06.10.2012 10:00

Nokkrar haustlegar myndir að vestan


842. Seint í nýliðnum septembermánuði var skroppið í stutta ferð vestur á firði. Farið var um Dali, Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði og Djúpið norður, en Barðastrandarleið til baka. Svolítil lykkja var lögð á leiðina þegar komið var niður af Þröskuldum og beygt til hægri eða í suðurátt, en ekki í áttina til Hólmavíkur eins og flestir vesturfara gera. Ástæðan var sú að mig hefur lengi langað til að staldra aðeins við og líta á gamla kirkjustaðinn Kollafjarðarnes, en þar þjónaði langafi minn sr. Jón Brandsson frá 1908 og allt til ársins 1950. Hans saga verður þó ekki sögð hér, heldur bíður betri, en þó frekar öllu meiri tíma en nú er aflögu til slíkra skrifta. 



Gamla íbúðarhúsið kemur kunnuglega fyrir sjónir af öllum fjölskylduljósmyndunum sem mér hafa áskotnast í gegn um tíðina, en það virðist lítið sem ekkert hafa breyst a.m.k. hið ytra frá því fyrir miðja síðustu öld.



Á leiðinni til baka var staldrað við og smellt mynd af þessu gríðarlegu magni af rekaviði og svo má sjá Drangsnesið hinum megin við Steingrímsfjörðinn. Á þeim stað ætla ég að staldra við næst eða þar næst (eða kannski þar, þar næst).



Ég velti fyrir mér hvaðan vatnið í ána eða fossinn kemur. Áin er eiginlega foss alla leið frá brún og niður úr. Ég er vanur því að sjá litlar lækjarsprænur verða að meiri vatnsföllum eftir því sem neðar dregur í hlíðum fjalla, en þessa útgáfu. Ekki man ég hvað stóð á skiltinu við vatnsfallið en ætli ég hafi ekki þarna verið staddur í Hestfirði frekar en í Skötufirði?.


Þetta er þó alla vega Hestfjörður. Myndin er tekin innarlega í firðinum sem virðist vera óendanlegur þegar horft er út eftir honum. Firðirnir sem ekið er um eða framhjá í sunnanverðu Djúpinu eru níu eftir því sem ég best veit og eru þá víkur og vogar ekki taldir með. Þeir eru talið vestan frá; Skutulsfjörður, Álftafjörður, Seyðisfjörður, Hestfjörður, Skötufjörður, Mjóifjörður, Vatnsfjörður, Reykjarfjörður og Ísafjörður. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að Ísafjörður sem er innsti fjörðurinn sé einn sá eyðilegasti, en Ísafjörður (kaupstaðurinn) þar sem flest fólkið býr, standi svo mun utar við Djúp og við Skutulsfjörð.



Hvammur í Dýrafirði þar sem hinn eini sanni Gústi Guðsmaður er fæddur. Þar var lengi fjórbýli, þ.e. efsti, mið og neðsti Hvammur og skiptist einn hlutinn í norður og suður Hvamm.



Þessi skilti eru negld á grind sem rís upp við vegg Öldunnar á Þingeyri, en þar var lengi rekin verslun og síðar verkstæði þar sem leikfangabíllinn Dúi var framleiddur. 



Þessi brunahani er með þeim nýtískulegri sem ég hef séð í dreifbýlinu og ég er ekkert viss um að þeir gerist neitt flottari syðra.



Hvort sem menn vilja nefna hann Fjallfoss eða Dynjanda, þá er hann flottur þarna utan í fjallshlíðinni.



Talsvert var að finna af krækiberjum vestra...



...en þó mun meira af aðalbláberjum.



Allra mest virtist samt vera af bláberjum. Því miður láðist mér að taka myndir af bláberjaklösunum sem urðu á vegi mínum í Arnarfirði skammt frá Mjólkárvirkjun, líklega vegna ákafans við að tína þau. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að ég hef aldrei nokkurn tíma séð annað eins magn.



Lyngið var farið að roðna, kjarrið að gulna og haustilmurinn hreinlega mettaði loftið.



Haustið var alls staðar og litir þess allt um kring.



Þessi á heitir Svíná og er ekki langt frá Dynjanda, eða væri kannski réttara að nefna náttúrufyrirbærið foss eða "hálffoss" vegna þess að hallinn í landinu er eða fer eiginlega bil beggja?



Þetta er svo vatnsfallið sem rennur í gegn um ræsi á Dynjandisheiðinni, en steypist fram af brúninni nokkru neðar og myndar einn fegursta foss á Íslandi. Dynjanda sem sr. Böðvar sem var afi Ragga Bjarna söngvarans góðkunna, vildi nefna Fjallfoss vegna lögunnar sinnar og útlits.



Eftir að komið var suður af Dynjandisheiðinni og ofan í Vatnsfjörðinn (sem Hrafna-Flóki hafði vetursetu í nokkru áður en hann nam og settist að í Flókadal í Fljótum) var eins og sjá má ærin ástæða að staldra við og smella af eins og einni sólarlagsmynd.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni