05.10.2013 22:41
Kveðja til Eyþórs vinar míns
888. Allt er í heiminum hverfult, það sem við þekkjum er
forgengilegt og ekkert okkar mun eiga samleið með eilífðinni. Vinur
Síðan það gerðist hef ég oft og mörgum sinnum byrjað á því að setja niður nokkur orð um hann Eyþór, bæði sitjandi við tölvuna og einnig í huganum. En allar þær hugleiðingarnar þar til nú, hafa alltaf endað með einhverjum vangaveltum um hvað sumt getur verið svo ótímabært, næstum því óeðlilegt og eiginlega óásættanlegt með öllu.
Ég kynntist Eyþóri fyrst haustið 1987 þegar Siglfirðingurinn og trommuleikarinn Hallvarður S. Óskarsson hringdi í mig og spurði hvort ég væri ekki til í að stofna með sér hljómsveit ásamt ágætum manni, mjög lunknum gítarleikara og fínum söngmanni með mikla reynslu í poppinu, sem væri á lausu um þessar mundir. Ég var auðvitað til í það og mætti á tilsettum tíma í bílskúrinn á fyrstu æfinguna hjá Hallvarði sem bjó þá á Langholtsveginum, og þar mætti einnig Eyþór Guðleifur Stefánsson með gítarinn og magnarann hvort í sinni hendinni. Það fór strax ágætlega á með okkur og æfingarnar gengu vel fyrir sig, við náðum vel saman í söng og leik og vorum fljótir að koma okkur upp prógrammi þar sem breiddin og fjölbreytnin var höfð að leiðarljósi. Fyrst sáu þeir Eyþór og Hallvarður um allan söng, en Eyþór hvatti mig til þess að verða mér úti um góðan míkrafón og auka þannig mína framlegð ef svo mætti segja. Ég hafði fram til þessa ekki verið mikið fyrir að þenja raddböndin en hann er líklega ábyrgur fyrir þeirri stefnubreytingu sem þarna varð og innan skamms vorum við farnir að syngja heilmikið þríraddað sem hljómaði hreint ekki svo bölvanlega þó ég segi sjálfur frá.
Fyrsta giggið var bókað mjög fljótlega eftir að æfingar hófust. Það voru að mig minnir Kiwanismenn í Vestmannaeyjum sem höfðu pantað hið splunkunýja tríó á haustfagnað sem þeir hugðust halda fyrsta laugardag í októbermánuði. Dagurinn rann upp, en þó hvorki bjartur né fagur eins og allir höfðu vonast eftir, heldur með beljandi stormi og grenjandi rigningu. Fellibylur sem hafði gert heilmikinn usla á austurströnd Bandarríkjanna fáeinum dögum áður, var nú kominn alla leið til Íslands og freistaði þess að nota síðustu krafta sína til að gera okkur Frónbúum lífið leitt áður en hann legði upp laupana og umbreyttist í djúpa lægð samkvæmt stöðlum og skilgreiningum veðurfræðinnar. Það tókst og við fórum hvergi þennan dag. Herjólfur komst ekki inn í höfnina í Þorlákshöfn vegna veðurhamsins og ölduhæðarinnar, og ekkert var flogið frá Reykjavíkurflugvelli þennan dag. Eða kannski næstum ekkert, því þá tröllasögu fengum við að heyra að Vestmannaeyingar hefðu fyrir satt að Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar hefði komið með flugvél til Eyja þennan sama dag og spilað í Höllinni. Þeir hefðu einfaldlega beðið á vellinum eftir hinu hárrétta andartaki og þegar auga fellibylsins fór yfir Reykjavík hófu þeir sig á loft í lítilli Cessna vél, fylgdu síðan auganu til Vestmannaeyja og lentu þar í logni áður en veðrið varð hreinlega kolbrjálað á ný. Það fylgdi auðvitað sögunni að þetta hefðum við líka átt að geta fyrst Magnús og co. gerðu það og gátu. Hugsanlega hefur þessi saga náð einhverju flugi úti í Eyjum, því það leið næstum því heill áratugur áður en nærveru okkar var næst óskað þar um slóðir.
En sagt er að fall sé fararheill og vissulega styður þessi saga þá kenningu nema hvað fallið entist óþarflega lengi að okkar mati, því enginn annar óskaði eftir þjónustu okkar þetta haustið. Það var því ekki fyrr en eftir áramótin og þegar árið 1988 var runnið upp, að hjólin fóru loksins að snúast, en þá gerðu þau það líka með stæl.
Eitt af því fyrsta sem við gerðum var að fara í myndatöku og fá Siglfirðinginn Birgir Ingimarsson sem hafði þá nýlega hafið sjálfstæðan rekstur, til að hanna og láta framleiða auglýsingaplakat sem er reyndar enn verið að nota við sérstök tilefni.
Hljómsveitarútgerðin fór vel af stað.
Á árum áður leit helst út fyrir að Eyþór yrði togarasjómaður, en örlögin hafa líklega ætlað honum annað hlutverk því hann fór að finna til í baki og kom því alkominn í land allmörgum árum á undan áætlun. Gítarinn varð hans næsta viðfangsefni og áhugamál, hann spilaði með ýmsum hljómsveitum og var mikið í lausamennsku í tónlistarbransanum næstu árin. Oft gengu hlutirnir þannig fyrir sig að einhver fékk upphringingu og fyrirspurn vegna þorrablóts eða einhvers slíks, og í framhaldi af því var oftar en ekki komið gigg án hljómsveitar. Síðan var hringt í einhverja sem voru líklegir til að geta mætt nánast óundirbúnir á ballið en samt kunnað allt, og þá var oft hringt í Eyþór því hann var einn af þessum eldkláru.
Árið 1977 gekk hann til liðs við Ragga Bjarna og Sumargleðina þar sem hann var einn af hornsteinunum í hart nær áratug. Þar var hann samtíða Siglfirðingnum Stefáni Jóhannssyni trommuleikara sem áður hafði verið í hinni geysivinsælu hljómsveit Dátum.
Það var á þeim árum sem Eyþór hóf fyrir alvöru námið í myndlistinni sem síðar átti síðan eftir að verða hans aðalstarf það sem eftir var. Ég rakst á eftirfarandi viðtal við hann úr DV. frá 16. október 1985.
Maður verdur að
standa sína plikt
Sá sem stendur pliktina svo staðfastlega heitir Eyþór Stefánsson og skylduræknin rekur hann milli Íslands og Noregs einu sinni í viku. Hann stundar listnám í Osló en flýgur hingaö um hverja helgi til þess aö taka þátt í Sumargleðinni á Broadway. Og sem gefur að skilja er Eyþór á þönum þann tíma sem hann eyðir á Íslandi en gaf sér þó tíma í örstutt spjall við Sviðljósið.
,,Það er engin spurning, maður verður að standa sína plikt. Eg er nú einu sinni úr þessum hópi og hef verið með Sumargleöinni síðastliðin átta ár, byrjaðí fyrst á Hótel Sögu hjá Ragga
Bjarna að spila á gítar haustið 77 og hef verið með honum síðan, bæði í hljómsveitinni og Sumargíeðinni.
"Guð
Það er ýmislegt skemmtilegt sem gerist í tengslum við Sumargleöina, hress hópur þar, og ég vil ómögulega missa af strákunum. Ýmislegt hefur verið á dagskránni, misvinsælt eins og alltaf verður en með betri atvikum var þegar ballettatriðið var sýnt. Ég held það hafi verið
uppi á Skaga. Þá áttu allir að vera ofsasætir og dansa ballett, klæddir eins og alvöruballerínur.
Þetta gekk allt upp og enginn vandi að finna búninga og skó
á mannskapinn. Svo þegar þeir stíga inn á sviðið er steinhljóð, enginn segir
neitt í salnum. Það hefði mátt heyra saumnál detta. Að lokum var þögnin rofin
með þungu andvarpi og stunu í konu einhvers staðar í salnum: "Gvuð
Að pota í myndlist
Eiginlega var það spilamennskan sem gerði mér fært að læra myndlist. Eg var að pota í þetta svona af og til með vinnunni en svo var spilamennskan á Sögu að kvöldi og því gat ég farið í
Myndlista- og handíðaskólann að deginum og útskrifaðist þaðan úr kennaradeild, tók eitt ár í málaradeildinni eftir það og fór svo til Noregs. Í Noregi er ég í listnámi í Osló í Statens Kunstakademi, og nota því bara helgarnar til þess að vera með strákunum í Sumargleðinni. Kem síðdegis á fimmtudag og fer snemma á sunnudagsmorgni. Eg verð bara á þessu flakki núna og gæti þess að þetta standi undir sér. Í raun og veru ef þetta er hugsað rökrétt þá er enginn tími sem fer í að fara á milli, þetta er bara eins og að fara héðan úr Reykjavík á Hvol að spila."
Eyþór nýkominn til Noregs
Það var á árunum meðan samstarf okkar stóð yfir að Eyþór hóf að vinna fyrir DV. Hann teiknaði það sem kallaðist "Myndgátan" fyrir hvern einasta dag sem blaðið kom út í meira en áratug. Hún naut mikilla vinsælda, enda oft stutt í húmorinn hjá okkar manni eins og sjá má á meðfylgjandi sýnishornum.
(Tvílyft timburhús).
(Skaftfellingar).
(Sjónarvottur ber vitni).
Er þetta ekki alveg dásamlegt?
Eftir að Hallvarður yfirgaf Vana Menn og fór að tromma með Lúdó sextett og Stefáni, spiluðum við Eyþór tveir saman um tíma, en síðar bættist söngkonan Þuríður Sigurðardóttir í hópinn en hún hafði áður starfað með Eyþóri á Sumargleðisárunum. Hún söng með okkur í sex ár með litlum hléum, en síðan urðum við Eyþór aftur tveir sem hentaði okkur ágætlega.
Ég, Þura og Eyþór að spila á oktoberfest á Vitanum í Sandgerði.
Eyþór var mjög vaxandi myndlistamaður á þessum tíma og kom víðar við eftir því sem árin liðu. Kannski var hann betur þekktur og hærra skrifaður af mörgum "kollegum" sínum og myndlistarelítunni erlendis en hérlendis.
Dæmi um það er viðtal sem birtist í DV. laugardaginn 14. júlí 2001.
Lesendur DV kannast flestir við myndagátuna sem birtist daglega á tilverusíðum blaðsins. Listamaðurinn Eyþór Stefánsson hefur í rúm tíu ár teiknað og birt rúmlega þrjú þúsund myndagátur. Eyþór starfar einnig sem "freelance" teiknari og teiknar skrýtlur, eins og hann kallar þær, fyrir danskt dagblað. Fyrir skömmu sigraði hann í alþjóðlegri teiknimyndasamkeppni sem haldin var á vegum Federation og European Cartoonist Organisations (FECO) sem haldin var í Tyrklandi.
Alþjóðleg viðurkenning
Eyþór segir að hann hafi verið með blýantinn á lofti og
eitthvað að krota frá því að hann man eftir sér. Þorsteinn Eggertsson, sem er í
forsvari fyrir FECO á íslandi, hafði samband við mig í vetur og bauð mér að
ganga í félagið. Í framhaldi af því sendi ég tvær teikningar í alþjóðlega
keppni fyrir kartúnista í
-
Og Morgunblaðið sagði líka frá 18. nóvember sama ár.
Íslenskur
skopmyndateiknari vinnur til verðlauna
Eyþór Stefánsson skopteiknari vann til Aydin Dogan-verðlauna
Alþjóðlegu samtaka skopmyndateiknara, FECO, á dögunum og fór athöfnin fram í
óperuhúsinu í
Ekki man ég eftir að hafa heyrt neitt af keppninni sem haldin var í Rúmeníu árið eftir, en árið þar á eftir var hann aftur kominn á verðlaunapall í Tyrklandi eins og lesa má í Morgunblaðinu 14 janúar 2003.
Vann önnur verðlaun í teiknisamkeppni
EYÞÓR Stefánsson myndlistarmaður hlaut á dögunum önnur verðlaun í stærstu alþjóðlegu teiknisamkeppni sem haldin er árlega á vegum stofnunar Aydin Dogan, stærstu menningar- og listastofnunar Tyrklands. Fékk Eyþór 5 þúsund dollara í verðlaun auk styttu.
"Ég hef fengið töluvert af tölvupósti með boðum um þátttöku í hinum ýmsu sýningum og keppnum út um allan heim," segir hann aðspurður um frekari ávinning af árangrinum.
Að þessu sinni kepptu 1.350 teiknarar frá 90 löndum og var mynd Tyrkjans Mamet Ates Gulcuqil valin besta myndin. Þess má geta að Eyþór keppti einnig árið 2001 og hlaut þá sérstök velgengnisverðlaun. Þema keppninnar að þessu sinni var hryðjuverk. Verðlaunamynd Eyþórs, túss og litblýsteikning, sýnir dreng frá mið-austurlöndum í nöturlegu umhverfi skoða blað með hríðskotabyssum í skini ljóss frá Coca-Cola-sjálfsala. Birtugjafinn, gossjálfsalinn, er að sögn Eyþórs tákn fyrir innihaldsrýra menningu.
Við Eyþór ræddum myndina og boðskap hennar eitt sinn og hann hafði þá nokkurn vegin eftirfarandi um hana að segja svona meiningarlega séð: "Vesturlensk stórfyrirtæki láta vissulega oft þriðja heims þjóðum í té svolitla ljóstýru, en þær þurfa vissulega að borga fyrir hana því hún er kannski einmitt tækið sem er notað til að arðræna þau. Vesturlönd láta líka ótrúlegustu harðstjóra hafa vopn og fleira ef það þjónar stundarhagsmunum þeirra, en sömu vopn eiga stundum til að snúast gegn þeim sem upphaflega lét þau í hendur "sinna manna".
Beggja vegna gaddavírsgirðingarinnar eru varðstöðvar. Öðru megin eru Ísraelar, en hinum megin Palstínumenn. En ýmislegt er öllum sameiginlegt og klósettrúllan gengur á milli. Allir erum við jú mannlegir inn við beinið...
Eyþór var mikill húmoristi, en glottaralegt gamanið og góðlátlegt grínið fer eins og rauður þráður í gegn um nánast öll hans verk.
Þegar ég eitt sinn stakk upp á að við létum
Nafnspjaldið
Stundum var þó skriplað á endimörkum hinnar rauðu markalínu sem helst má aldrei fara yfir sé vel og vandlega hugað að viðteknu almennu velsæmi. Eitt sinn vorum við pantaðir til að spila í kirkju nokkurri á höfuðborgarsvæðinu við brúðkaup. Meðan við biðum í pínulitlu og mjög gisnu herbergi eftir að röðin kæmi að okkur, uppi á bak við orgelið þar sem kirkjukórinn heldur sig alla jafna, fórum við að spjalla saman um hin verðandi brúðhjón. Eyþór leist þannig á að þetta myndi nú líklega ekki endast mjög lengi, en á eftir fylgdu nokkrir vafasamir brandarar og "strákasögur" sem tengdust þó ekki fyrri umræðunni á nokkurn hátt, en líklega hefur það nú verið gert.
Ég heyrði mjög ákveðna ræskingu undir fótum mér en hugsaði þó ekki mikið meira um það að sinni. Við héldum áfram að spjalla á svipuðum nótum og einhver ræskti sig aftur og nú mun hærra en áður. Mér fannst eins og einhver væri hreinlega staddur inni í herberginu hjá okkur, en svo var þó alveg örugglega ekki.
Í sama mund var dyrunum svipt upp og inn næstum því datt kirkjuvörðurinn, eins og eldkúla í framan og nánast hvæsti að okkur með samanbitnar tennur:
"Strákar, hvert og eitt einasta orð sem þið segið heyrist bæði skýrt og greinilega niður til kirkjugestanna sem sitja hér beint fyrir neðan."
Okkur dauðbrá auðvitað og við horfðum hvor á annan heldur betur skömmustulegir á svipinn. Ég leit niður og sá þá ofan á kollinn á kirkjugestum sem sátu fyrir neðan milli gisinna gólfborðanna.
Kirkjuvörðurinn fór og virtist ætla að skella panelklæddu Z-dyrunum á eftir sér en hætti við í miðju kafi og ég sá þær leggjast bæði ákveðið og mjög þétt af stöfum.
Þá stóð Eyþór upp, gekk út í horn og laut þar höfði rétt eins og hann hefði verið sendur út í skammarkrók. Síðan gægðist hann aulalega út undan sér í áttina til mín.
Ég var næstum því sprunginn af hlátri því þetta var meira en verulega fyndið. Ég mátti þó alls ekki hlægja því það hefði örugglega ekki bara heyrst niður, heldur út um alla kirkju sem mátti alls ekki gerast á þessari stundu. Mér tókst þó ekki að bæla niður alveg öll hljóð því eitthvað slapp út og hljómaði eins og dapurlegt ekkasog án þess þó að því fylgdu neinar afleiðingar, ákúrur eða athugasemdir, til allrar hamingju.
Mörgum árum síðar hitti ég einn kirkjugestanna sem tjáði mér að hjónabandið hefði endst í tæp tvö ár.
Myndin er tekin á Húsbílaballi á Arnarstapa vestur á Snæfellsnesi, árið 1991 eða 1992.
Í heil tíu ár samfleytt spiluðum við fyrir Húsbílafélagið. Einu sinni að vori við upphaf sumars og svo aftur að hausti, en það var haldin árshátíð og ferðasumrinu lokað.
Í einni vorferðinni fórum við Eyþór í sund. Ekki af því að okkur langaði svo mikið til þess að synda, heldur miklu meira vegna þess að það var löngu komin nótt og lauginni hafði því verið lokað fyrir einhverjum klukkutímum síðan, það þurfti að klifra yfir háa girðingu til þess að komast ofan í og við áttum ennþá nokkra ókláraða bauka. En fyrsta og síðast líklega vegna þess að allt sem er bannað er nefinlega miklu meira gaman en það sem má. (Ég man það ekki alveg).
Í Offiseraklúbbnum á Keflavíkurvelli m.a. fyrir deild Frímúrara innan Vallar og reyndar fleiri aðila á þeim slóðum. Eitt sinn stóð eitthvað meira til en venjulega og það var beðið um mynd af hljómsveitinni til að nota á auglýsingaplakat.
Hugmyndin um humrana var sprottin upp úr lífseigum innansveitarhúmor sem var mikið í gangi um tíma en ekki verður skýrður nánar hér. Eyþór sendi mynd af hljómsveitinni eins og um var beðið vegna fagnaðarins, en auðvitað í sinni útfærslu. Eitthvað skilst mér að móttakendurnir hafi orðið undrandi yfir sendingunni, en birtu hana samt neðst í hægra horninu eins og sjá má.
Árið 2005 tók myndlistin yfr tónlistina. Það var ekki lengur rými fyrir hvort tveggja. Eyþór sagðist eftir sautján ára samstarf ekki getatreysta sér til að sinna hvoru tveggja, - því miður. Ég skildi það vel og poppgúrúinn Axel Einarsson tók við af honum sem gítarleikari dúósins. Skömmu síðar var Axel staddur erlendis þegar kallað var eftir gítarleikaranum í gigg. Ég hringdi í Eyþór, en hann svaraði ekki fyrr en daginn eftir og þá með undarlega drafandi röddu.
"Ertu fullur" spurði ég, en hann sór og sárt við lagði að svo væri ekki, en hann hann hefði hins vegar fengið heilablóðfall.
Ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við, en honum virtist næstum því skemmt yfir því hve ég varð vandræðalegur.
"Það er fúlt að komast ekki í giggið, en mér er haldið hérna nauðugum".
Ég átti engin svör.....
-
Í ár voru ákveðin vatnaskil hjá Vogaakademíunni, en svo kallar sig hópur myndlistanemenda sem numið hefur hjá Eyþóri í Vogunum og jafnan sett upp sýningu á verkum sínum á Ljósanótt undir handleiðslu kennara sins. Nú var skarð fyrir skildi því hans naut ekki lengur við og setti því akademían upp sýningu á verkum Eyþórs í minningu hans.
-
Eyþór Guðleifur Stefánsson var fæddur í Kaupmannahöfn 11. júní 1950 og lést þ. 8 júlí 2013.
Hann hvílir í Kálfatjarnarkirkjuugarði á Vatnsleysuströnd
Jarðarförin fór fram í kyrrþey seinni hluta júlímánaðar.
Ég votta eftirlifandi eiginkonu hans Guðrúnu Pétursdóttir mína dýpstu samúð svo og dætrunum þremur, þeim Sigríði, Anítu og Ástu