04.02.2012 08:39

Þorrablót



797. Nú er þorra blótað um hverja helgi og því víða kátt sé til sveita um þessar mundir. Ég hef eins og undanfarin ár verið að spila talsvert á þessari tegund mannamóta ef þannig mætti að orði komast, og í ár kom meðspilarann Axel Einarsson sem nú er fluttur af landi brott, sérstaklega frá Svíaríki til að taka þátt í gleðinni. Ég segi "þessari tegund mannamóta", því hin þjóðlegu þorrablót eru talsvert frábrugðin öðrum samkomum þó til sveita séu, svo ég tali nú ekki um þegar slegið er upp skralli í þéttbýlinu. Það er eins gott að vera þokkalega vel heima í bæði gömlum dönsum sem og nýjum. Og nýju dansarnir sem svo eru kallaðir, geta jafnvel verið nokkuð komnir til ára sinna, t.d. verið úr smiðju Bítlanna eða Ragga Bjarna, Hljóma eða Stones, Elvis eða Lúdó.




Á þorrablótum er oft engu líkara en margir hverjir sem eru jafnvel komnir vel til vits og ára, gangi hreinlega í endurnýjun lífdaga á dansgólfinu, meðan aðrir og þá oft yngri menn og konur endast mun skemur. Um síðustu helgi vorum við að spila fyrir Átthagafélag Sléttuhrepps á Stöndum. Ég veitti athygli manni sem gæti vel hafa verið um sextugt sem virtist vera búinn að dansa sína skyldudansa laust upp úr miðnætti. Honum þótti þá greinilega nóg að gert þetta kvöldið, seildist eftir jakka sínum á stólbakinu og skömmu síðar var hann horfinn af vettvangi ásamt spúsu sinni. Annar sem ég er sannfærðir um að hefur ekki verið deginum yngri en áttatíu, fór allt öðru vísi að. Við fyrsta lag spratt hann á fætur og ég man ekki til þess að hafa séð hann setjast að minnsta kosti næstu tvo tímana. Hann var maður kvöldsins í mínum augum. Og ágætlega fótmenntaðir vestfirðingarnir halda fast í gamla siði og venjur, því það var mikið beðið um skottís, ræl, marsurka, vínarkrus og að sjálfsögðu valsa í löngum bunum. Mér fannst gaman að þeirri upprifjun, því gömlu dansarnir hafa því miður verið á talsverðu undanhaldi undanfarin ár. Ég spilaði því allt sem ég kunni af þeirri tegundinni sem er all nokkuð að magninu til.

Helgina á undan vorum við meðal Borgfirðinga, þá var meðalaldurinn nokkuð lægri og tjúttkynslóðin réð lögum og lofum á dansgólfinu. Þar kom maður til mín, líklega ekki mikið sjaldnar en tíu sinnum og bað um meira Prestley stöff.

Í dag verður lagt land undir dekk og ekið alla leið austur í Mýrdal þar sem þorranum verður blótað á Hótel Dyrhólaey. Ég neita því ekki að þetta talsverður spölur að fara og það verður líklega ekki alveg átakalaust að aka til baka á sunnudagsmorgni. En ég fór á þennan frábæra stað í fyrra ásamt félögum mínum þeim Magga Guðbrands og Bigga Inga, og veit því að þarna austur frá býr skemmtilegt fólk sem gaman er að sækja heim sem gerir auðvitað gæfumuninn. Og ef ég man rétt þá voru menn nokkuð hallir undir gamla diskóið þarna austur frá.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 1088
Gestir í dag: 161
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496465
Samtals gestir: 54779
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 23:50:21
clockhere

Tenglar

Eldra efni