18.09.2012 05:28

Hlaupakötturinn í Kópavogi



838. Ég dró annað augað í pung, hrukkaði ennið og hummaði svolítið með sjálfum mér þegar ég las eftirfarandi frétt sem birtist á mbl.is í síðustu viku.

"Heimilisköttur í Kópavogi olli umferðarslysi um miðnættið í nótt. Flytja þurfti ökumann á slysadeild eftir að hann ók á ljósastaur. Það var um miðnætti þegar köttur í Kópavogi hljóp út á götu og í veg fyrir bifreið sem þar var á ferð. Ökumaður sveigði frá en endaði förina á ljósastaur. Ökumaður kenndi til eftir óhappið og var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttökuna í Fossvogi til aðhlynningar".

-

Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði einmitt verið að keyra Kópavogsstrætó á leið 28 kvöldið áður þegar háttarlag kattar á Álfhólsveginum olli mér svolitlum vandræðum.

Það hefur líklega verið skömmu áður en ummrætt slys átti sér stað að ég var að koma úr Mjóddinni og var rétt ókominn í Hamraborgina þegar svart/hvítflekkóttur köttur hljóp eftir gangstéttinni og virtist vera að etja kappi við strætó. Mér fannst kisi nokkuð duglegur og standa sig vel í kapphlaupinu þar sem hann geystist áfram á gangstéttinni. Fyrst tók ég eftir honum í speglinum rétt aftan við bílinn, en eftir skamma stund var hann kominn á móts við framenda vagnsins. Svo seig hann fram úr og þá gerðist það.

Allt í einu tók hann vinkilbeygju og hvarf undir hægra horn bílsins rétt framan við framhjólið. Mér dauðbrá við þetta óvænta uppátæki kattarins og snarbremsaði ósjálfrátt. Til allrar hamingju voru ekki nema þrír farþegar í vagninum, en þeim brá greinilega rétt eins og mér því ég heyrði lágvært óp í einum þeirra, líklega þegar hann eða hún lyftist eða rann fram í sætinu við hina óvæntu hraðabreytingu. Ekki veit ég hvort farþegarnir hafa séð hlaupaköttinn eða vitað hver ásæðan var fyrir viðbrögðum bílstjórans, en mér létti mikið þegar kisi skaust undan vinstra horninu og stoppaði ekki fyrr en á gangstéttinni hinum megin. Þar settist hann niður og horfði hróðugur á vagninn fjarlægjast eins og hann vildi segja; "þarna náði ég að skjóta þér skelk í bringu karluglan þín". Ég er meira að segja ekki frá því að hann hafi verið svolítið glottuleitur til munns og augna.

-

Mér fannst þetta ekkert sérlega fyndið hjá honum enda yfirleitt ekki þekktur að því að finnast gaman að því sem er skemmtilegt, en velti því fyrir mér hvort þarna hafi verið á ferðinni sami köttur og sá sem getið var í netútgáfu Moggans.

Ef svo er, þá tel ég að hætt sé við að hin níu líf sem köttum mun vera úthlutað í "vöggugjöf" samkvæmt gömlum kattasögnum endist þeim flekkótta ekki lengi því einhver mun á endanum verða hægur á bremsunni.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496567
Samtals gestir: 54788
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 03:44:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni