17.05.2012 04:58

Ef þetta væri bara svona einfalt


815. Ég rakst á alveg magnaða auglýsingu á netmiðli sem ég kíki stundum á. Við fyrsta lestur sá ég fyrir mér að nú væru öll mín vandamál sem tengjast á einhvern hátt fjármálum og efnahag leyst til frambúðar og það varanlega. Bæði þau sem eru til komin vegna yfirstandandi efnahagslægðar eða svokallaðrar kreppu, svo og einnig af öllum öðrum hugsanlegum og óhugsanlegum ástæðum. Og ekki bara mín, heldur hvorki meira né minna en landsmanna allra ef út í það er farið. Auglýsingin var svona:

-

Viltu verða skuldlaus ?

Peningar eru ekki allt en þeir auðvelda lífið töluvert!
Viltu verða skuldlaus?
Viltu geta gert það sem þig langar?
Viltu geta farið erlendis amk tvisvar sinnum á ári?
Viltu geta keypt draumabílinn sem fyrst?
Viltu láta drauma þína og fjölskyldu þinnar rætast?
Ef þú hefur áhuga, þá getum við veitt þér tækifæri lífsins
Hafðu samband og við bókum þig á fund.

-

Þetta var aldeilis ekkert svo lítið frábært. Einmitt það sem ég hafði alltaf óskað mér og lausn sem mig hafði oft vantað svo sárlega. Og nú bar ekki á öðru en að lausnin hreinlega steinlægi fyrir fótum mér í boði einhvers ótiltekins, ósýnilegs og enn sem komið var alla vega nafnlauss aðila sem stóð á bak við þessa gleðilegu auglýsingu. Nú biði mín farsældin sjálf til frambúðar í öllu sínu veldi, með útbreiddan faðminn rétt eins og álfkonan með sprotann. Eða hinn stóri og djúpi sannleikur sem engum hafði hingað til dottið í hug að gæti verið jafn sáraeinfaldur í mikilleika sínum og raunin virtist vera.

Ég sá framtíðina fyrir mér um stundarsakir í einhverjum himneskum og ljósrauðum bjarma. Blómafretandi englar með bollukinnar sem flögruðu um og léku á hörpur sínar og póstlúðra. Mér fannst umhverfið mettast af einhvers konar glaðlofti, gull og demantsryki, og umhverfið varð allt dýrðlegra en orð fá lýst.

En svo fann ég að ég var kominn með óþægilegt suð fyrir eyrun sem fór hækkandi eftir því sem ég sökk dýpra ofan í þessar pælingar mínar einhvers staðar langt handan fjarskans, eða kannski hinum megin við raunveruleikann. Og allt í einu vaknaði ég upp af dagdraumunum og hrökk ég til baka þar sem ég steytti allt í einu á fjárans núinu sem var vissulega ekki eins jákvætt og skemmtilegt. Þetta er líklega ekki alveg svona einfalt.

-

Að bóka á fund og hvað svo?

Líklega til að rukka fyrirfram einhver vesæl fórnarlömb fyrir veitta þjónustu, bjóða upp á lykil að framtíðinni, fá þau til að afsala sér dómgreindinni a,m,k, um stundarsakir, kannski að finna til einhverja einstaklinga sem ekki eru taldir trampa í vitinu.

Stendur kannski til að gera greindarskort væntanlegra viðskiptavina að féþúfu? Munu "handhafar sannleikans" leggja fram einhverjar "skotheldar pappírskenningar" sem standast síðan ekki hinn ískalda raunveruleika? - Ég veit það svo sem ekki.

En þar sem ég trúi miklu meira á rökvísi, staðreyndir og heilbrigða skynsemi en óræða skynjun, dulspeki og spádómsgáfu, tel ég að ef eitthvað virðist vera of gott til að vera satt, sé það líka undantekningalítið of gott til að vera satt. - Hvað heldur þú?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni