04.03.2012 03:02

Myndavélaleysi



803. Stundum er alveg hábölvað að hafa gleymt myndavélinni heima, því myndefnið hreinlega raðast upp fyrir framan nefið á manni. Ég átti leið um Tryggvagötuna í dag, en komst lítið áfram því Kolaportið hafði verið að loka og þeir sem þaðan komu fylltu allar götur og öll stæði í nágrenni við þann merka stað. Ég dólaði áfram stutta vegalengd og stoppaði, tók aftur af stað, komst nokkrar bíllengdir og var svo aftur stopp.

Ég veitti athygli gamalli konu sem stóð á gangstéttarbrún og studdist við einfalda göngugrind sem leit út eins og tvöföld hækja. "Skildi hún vera á leið yfir götuna" hugsaði ég með mér og stoppaði. Sú gamla sem ég áætlaði við fyrstu sýn að gæti vel verið eitthvað á níræðisaldri, lagði af stað milli bílanna og staldraði við þegar hún var komin upp að bílstjórahurð á stórum húsbíl. Hún lagði þá frá sér grindina, teygði sig upp og opnaði. Því næst klifraði hún upp og inn í hann með nokkrum erfiðismunum. Þegar hún hafði komið sér fyrir í ökumannssætinu sá ég hvar grindin hvarf á eftir henni upp í bílinn og hurðin lokaðist. Þetta þótti mér allt með miklum ólíkindum og ekki minnkaði undrun mín þegar ég var kominn fram fyrir bíl þeirrar öldruðu og ég sá hann var með einkanúmerið SEX 666. Það var aldeilis. Skyldi sú gamla vera að reyna að koma einhverjum skilaboðum til nærstaddra? Ég var svo öldungis hlessa og það var ekki laust við að svolitlar brosviprur mynduðust í kring um munnvikin.

Umferðin þokaðist áfram, ég tók eftir því að bíllinn næst á undan mér var líkbíll og ég velti fyrir mér hvort það væri einhver farþegi um borð. Bílaröðin mjakaðist löturhægt áfram og þegar ég er að nálgast "Bæjarins bestu" beygir líkbíllinn úr úr röðinni, Hemmi Jónasar snarast út og smellir sér í "pylsuröðina".

Líklega hefur hann verið einn í bílnum eða hvað veit ég annars. Ég sá ekki hvort hann keypti eina pylsu eða tvær...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni