18.06.2012 16:08

Erfitt að vera Steingrímur J

Líklega er óþarfi að kynna manninn...

823. Það er líklega síður en svo tekið út með sældinni að vera Steingrímur J. þessa dagana, og mikið held ég að þeim ágæta manni hafi verið úthlutað sterkum beinum, þykkum skráp og greinilega ekki krækt saman með neinum kattarbeinum í öndverðri sköpunarsögu sinni. Álag og áreiti, umtal og illmælgi, ásamt hatursfullum áróðri og núna allra síðast rætnum níðvísum hefur gjarnan verið fylgifiskur hans á kjörtímabilinu sem senn fer að styttast í. Ég get ekki annað en virt hann fyrir margra hluta sakir, þó ég sé síður en svo alltaf sammála honum eða sáttur við verk hans og hafi aldrei kosið hann.

Ég man að eftir kosningarnar 2009 sagði einn ágætur kunningi minn sem stundum hefur setið á hinu "háa" Alþingi sem varamaður, að stærsta vandamálið núna væri að það vildi enginn taka við stjórninni, en sumir væru einfaldlega dæmdir til þess vegna þess hvernig þeir (og þær) hefðu talað. Það að fara í stjórn strax eftir hrun og verða að gera allar þær óvinsælu ráðstafanir sem ekki varð komist hjá, jafngilti að margra mati pólitísku sjálfsmorði, sama hver ætti í hlut. Margt ómaklegt hefur því verið sagt í hita leiksins (eða öllu heldur í hita hrunsins) og það fer ekki hjá því að stundum sé sú röksemdafærsla sem beitt er illskiljanleg á köflum. Alla vega fyrir leikmenn sem eru á svipuðu aulastigi í pólitík eins og ég er.



Björn Jón Bragason er ekki svo ólíkur Norðmanni sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið.


Ég rakst á grein sem Björn Jón Bragason skrifaði og birtist á pressan.is fyrir nokkru undir fyrirsögninni "Bankahrun Steingríms J." Ég varð bæði hissa og forvitinn, því ég hafði ekki heyrt af því að fjármálaráðherrann fyrrverandi væri talinn bera ábyrgð á neinu bankahruni og fór því auðvitað að rýna í lesefnið sem fjallaði nær einungis um aðkomu ríkisvaldsins að hinum gjaldþrota fjármálastofnunum SpKef og SPRON.

Þar segir hann: "Tap skattborgara vegna þessa ævintýris Steingríms J. er meira en öll útgjöld ríkissjóðs til Vegagerðarinnar á þessu ári". Hann vandar ráðherranum ekki kveðjurnar, telur fulla ástæðu til að draga hann fyrir Landsdóm og dæmir hann raunar sjálfur svona fyrirfram fyrir afglöp í starfi. Hann segir einnig að á "sama tíma og framsæknasta banka landsins var neitað um lausafjárfyrirgreiðslu var gríðarlegum fjármunum almennings dælt inn í gjaldþrota sparisjóði að geðþótta valdhafanna". Þar átti hann við fyrirmyndarbankann Straum-Burðarás þeirra Björgólfsfeðga sem hann fer um mörgum fögrum orðum. Maður spurði sjálfan sig allt frá miðri grein og alla leið niður úr hvort ekki væri allt í lagi sums staðar, því ekki var minnst svo mikið sem einu einasta orði á dóminn sem féll fyrr í mánuðinum í Hæstarétti. En það var þyngsti dómur sem fallið hefur hér á landi vegna efnahagsbrota. Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs og Jón Þorsteinn Jónsson fyrrverandi stjórnarformaður Byrs fengu fjögurra og hálfs árs óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Ekki heldur eitt einasta orð um Geirmund Kristinsson sem átti vafalaust mestan þátt í falli SpKef, en síðasta heila starfsár sjóðsins (2008) undir hans stjórn, nam tapið hvorki meira né minna en nítján milljörðum.

