21.04.2013 08:24

Til hamingju Ásdís María


865. Hún Ásdís María Viðarsdóttir fór með sigur af hólmi í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi ásamt Oddi Inga Kristjánssyni, en þau kepptu fyrir MH. Þannig heyrði ég fréttina í útvarpinu í gærkvöldi, en var ekki alveg viss um að ég hafi heyrt rétt. Ég kveikti því á sjónvarpinu, notaði "I"  takkann til að galdra keppnina upp á skjáinn, og viti menn; þarna mátti sjá svo að ekki varð um villst að ég hafði heyrt rétt. Ásdís söng lagið Pink matter eftir Frank Ocean sem mér finnst reyndar ákaflega skrýtið lag og alls ekki það árennilegasta fyrir söngkonur sem eru að feta sín fyrstu spor.

-

Um Ásdísi er það að segja að hún vinnur með skólanum í Spúútnik í Kringlunni, en föt og fatatíska virðist tengjast genunum rétt eins og tónlistin, því Anna Sóley systir hennar rekur fataverslun við Stefansgade í Kóngsins Köben ásamt vinkonu sinni sem er fatahönnuður. Þá er ekki hægt annað en að minnast á bróðir hennar Arnar Inga Viðarsson sem spilaði með hljómsveitinni Moðhaus í músiktilraunum með ágætum árangri hérna um árið. Eftir nám í Tónlistarskóla FÍH þótti hann með efnilegri trommurum og er það reyndar enn, en undanfarið hefur hann verið við nám í Barcelona í grafískri hönnun. Ég prófaði að gúggla hann að gamni mínu og fékk 8.660 "results" sem segir auðvitað heilmikið.

En ástæðan fyrir þessum skrifum mínum um hana Ásdísi er að hún er frænka mín sem ég er ákaflega stoltur af. Reyndar er hún og hefur alltaf verið mjög mikil og góð frænka, dóttir Sæunnar systur minnar og Viðars Daníelssonar sem er Eyfirðingur innan "Akureyris". Um hana verður ekki annað sagt en að hún hefur alltaf verið uppátækjasöm, með ólíkindum ákveðin og stendur alltaf fast á sínu, hugmyndarík, listfeng, og svo mætti lengi telja og allt í plús. Hún hefur verið í tónlistrnámi um margra ára skeið, spilar m.a. á Celló og kassagítar, en hefur ofan á þetta allt saman englarödd sem á það þó til að breytast í eitthvað allt, allt annað og öðruvísi eins og kom svo glöggt fram í nýafstaðinni keppni.

Hún hljómaði eiginlega rétt eins og íslenska veðrið á umhleypingasömum degi.

-

Ásdís María, - rosalega er ég góður með mig núna fyrir að vera frændi þinn.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 539
Gestir í dag: 111
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495916
Samtals gestir: 54729
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 16:08:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni