30.07.2013 08:24
Nokkrar sumarlegar myndir frá Sigló með meiru
878. Hér eru nokkrar myndir frá Sigló sem allar voru teknar helgina fyrir Síldarævintýrið, meðan sólin hafði skinið nánast upp á hvern dag vikum saman og oft mátti sjá verulega heitar tölur á hinum flunku eða splunkunýja hitamæli utan á SPS við Túngötu. Dag eftir dag hafði hann sýnt um og yfir 20 gráður og a.m.k. tvisvar sinnum sá ég töluna 27 sem verður að teljast í það minnsta alveg bærilegt svo ekki sé meira sagt. En því miður á sælan það til að taka enda og oftar en ekki á frekar óheppilegum tíma sé þess nokkur kostur. Föstudaginn 2. ágúst var ljóst að veðurspáin var okkur ekki hliðholl og hafði hrætt margan ferðalanginn frá því að heimsækja norðurlandið, en heimamenn horfðu upp í heiðbláan himinn og skildu illa hvers vegna lítið sem ekkert fjölgaði á tjaldstæðum bæjarins.
Ég heyrði þá sögu að á fimmtudegi fyrir Síldarævintýri hefðu komið nokkrir húsbílar í bæinn, hreiðrað um sig á Rammatúninu og myndað eins og lítið þorp eða samfélag með auðu svæði í miðju. Þetta virtist vera annað hvort einhver stórfjölskyldan eða þá samhentur hópur sem síðdegis þennan dag var búin að koma sér notalega fyrir á svæðinu. En skyndileg breyting varð á að loknum veðurfréttum í sjónvarpi. Fólk kom út úr bílunum, tók saman útiborð, stóla og annað lauslegt og hvarf á braut úr bænum í miklum flýti. En rigningin sem spáð hafði verið kom þó ekki alveg strax, en laugardagurinn varð nánast eini alvöru rigningardagurinn sem komið hafði um langa hríð. - Óheppilegt.
Hér að ofan má sjá frumleg húsgögn fyrir framan bakaríiið. Hlutirnir þurfa nefnilega ekki alltaf að kosta mikið til að geta þjónað hlutverki sínu, auk þess að gleðja augað vegna frumleika og skemmtilegheita
Sjófyllingin undir hið glæsilega hótel sem ráðgert er að rísi við smábátahöfnina er komin á sinn stað, og nú er verið að setja farg ofan á hana eins og gert var áður en hið Akureyrska "Hof¨" áður en það var byggt.
Þessa mynd tók ég út um stofugluggann minn sem er þráðbeint fyrir ofan innganginn inn í bakaríið. Þegar ég horfði niður eftir götunni var Ómar Hauksson þar á rölti ásamt fólki úr Húsbílafélaginu, hann sagði sögu húsanna, fyrrum íbúa og athafnamanna sem þar höfðu átt viðdvöl og kom auðvitað víða við í frásögn sinni, enda bæði af nætu af taka og Ómar vel fróður um þessa hluti.
Skömmu síðar sama dag voru prúðbúnir gestir á leið til brúðkaupsveislu sem haldin var í Allanum. ér datt í hug lína úr Flowerslaginu Glugginn, "Ég sit og gægist oft út um gluggann, að gamni mínu út yfir skuggann".
Og einmitt þarna hafði Sparisjóðsmælirinn sýnt okkur töluna 27 í svolítinn tíma upp úr hádeginu og eithhvað fram eftir degi. Fleirum en mér varð orðið ansi heitt svo ekki sé meira sagt og einhverjum fannst heillaráð að fá sér kalt fótabað í fjörunni fyrir framan Hannes Boy og Rauðku.
Á laugardagsmorgni settist ég inn í spjall á útvarpsstöðinni Trölla sem útvarpar á FM tíðninni103.7 hjá þeim Hrólfi, Gulla Stebba og Ægi, en þessi siglfirska stöð er nú til húsa í gömlu skattstofunni sem var í eina tíð á hæðinni fyrir ofan Verslun Guðrúnar Rögnvalds að Túngötu 5, húsinu sem hallar svo áberandi í áttina til fjalls, en þar er Ljóðasetur Íslands núna.
Eftir hálfs mánaðar dvöl á Sigló þurfti ég að skjótast suður yfir heiðar í tvo daga, en á leiðinni þangað ók ég um tíma á eftir þessari hestakerru sem var frábrugðin öðrum ökutækjum að því leytinu til að hún bar tvö skráningarnúmer.
Ákaflega sérstakt og örugglega mjög sjaldgæft líka...
Skrifað af LRÓ.