28.06.2012 02:40
Aðdáandi Biebersins no 1
824. Í síðustu viku var viðtal við hið nýútsprungna stórstirni Justin Bieber í sjónvarpi allra landsmanna og þá var einnig sýnt frá tónleikum hans. Þessi hressi og hæfileikaríki strákur er fæddur í mars 1994 og því nýlega orðinn 18 ára. Sannkallað Justin Bieber æði hefur gripið um sig um allan heim og margt af því sem bar fyrir augu á skjánum minnti á bítlaæðið fyrir hálfri öld þar sem ungar meyjar rifu í hár sitt, æptu sig raddlausar og grétu úr sér augun í miklu tilfinningahitakasti.
-
Justin Bieber lýsti því nýlega yfir að hann hefði þroskast bæði hratt og vel sem listamaður, langaði að höfða til breiðari aldurshóps en áður með tónlist sinni og segist nú eiga erindi við eldra fólk. Það kom honum skemmtilega á óvart þegar 80 ára gömul kona, Josie Dimples, bættist í hópinn. Dimples, sem er margföld amma, óskaði Bieber til hamingju með nýtt lag sem hann sendi frá sér í vor og sagðist vera stórhrifin af nýju tónlistinni.
-
Ýmislegt fylgir því að verða heimsfrægur svo að segja á einni nóttu og það er auðvitað komin út bók um kappann sem var snarað skjótlega á ylhýra fyrr á árinu. Þar er spurt "HVERSU VEL ÞEKKIR ÞÚ BIEBERINN?" sem er þeir sem vilja láta taka sig alvarlega verða auðvitað að vita í heimildarmyndinni "ALL AROUND THE WORLD: PART 1" sem er líka nýleg, fá áhorfendur að fylgja honum á tónleikaferðalagi og sjá hvernig hann ferðast á milli 19 borga í 7 löndum á aðeins 12 dögum.
-
Bieberinn skrifaði líka nýlega undir kaupsamning á glæsivillu og borgaði hvorki meira né minna en andvirði 800 milljóna íslenskra króna fyrir eignina sem var áður í eigu Nicole fyrrum eiginkonu Eddie Murphy, rúmir 1000 fermetrar með sundlaug, gestahúsi, bíósal, vínkjallara, andatjörn úti á lóðinni og ýmsum öðrum flottheitum.
-
Á dögunum varð mér ljóst og það með afgerandi hætti að frægð og frami stráksa hefur náð að festa djúpar rætur í a.m.k. einhverjum íslenskum hjörtum og það svo um munar, ef marka má myndina hér að neðan sem var tekin þ. 18. júní sl. niður við Sundahöfn.