13.06.2012 03:58

ESB og fiskurinn í sjónum


822. Í gær komu ráðherrar evrópusambandslandanna saman til að greiða atkvæði um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu sem hefur verið nokkuð lengi í endurskoðun og miklar vonir voru bundnar við. En hvernig sem atkvæði falla er ljóst að engar grundvallabreytingar verða gerðar og framtíðarstefnan hvorki fugl né fiskur eins og komist var að orði í fréttaskýringaþættinum Speglinum í fyrradag. Framkvæmdastjórnin gerir sér grein fyrir að gagngerra breytinga er þörf, en ráðherrar flestra aðildarlandanna taka ekki annað í mál en að fresta öllum nauðsynlegum aðgerðum sem stuðla að sjálfbærni á tímum kreppu og atvinnuleysis. Ástands sem fylgt hefur ESB allt frá stofnun þess, og sé rýnt í tölur sést að meðal atvinnuleysi þar er u.þ.b. tvöfallt meira en við búum við um þessar mundir og þykir okkur þó meira en nóg um.

Talið er að allt að 90% fiskistofna í lögsögu sambandsins séu ofveidd og jafnvel í bráðri útrýmingarhættu á næsta áratug eða ekki síðar en þar næsta, verði ekki algjör kúvending á fiskveiðistefnunni sem nú er ljóst að mun ekki verða.

Fiskiskipaflotinn er allt of stór, allt of afkastamikill og allt of óhagkvæmur, en honum er haldið gangandi með endalausum niðurgreiðslum og ríkisstyrkjum.

Fiskneysla íbúa ESB er u.þ.b. tvöfallt meiri en fiskimið landanna stendur undir, svo flotinn er því gjarnan sendur á fjarlæg hafsvæði þar sem fiskistofnar annarra ríkja eru ofveiddir, eða á "enskis manns land" á úthöfunum þar sem lög frumskógarins er alls ráðandi. En niðurstaðan er sem sagt sú að umhverfissjónarmiðin skulu víkja fyrir þeim efnahagslegu og vandanum er frestað um ókomin ár. Það er því eins öruggt og 2 + 2 eru 4, að hann mun koma margfaldur í hausinn á þeim sem ákvarðarniranar tóku eða arftökum þeirra og verður þá eflaust nálægt því að teljast óviðráðanlegur. En því miður er sjaldnast  tekið tillit til slíks þegar skammtímahugsun og grunnt hugarfar ræður ferðinni eins og nú virðist vera raunin á.

Fyrir fáeinum árum tók makríllinn að ganga inn í íslenska efnahagslögsögu, líklega vegna vegna hlýnunar sjávar, nema hann hafi hreinlega verið að flýja sjávarútvegsstefnu ESB sem væri ekkert nema skynsamlegt af honum. Lengi vel viðurkenndi sambandið ekki að nokkur flótti hefði brostið í stofninn og engan makríl væri að finna á Íslandsmiðum, þrátt fyrir að mælingar sýndu að þar hefðust við meira en milljón tonn. Og þar sem við höfum tregðast við að láta kúga okkur til samninga eins og ESB vill hafa þá, er okkur hótað efnahagslegu ofbeldi nema við gefum frá okkur strandríkjaréttinn. Það glittir í hið rétta andlit kúgarans þar sem hann neyðist til að stíga út úr skugganum og taka af sér falska ímyndarblæjuna.

Við munum því standa frammi fyrir enn breyttara Evrópusambandi en fram kom í orðum Siglfirðingsins Illuga Gunnarssonar á Alþingi í vikunni, en honum varð þar tíðrætt um þróunina í átt til sambandsríkis og evrukrísuna.

Vonandi fáum við tækifæri sem allra fyrsta til þess að taka af öll tvímæli um hvort svona kompaní er eitthvað fyrir okkur?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni