04.08.2013 23:12
Steingrímur í nýju starfi
Síðan umrædd breyting varð á rekstri vefsíðunnar hefur Steingrímur sinnt áhugamáli sínu af alúð og natni, enda haft mun meiri tíma til þess en áður og hefur því daglega mátt sjá hann á ferðinni í bænum, en að sjálfsögðu aldrei myndavélalausan. En líklega hefur okkar manni fundist hann hafa orðið of lítið að gera því hann hefur nú tekist á hendur nýtt starf, og nú sem safnvörður í hinu nýopnaða Ljósmyndatækjasafni sem er til húsa að Vetrarbraut 17 og er kærkomin viðbót í siglfirsku safnaflóruna sem er nú farin að spanna ansi breitt og skemmtilegt svið.
Ég leit við hjá Steingrími í safninu og sníkti auðvitað kaffi í leiðinni. Þarna eru saman komnir fjölmargir forvitnilegir gripir sem allir eiga það sameiginlegt að tengjast sögu ljósmyndunnar hérlendis allt frá upphafi hennar. Ég fékk þó að vita að ekki væri allt komið enn, því talsvert af tækjum væri enn í geymslum syðra. Baldvin og Inga eigendur ljósmyndavöruversluninnar BECO eiga heiður skilið fyrir framtak sitt, en þau hafa safnað öllum þeim tækjum og tólum sem þarna er að sjá og meiru til. Þau keyptu húsið við Vetrarbrautina fyrir nokkrum árum og eru nú langt komin með að gera það mjög smekklega upp. Fyrir fáeinum dögum átti ljósmyndari frá Mbl.is leið um Siglufjörð og leit þá við á safninu. Afrakstur þerrar heimsóknar má sjá ef fylgt er slóðinni http://www.mbl.is/frettir/sjonvarp/84708/?cat=innlent
Það má svo geta þess í leiðinni að unglambið er ekki nema 79 ára gamalt sem er auðvitað ekki nokkur aldur og þess vegna ekkert óeðlilegt að starfsorkan sé allt að því óendanleg eins og hún svo sannarlega virðist vera. En ber er hver að baki o.s.frv. eins og spakmælið segir, því ekki megum við gleyma þætti Guðnýar í Bakka sem stutt hefur bónda sinn alla tíð.
Hér að neðan (og reyndar ofan líka) eru nokkrar myndir sem ég tók í innlitinu, og ég vil hvetja þá sem enn eiga eftir að kíkja þarna við til að gera það sem fyrst - og oftast.
Steingrímur bauð upp á kaffi sem ég þáði með þökkum.
Tveir af fjórum skápum sem eru fullir af ljósmyndatækjum og tólum.
Myndavélarnar eru svo sannarlega frá ýmsum tímum.
Sumar greinilega komnar á mjög virðulegan aldur.
Eins og klipptar út úr svart/hvítum draumi síðustu aldar.
Og þessu tæki ásamt fylgihlutum skortir mig þekkingu til að lýsa.
Eða þá þessari gömlu merkismaskínu sem er Rússnesk eftirlíking af LEICA.
Þið verðið bara að sjá með eigin augum og njóta í leiðinni leiðsagnar Steingríms sem veit auðvitað heilmikið um þessa gömlu dýrgripi.
Skrifað af LRÓ.