27.11.2013 22:54
Aðalbarinn
899. Ég fékk þessa stórskemmtilegu
vetrarmynd af Aðalgötu 28 senda frá honum Hilmari Gunnarssyni sveitunga mínum, en
hann hefur undanfarið verið að láta skanna fjölda slidesmynda sem faðir hans
Gunnar Þórðarson símvirki tók á árabilinu 1964-68.
Eitt og annað vekur þarna
athygli mína, t.d. að tónskólalóðin var vandlega girt og með pílárahliði. Ég
man aftur eftir girðingunni sem var annars löngu gleymd og horfin langt inn í lágþokubakka
fortíðarinnar þegar ég sá myndina.
Til hægri sést í gaflinn á
Aðalgötu 25. sem eitt sinn hýsti verslun Péturs Björnssonar. Hver ætli hafi átt
heima þar á efri hæðinni þegar myndin var tekin? Kannski Stebbi lögga? Og ætli
Þóra (fædd 1956) hafi þá átt reiðhjólið sem sést neðst í horninu?
Það verkur líka athygli mina að
Schiöth-húsið virðist vera nýmálað og er ákaflega vel útlítandi, en þegar ég
eignaðist það (um áramótin 1980-81) hafði neðri hæðin nýlega verið máluð með
skelfilega grænum lit, en að öðru leyti var málningin mestöll flögnuð af. Litlu
kvistirnir voru rauðir, - alveg rétt. Og skorsteinninn gægist yfir mæninn, en
hann var brotinn niður árið 1996 m.a. af Óla Kára og fleirum þegar norðurþekjan
var endurnýjuð, en hann var þá í læri Sigga Konn.
Takið eftir að á jarðhæðinni
lengst til hægri og næst Aðalbúðinni er hurð þar sem nú er gluggi. Þarna var
inngangur sem m.a. var ætlaður vinnu og afgreiðslufólkinu sem bjó uppi í
kvistunum, en talsvert mjórri stigar lágu alla leið þangað upp en þeir sem lágu
frá núverandi inngangi næst Allanum og ætlaðir voru apótekaranum og fjölskyldu
hans.
Fyrir ofan dyrnar þar sem nú er gengið inn í bakaríið hjá Kobba stendur AÐALBAR. Þegar ég var á barnaskólaárunum var staðurinn yfirleitt kallaður Sjuttabarinn og þótti ekki henta öllum aldurshópum til að hanga á. En það var nú samt stundum laumast til að kíkja þangað.
Þegar rýnt er betur í myndina sést að ungur maður gægist út um stofugluggann, innan úr hlýjunni, öryggi heimilisins, virkinu þar sem hann á athvarf sitt, út í hríðina, veturinn og kuldann þar sem frostið bítur.
Hver skyldi þetta vera?