-

Í skýrslu Price Waterhouse Coopers um sparisjóðinn, sem gerð var fyrir fjármálaeftirlitið kemur fram að Sparisjóðurinn átti fasteign á Akureyri sem Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri réð einn yfir. Engin gögn lágu fyrir um hvernig fasteignin var notuð. Sparisjóðurinn yfirtók einnig íbúð í Kópavogi og leigði hana syni eins starfsmanna sjóðsins á verði sem virðist hafa verið vel undir markaðsvirði. Samkvæmt skýrslunni nutu valdir starfsmenn fríðinda umfram hefðbundin starfsmannakjör. Sjö starfsmenn höfðu bíl til umræða, sumir fengu farsíma og ADSL-tengingar en engar reglur giltu um úthlutun þessara fríðinda. Þá fengu níu háttsettir starfsmenn líf- og sjúkdómatryggingar greiddar og fjórir til viðbótar slysatryggingu. Í skýrslunni er gerð athugasemd við að ýmis fríðinda starfsmanna SpKef hafi ekki verið gefin upp til skatts. Bílahlunnindi voru þau einu sem gefin voru upp en tryggingarnar og afnotin af húsinu á Akureyri hefði átt að gefa upp til skatts. Þá voru starfsmönnum oft lánaðar háar fjárhæðir. Til dæmis fékk þjónustufulltrúi í útibúi á landsbyggðinni 200 milljón króna lán sem nú hefur verið afskrifað. Þá fékk stjórnarmaður SpKef 800 milljón króna lán sem einnig hefur verið afskrifað.

Björn Jón Bragason gerir sem sagt enga athugasemd við ofantalið.

-

En hver er svo þessi skríbent? Björn Jón Bragason er sagnfræðingur og laganemi sem hefur gefið kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hann skrifaði bókina "Hafskip í skotlínu" að beiðni (sumir segja samkvæmt pöntun) Björgólfanna þar sem hann fegrar sumt en reynir að kasta rýrð á annað.

Eftir útkomu bókarinnar gerði fyrrum bankastjóri Útvegsbankans sáluga verulegar athugasemdir við innihaldið og sagði þá meðal annars að hún væri því miður ekki góður vitnisburður um æðsta takmark sagnfræðinnar sem ætti að vera að leita sannleikans.

Því má svo bæta við að Björn mun hafa fengið ágætlega greitt fyrir skrifin.

-

Greinarnar um "Bankahrun Steingríms J." eru í tveimur hlutum og er að finna í heild sinni á http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bjorn_Jon/bankahrun-steingrims-j.-120 og http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bjorn_Jon/bankahrun-steingrims-j.--annar-hluti

-

En þetta er ekki allt, því einhverjir Skuggabaldrar hafa í skjóli nafnleyndar fengist við hinn forna (ó)sið að yrkja níð um ráðherrann sem finna má á hinum "vafasama" vef AMX.is

 

Skallagríms vísur.

 

Við skalla er kenndur skatni einn,
skuggabaldurinn, Grímur Steinn.
Fylgir honum flokkur smár
fyrst skal nefndur komminn Már.


Indriða telja einnig má
og IceSave Svavar líka þá.
Ill er þessi auma hjörð,
sem eftir skilur sviðna jörð.

 

Arði rænir illur sá,
auð hann telur víða.
Ævisparnað ei má sjá,
aldnir fyllast kvíða.


Rænir hann og ruplar þá
sem ráðdeild mátti prýða.
Land og þjóðin líða má,
og lokum fársins bíða.

 

Og aftur var hnýtt í efnahags og viðskiptaráðherrann á AMX þegar hann fékk skeyti sem sagt var að ætti að taka á upphafi og endi Steingríms í pólitík, en hún var svona:

 

Fáum var hann fyrirmynd,

fáir nefndu hann Jóhann.

Með Jóhönnu hann sökk í synd,

síðan bara dó hann.

 

En Steingrímur sem er með liprari hagyrðingum sendi AMX svar sitt.

"Ekki kippi ég mér upp við hefðbundið og reglulegt nag ykkar í mig, en þótti fróðlegt þetta með kveðskapinn og kíkti því á hann. Þá fór í verra, því mér þótti illa kveðið. Ég vil því bjóða ykkur að birta þetta svar frá mér og bréfið með ef þið viljið.

 

Illa kveðinn er þinn leir,

ýldu fylgir þefur.

Þegi skaði þegar deyr,

þessi aumi vefur.

með viðeigandi kveðju - Steingrímur J. Sigfússon.

 

Því er svo við að bæta að Steingrími J. Sigfússyni var boðið að taka við sem sérstakur fjármálastjóri á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Grikklandi í hálft ár, en hafnaði boðinu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni