20.04.2014 02:38

Margrét SI 4 og fyllerí aldarinnar sem leið


(Endurunnin ljósmynd úr Morgunblaðinu).


925. Miðvikudagurinn 18. febrúar 1959 er einn af stóru dögunum í útvegssögu Siglufjarðar, því þá sigldi splunkunýtt og stórglæsilegt fley inn fjörðinn og lagðist að Öldubrjótnum. Þó að tilkoma hins nýja skips væri tæpast til þess fallin að auka á fjölbreytileikann í atvinnumálunum í bænum, var hvert starf sem bættist við vel þegið. Næstum því tveir áratugir voru liðnir frá því að íbúatala Siglufjarðar hafði náð sínum hæstu hæðum og allra síðustu árin var ekki laust við að Klondike norðursins hefði sett nokkuð niður í þeim efnum. Atvinnuleysi yfir vetrartímann hafði að vísu alltaf verið vandamál og það varð varla leyst nema með nokkuð breyttum atvinnuháttum. Menn höfðu að vísu alltaf vitað að það voru fleiri fiskar í sjónum en síldin, en vonin um mikinn gróða á stuttum tíma hafði löngum dregið margan mætan spekúlantinn á síldartálarnar og það má með nokkrum rétti segja að bolfiskveiðar hafi því lengst af ekki haft það vægi í atvinnusögu staðarins sem skynsamlegt hefði verið.

 


 

Greinastúfurinn hér að ofan birtist í Alþýðublaðinu fimmtudaginn 19. febrúar 1959 og þar sagði frá komu skipsins á mjög svo hefðbundinn hátt. Ekki var minnst einu einasta orði á veisluna miklu sem í hugum þeirra sem upplifðu hana, var órjúfanlegur hluti af sögu og tilkomu Margrétar SI-4.

 

MJÖLNIR birtir föstudaginn 20. febrúar 1959 frétt af komu skipsins þar sem aðeins er ymprað á því að einhverjar veitingar hafi verið í boði við komu þess fyrir gesti og gangandi. Því miður er enginn skráður fyrir henni, en hér að neðan fer frásögn MJÖLNIS.

 

"Nýtt skip komið til Siglufjarðar Margrét, SI 4, kom hingað á miðvikudaginn.

Skipið fer á togveiðar eftir nokkra daga.

Á miðvikudaginn kom hingað til Siglufjarðar eitt hinna austur-þýzku togskipa, sem byggð voru fyrir atbeina fyrrverandi ríkisstjórnar. Skipið heitir Margrét og einkennisstafir þess eru S.I. 4. Eigandi skipsins er Útver h/f, framkvæmdastjóri þess er Árni Friðjónsson, en formaður félagsstjórnarinnar er Vigfús Friðjónsson. Stærð skipsins og vélaútbúnaður er að engu frábrugðinn frá hinum austur-þýzku skipunum sem áður voru komin, nema Margrét er útbúin með sjálfstýringu. Var sá útbúnaður settur í skipið í Kaupmannahöfn. Vélin er 800 ha. Mannheim dieselvél. Radar er ekki kominn í skipið, en von er á Decea-radar af nýrri gerð, sem settur verður í það strax þegar hann kemur. Skipið fór frá Stralsund 21. janúar til Kaupmannahafnar, en þar var sett i það sjálfstýringin, miðunarstöð og talstöðvar, en þær eru þrjár. Þá kom í ljós leki með stefnisröri, og var þá farið aftur til Stralsund og gert þar við lekann. Þaðan var lagt var stað heim 12. febrúar. Skipstjóri á Margréti er Helgi Jakobsson og sigldi hann skipinu hingað frá Þýzkalandi. Þegar á fyrsta degi eftir brottförina frá Stralsund hreppti skipið slæmt veður sem hélzt alla leiðina. Gizkaði skipstjórinn á að þegar það var verst, hafi vindhraðinn náð 12 -13 vindstigum. Reyndist skipið í alla staði hið bezta sjóskip, og mun meðal ganghraði þess hafa verið um 11 mílur. Norður af Shetlandseyjum heyrðu skipverjar á Margréti hjálparbeiðni frá vélbátnum Gullver NS 12. Er það nýr 70 lesta bátur, sem var á leið til Seyðisfjarðar frá Danmörku. Hafði brotnað tannhjól í kælivatnsdælu vélarinnar og rak bátinn fyrir sjó og vindi. Flutningaskipið Jökulfell var á sömu slóðum, en tókst ekki þrátt. fyrir nákvæma staðarákvörðun Gullvers að finna hann. Brá Margrét þá við til aðstoðar bátnun, en hún er búin mjög fullkomnum miðunartækjum, enda fann hún bátinn innan skamms. Setti hún vír yfir í Gullver og hugðist reyna að draga hann til hafnar í Færeyjum, en báturinn slitnaði fljótlega aftan úr, enda ekki nægilega sterk dráttartaug til um borð í Margréti. Varð það þá úr, að Margrét aðstoðaði Jökulfell við að finna bátinn, og síðan dró Fellið hann til hafnar í Klakksvík í Færeyjum. Gerðist ekki fleira sögulegt á leiðinni. Stýrimaður á Margréti er Halldór Hallgrímsson, en 1. vélstjóri er Björn Jónsson. Gert er ráð fyrir að skipið fari á veiðar eftir nokkra daga. Mun það leggja upp afla sinn hjá hraðfrystihúsi S.R. hér í Siglufirði. Áhöfn skipsins á veiðum verður 14 manns.

 

Bæjarbúum var boðið að koma um borð og skoða skipið kl. 2 í gær. Notfærðu margir sér það boð og þáðu veitingar. Íúðir skipverja, sem eru fyrir 21 mann, eru hinar glæsilegustu, og virðist aðbúnaður skipverja vera mjög góður. Menn vænta þess, að koma þessa skips verði til þess að gera atvinnulífið hér mun traustara en það hefur verið undanfarin ár, einkum þó til að bæta úr atvinnuleysinu sem hér hefur oft verið tilfinnanlegt yfir vetrarmánuðina. Tilvera Siglufjarðar byggist einvörðungu á útgerð og vinnslu sjávarafla, og því fleiri skip, sem héðan eru gerð út og leggja upp afla hér, því meiri horfur eru á, að hér verði vaxandi bær með blómlegt athafna og menningarlíf. Mjölnir óskar eigendum og áhöfn skipsins til hamingju í tilefni af komu þess hingað, og góðs farnaðar í framtíðinni".

 

Og árin liðu, Austur-Þýska skipið reyndist vel þrátt fyrir aðfinnslur og neikvætt umtal nokkurra sjálfskipaðra sérfræðinga, en aðrir sökuðu þá á móti um að hafa horn í síðu þess upprunans vegna, eða með öðrum orðum að halda því fram að það væri tæpast nægilega gott af pólitískum ástæðum. Það var ekki fyrr en 12. júlí 1963 sem ég rakst fyrst á umfjöllum í Morgunblaðinu þar sem Margrétar SI-4 er að einhverju leyti getið, en reyndar var fréttin ekki í neinum aðalatriðum um skipið þó það kæmi þar talsvert við sögu. Það mátti, en þó með "mjög góðum vilja" ætla að því væri lætt inn í greinina þó að þannig hafi það eflaust ekki verið, en skrifin voru á jákvæðum og skemmtilegum yfirlitsnótum um atvinnuhætti og mannlíf í síldarbænum undir yfirskriftinni "Svipast um af síldartunnu" og undirtitillinn var "Skyndimyndir frá Siglufirði". Það mun hafa verið Stefán Friðbjarnarson fyrrverandi bæjarstjóri sem skrifaði hana, en hann var fréttaritari Moggans á Siglufirði um árabil. En það sem Moggamönnum láðist að nefna og ég vil nú bæta úr þó seint sé, að það var auðvitað okkar maður Steingrímur Kristinsson sem tók meðfylgjandi myndir.



(Hluti af grein Stefáns í Mogganum árið 1963).


                               

                                   (Frk. Gígja Sveinsdóttir síldarmatskona).



(Saltað úr Margréti).



(Á Pólstjörnuplaninu)

 

En í bók sinni "Svipmyndir úr síldarbæ" segir Örlygur Kristfinnsson frá komu Margrétar á afar skemmtilegan hátt.

"Margrét SI-4 lagðist að Öldubrjótnum í febrúar 1959 fánum prýdd stafna á milli, og þá var haldin ein herlegasta veisla sem sögur fara af á Siglufirði.

Boð voru látin út ganga um að allir bæjarbúar væru velkomnir um borð til að skoða hið nýsmíðaða og glæsilega stálfley austan úr hinum sósíalíska heimi, - og þiggja veitingar. Fréttin um þetta veglega boð barst um bæinn eins og eldur um sinu.

Vigfús Friðjónsson, þessi rausnalegi maður og höfðingi, eins og einn skipverja Magrétar orðaði það, stóð fyrir veislunni en var ekki kominn til landsins svo það kom í hlut Árna bróður hans að taka á móti öllum gestunum og veita ósleitilega.

Vigfús hafði keypt vel til veislunnar, 300 flöskur af kornbrennivíni, tuttugu kassa af bjór og hundruð flaskna af þýzku kampavíni. Það eðalvín var í trékössum og hafði verið geymt í beitustíu frammi í stafni skipsins.

Vigfús gerði grein fyrir vínfarminum og fékk samþykki Ingólfs Kristjánssonar yfiortollara að veiganna mætti neyta um borð. Mikill fjöldi manna kom á skipsfjöl þennan dag og var öllum veitt eins og hver vildi. Stanslaus straumur allan tímann, ekki færri en þúsund var sagt, og fóru þeir síðustu frá borði þegar langt var liðið á næsta dag.

Allt veisluvínið kláraðist og varð af slíkt heljarinnar fyllerí  að telja má það eitt hið mesta í sögu Siglufjarðar. Um þetta var mikið talað í bænum og lengi í minnum haft.

Sagt er að einhver mektarmanna bæjarins hafi verið borinn í land. Ónefndur bóndi úr Fljótum hafi verið með aukaflöskur inn á sér sem hann fyllti til að drekka síðar. Og þegar hafði runnið af mönnum og samviskubitið komið í gleðinnar stað, hafi stúkustarfið hjá Jóhanni Þorvalds tekið verulegan fjörkipp - um sinn".

 

Og þegar sá sem þetta ritar var að vinna í frystihúsi S.R. við Vetrarbrautina á unglingsárum sínum, voru karlarnir þar endrum og sinnum að minnast á þessa ótrúlegu og einstæðu uppákomu á kaffistofunni, og það þrátt fyrir að áttundi áratugur síðustu aldar væri þá senn hálfnaður.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495526
Samtals gestir: 54633
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 12:10:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni