11.05.2012 02:48
Siglfirsk í báðar ættir
814. Sagt var frá því á siglo.is fyrir nokkrum dögum síðan, að Halldóra Ósk Helgadóttir nemandi í 9-L hafi unnið til fyrstu verðlauna í smásagnasamkeppni sem haldin var í Laugalækjarskóla nýverið, og þar kom einnig fram að Halldóra er barnabarn þeirra Hannesar og Höddu sem eru okkur siglfirðnum svo mjög að góðu kunn.
Linkur á umrædda frétt er: http://www.sksiglo.is/is/news/frett_af_heimasidu_laugalaekjarskola/
Hulda Þráinsdóttir leikskólakennari og Helgi Hannesson foreldrar Halldóru bjuggum á Siglufirði um árabil.
Við Siglfirðingar erum auðvitað alltaf stoltir af okkar fólki, en í tilfelli Halldóru getum við tvöfaldað það stolt miðað við áður fram komnar upplýsingar, því hún er siglfirsk í báðar ættir. Móðir hennar er nefnilega Hulda Þráinsdóttir, en Þráinn afi hennar var einmitt skólastjóri Laugalækjarskóla til margra ára þar sem umrædd smásagnasamkeppni var einmitt haldin núna.
-
Þráinn var fæddur á Brekkunni á Siglufirði 24. apríl árið 1933, en eftir menntaskólaárin á Akureyri lá leið hans suður á bóginn en ekki aftur á heimaslóðir, - því miður.
Þráinn Guðmundsson
Þráinn var einn af öflugustu félagsmönnum sem íslenska skákhreyfingin hefur átt og ritaði m.a. sögu Skáksambands Íslands. Þráinn var forseti Skáksambandsins 1986 til 1989, og mörg ár var hann fulltrúi Íslands á þingum Alþjóðaskáksambandsins FIDE. hann var skólastjóri Laugalækjaskóla eins og áður segir, einnig Námsflokka Reykjavíkur og um tíma fræðslustjóri í Reykjavík.
Ingibjörg móðir Þráins kom oft í heimsókn á æskuheimili mitt að Hverfisgötu 11. Hún og Sóley móðuramma mín voru báðar Svarfdælingar og höfðu þekkst frá unga aldri. Ingibjörg var fædd á Sauðanesi sem stóð skammt fyrir utan Dalvík, en bæjarstæðið hvarf undir veginn þegar hann var lagður fyrir að Ólafsfjarðarmúla. Og eins og svo margir gerðu snemma á síðustu öld , fluttist hún búferlum í hinn ævintýralega og ört vaxandi síldarbæ.
Á myndinni er móðir skrásetjara Minný Leósdóttir, skrásetjari sjálfur Leó R. Ólason og Guðmundur Þorleifsson faðir Þráins. Hann er sá hinn sami Guðmundur og Guðmundartúnið var síðan kennt við, en hann ræktaði upp melinn fyrir ofan hús þeirra hjóna sem hefur eflaust ekki verið létt verk.
Ingibjörg og Guðmundur bjuggu síðan alla sína búskapartíð að Hávegi 12b á Siglufirði.