14.02.2012 08:43

Smalað með súrum hval, hákarli og brennivíni


800. Á dögunum var ég að spila á afar vel heppnuðu þorrablóti austur í Mýrdal. Það var dansað til klukkan 3 eins og reglugerðin segir til um, en þá var ennþá svo mikið stuð á gólfinu að það þótti full ástæða að bæta við nokkrum aukalögum. Fyrst var framlengt um korter, en sagan endurtók sig og aftur var framlengt um korter. Þegar klukkan var orðin 3.30 var útlit fyrir að enn yrði haldið áfram örlítið lengur, en þá fengum við skýrar meldingar frá húsráðanda um að nú væri nóg komið að sinni. Eftir að við höfðum pakkað saman og tilbúnir til heimferðar, var sest inn í eldhús yfir svolítinn aukaþorrabita og spjall fyrir brottförina. Við fengum þá m.a. að heyra söguna um hina úrræðagóðu nefndarmenn og smölunina sem fór fram síðustu dagana fyrir blót sem verður væntanlega lengi í minnum höfð.

Mannamótið hafði verið auglýst með venjubundnum hætti og boð látin út ganga meðal íbúa sveitarinnar, þar sem óskað eftir að þeir sem hyggðust taka þátt í gleðinni tilkynntu þáttöku eigi síðar en þann 28. jan. Dagarnir liðu, nefndin fundaði stíft og safnaði í skemmtiatriðasarpinn, en fimmtudaginn 26. jan. eða tveimur dögum áður en fresturinn rann út var útlitið allt annan gott, því aðeins einn hafði lýst áhuga sínum á að mæta. Það leit því ekki sérlega vel út með blótið og einhverjir höfðu á orði að þetta yrði líklega svanasöngur þessarar gömlu hefðar. Nú voru góð ráð dýr, en dugandi fólk drepst ekki ráðalaust. Nefndin skipti liði og hélt af stað í húsvitjanir, nestuð súrum hval, hákarli og íslensku brennivíni. Bankað var upp á á hverjum bæ í sveitinni, boðskapurinn kynntur og safnað liði. Árangurinn varð fjölmennasta þorrablót í áraraðir.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 927
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496304
Samtals gestir: 54770
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:46:44
clockhere

Tenglar

Eldra efni