05.06.2012 14:01

Meiraprófið


819. Þann 12. apríl sl. setti ég inn svolitla færslu undir yfirskriftinni "Aftur í skóla" án þess þó að fara neitt út í nein smærri atriði, þ.e. um hvers konar væri að ræða. Síðan þá hef ég alloft verið spurður þegar ég hef hitt kunningja og/eða sveitunga á förnum vegi, hvaða skóla ég sé nú kominn í. Það skal því upplýst að um er að ræða miklu frekar námskeið en einhverja alvöru skólagöngu, enda spurning hvort slíkt er ekki full mikið í lagt á "gamals" aldri.

Í byrjun aprílmánaðar þegar ég var á netflakki eins og svo oft, rakst ég á auglýsingu frá Ökuskólanum í Mjódd um meiraprófsnámskeið sem var í þann mund að byrja. Ég velti því fyrir mér svolitla stund hvort þetta gæti ekki verið allt hið skemmtilegasta mál, gagnlegt og opnaði e.t.v. ýmsar dyr, því verulega breytt skattalegt umhverfi ásamt mjög svo hækkandi verði á byggingarefni, hefur orðið til þess að það sem ég hef fengist við undanfarin ár getur tæplega talist mjög skynsamlegt lengur. Flest bendir því til að kominn sé tími til að taka svolitla vinkilbeygju, líta í kring um sig og huga að einhverju nýju sem hægt væri að reyna eða leggja jafnvel fyrir sig. Daginn eftir var ég enn að velta þessu fyrir mér og hringdi í umræddan skóla öðrum þræði og undir niðri fyrir forvitnis sakir. Ég spurði m.a. hvort ekki gæti verið að ég væri hreinlega orðinn of gamall til að setjast á skólabekk og hvort ég yrði þá ekki örugglega aldursforsetinn í hópnum. Sú sem var til svars hélt nú ekki og upplýsti mig um að á námskeiðinu sem hæfist þ. 11. apríl yrðu nokkrir á mínu reki og sá elsti allt að því heilum áratug á undan mér "í þroska". Símtalinu lauk með því að ég sló til og skráði mig í nám á vörubíl og trailer. Ég var á þeim tíma þeirrar skoðunnar að það yrði líklega nægilegur pakki í einu, og eins víst að móttakarinn í toppstykkinu sem er væntanlega farinn að slitna eitthvað, réði ekki við stærri skammt nema í einhverjum áföngum. Mér til svolítillar undrunar fór þetta allt saman svo vel af stað að það voru ekki liðnir nema þrír dagar af námskeiðinu þegar ég í bjartsýniskasti bætti leigubílnum og rútunni við og tók sem sagt allan pakkann. Róðurinn þyngdist að vísu lítillega þegar á leið, en þá var auðvitað ekki aftur snúið. Fyrir fáeinum dögum tók ég leigubílaprófið og í dag steinlá vörubílaprófið.

Ég er því bara nokkuð góður með mig þessa stundina þrátt fyrir að tæpast sé á slíkt bætandi, en þetta brölt hefur líklega orðið til þess að færri færslur hafa ratað hér inn á síðuna að undanförnu en ella hefðu gert.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 620
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 6952
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 589593
Samtals gestir: 60038
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 03:58:48
clockhere

Tenglar

Eldra efni