23.05.2012 10:31

Þeir eru kynlegir þessir femínistar



817. Ég ætlaði að vera búinn að minnast á greinina sem birtist í DV fyrir nokkru, þar sem Eimskip og Kiwanishreyfingin voru gagnrýnd fyrir að gefa öllum sex ára gömlum börnum reihjólahjálma. En eins og alkunna er mun aldrei vera hægt að gera svo öllum líki, sama hvað tilgangurinn er óumdeilanlega af hinu góða og gjörningurinn í raun einfaldur. Það er því ekki laust við að maður velti fyrir sér hvað það getur verið erfitt að dansa á þeirri hárfínu jafnræðis og réttlætislínu sem flestir vilja þó alltaf gera, en ekkert síður hvar hin línan liggur sem er ekki síður hárfín þó á annan hátt sé. Þá á ég við hvar rétmætri og eðlilegri gagnrýni sleppir og öfgarnar taka við. Hin stóru og alvarlegu mistök gerðarmanna virðast að þessu sinni vera fólgin í litavali á öryggisbúnaðinn.

-

Hildur Lilliendahl ofurfemínisti segir litavalið vera tímaskekkju. "Það græðir enginn á öðru en að við komum fram við börn af virðingu, hættum að draga þau í dilka eftir æxlunarfærum og móta þau eftir hefðbundnum kynhlutverkum." Ekki verður betur séð ef vel er að gáð, en að Hildur sé hér að gagnrýna "hvernig að málinu var staðið" áður en hún hefur fyrir því að kynna sér "hvernig að málinu var staðið" ef þannig mætti komast að orði. Það er að mínu mati við hæfi að benda henni á að gamla spakmælið að "kapp sé best með forsjá" er enn í fullu gildi.

-

Þeir Eimskipsmenn segja að fyrir þremur árum hafi þeir fengið kvartanir yfir því að hjálmarnir sem þá voru gefnir hefðu verið úreltir, ekki í tísku og krakkarnir fengust því ekki til að nota þá. Næst var boðið upp á kúluhjálma sem voru þá í tísku. Þeir voru myndskreyttir en aðalliturinn var grár sem féll ekki heldur í kramið. Núna var gerð viðamikil könnun þar sem um 40 börn voru beðin um að velja þá liti af hjálmum sem þeim leist á. Niðurstaðan var að 90 prósent af drengjunum völdu bláa hjálma og 80 prósent af stúlkunum völdu bleika. Samkvæmt upplýsingum sem Eimskipsmenn segja vera komið frá lögregluembættum víðs vegar um land, má ráða að bleiku og bláu hjálmarnir séu mikið notaðir og þeir hafi að öllum líkindum bjargað fimm mannslífum það sem af er.

Og ég spyr: Skiptir ekki meiru máli hvort þeir gera gagn fremur en í hvaða lit þeir eru?

Mér kemur í hug annað sem oftlega bregður fyrir í málflutningi femínista, en það er krafan um kynjakvóta. Má þá ekki nota þeirra eigin rök og orðfæri þegar því er haldið á lofti að ekki eigi að flokka fólk eftir æxlunarfærum þess, og spyrja hvort ekki skipti meira máli hvað er milli eyrnanna á fólki en læranna á því.

Eru sumir fullkomlega samkvæmir sjálfum sér?

-

Þess utan er særandi, sálarlega niðurdrepandi, andlega tærandi og það orsakar vanlíðan og tilfinningarót af versta tagi þegar uppskeran er neikvæðni og vanþakklæti þeim til handa sem eru að gera vel og af góðum hug. En ráð til þeirra sem vila komast hjá slíku eru líklega af skornum skammti. Helst kannski að gera alls ekki neina slæma hluti og heldur enga góða hluti, segja aldrei neitt, skrifa aldrei neitt, blanda sem allra minnst geði við annað fólk og vera sem mest ósýnilegur. 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni