefur sjaldan verið meiri metnaður í gangi, meira lagt í æfingar eða markið sett jafn hátt varðandi lagaval og útsetningar þau ár sem ég hef verið spilandi en þennan tíma. Árið 2005 kom þessi sami hópur aftur saman og spilaði á veitingastaðnum Player´s á fjölmennu Siglfirðingaballi. 

 

Aðalhljómsveitin sem spilaði á ballinu var þó ekki með öllu laus við Siglfirðinga, því trommuleikarinn í henni var enginn annar en Hallvarður S. Óskarsson. Auk hans spilaði Árni Ísaksson (síðar veiðimálastjóri) á orgel og Halldór Kristinsson (Tempó, Þrjú á palli) á gítar. Það tríó hafði spilað saman í fáein ár, en var u.þ.b. að leysast upp af ýmsum ástæðum. Skömmu síðar hringdi Hallvarður í mig og við stofnuðum Vana Menn um haustið ásamt Eyþóri Stefánssyni sem hafði þá spilað mörg ár á gítar með Ragga Bjarna.

 

"Síldargínan" sem er reyndar einfætt þó ekki beri mikið á því, var yfirleitt til staðar á Siglfirðingaböllunum hér áður fyrr, en lítið hefur sést til hennar á nýrri öld. Spurning hvort einhver veit um afdrif hennar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496725
Samtals gestir: 54805
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:49:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni