05.04.2014 09:46

Andlát síðustu myndvélar



921. Fyrir fáeinum dögum varð ég fyrir því óhappi að missa myndavélina mína á gólfið í strætó. Má alveg örugglega segja að sá dagur sem það gerðist hafi hennar allra, allra síðasti, því linsan festist svo kyrfilega að hún hefur verið eftir það að hálfu úti og að hálfu inni og ég náði með herkjum að tæma kortið áður en hún lokaði endanlega á öll frekari boðkipti okkar á milli.

Henni verður sem sagt ekki bjargað og mig bráðvantar þess vegna létta og meðfærilega brjóstvasamyndavél.

Það má svo sem líka segja að tjónið hafi kannski ekki verið svo ýkja mikið, því fyrirsjáanlegt var að ég þyrfti fljótlega að fara að líta eftir arftaka hennar. Hún hafði nefnilega þá þegar orðið fyrir einhverju hnjaski og það jafnvel nokkrum sinnum áður, því það var farin að skorta nokkuð upp á skýrleikann þegar aðdráttur og ýmis fínlegheit voru annars vegar.

Eftir svolitla skoðun á milligóðum (og millidýrum) myndavélum sem færu vel í vasa, sá ég að Canon PowerShot SX210 IS var á dúndurgóðu tilboði hjá Nýherja. Sú er 14 megapixla, með þriggja tommu skjá og aðdrátturinn er fjórtánfaldur, en ég leit mjög til síðarnefnda möguleikans sem afar nýtist vel í landslagsmyndum á fjallaferðum.

Ég hafði samband við vin minn Steingrím sem flest veit þegar myndavélar eru annars vegar og hann hafði auðvitað sínar skoðanir á málinu sem ætti ekki að koma nokkrum manni á óvart sem til þekkja.

Steingrímur vildi að sjálfsögðu að ég verslaði í BECO og það skiljanlega, því auðvitað eigum við Siglfirðingar að beina viðskiptum okkar til okkar manna. Hmmm. en svona í alvöru, þá sagði hann Nikon COOLPIX S5200 einfaldlega betri kost. Sú er 16 megapixla sem munar auðvitað um, er líka með þriggja tommu skjá, en aðdrátturinn er aðeins sexfaldur. Meira en gengur og gerist í svona litlum vélum, en samt ansi miklu minna en á Canonvélinni.

Svo bætti hann við; "En Leó, þú átt völina..........og kvölina".

Og mikið rétt, ég finn alveg hvernig valkvíðinn nagar mig að innan.

Eru annars nokkrar fleiri ábendingar?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495526
Samtals gestir: 54633
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 12:10:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni