18.05.2014 04:33

Gramsað í föðurgarði - fyrsti hluti

                   


933. Sagt er að þegar menn fara að grúska í ættfræði og leita uppruna síns jafnvel aftur um marga ættliði, sé það óbrigðult merki þess að aldurinn sé farinn að færast yfir. Ég vil þó miklu frekar halda því fram að það sé miklu frekar merki um aukinn þroska. En hvað sem öllu þvílíku líður, þá hélt ég af stað í einn slíkan leiðangur fyrir margt löngu en hef verið lengi á leiðinni því mörg ár eru liðin frá því að af stað var farið. Raunar má alveg eins segja að þess konar vegferð ljúki aldrei, því lengi bætast einhverjir molar við heildarmyndina þó svo að þá sé ekki alla að finna hér. Mér þótti afar merkilegt, en þó bæði skemmtilegt og sorglegt í senn, að skoða það af lífshlaupi langa, langa afa míns í beinan karllegg sem einhverjar heimildir finnast um. Sá hét Brandur Tómasson og var fæddur 3. nóvember1836, en lést 19. júlí 1891.

Sonur hans var Jón Brandsson prestur og síðar prófastur að Kollafjarðarnesi. Af honum er kominn Hjálmar Jónsson afi minn lengst af bóndi að Ásfelli á Skipaskaga, þá faðir minn Óli Jakob Hjálmarsson svæfingalæknir og síðan ég sjálfur.


Ungur prestur sem kvæntist systrum.

Séra Brandi var veitt Einholt á Mýrum daginn eftir að hann hafði lokið prófi í Prestaskólanum sumarið 1862. Þar var hann í fimm ár, en fékk þá Stað í Hrútafirði og síðan Prestsbakka einnig í Hrútafirði og þjónaði hann þá báðum brauðunum. Þegar Staður var síðan veittur sr. Páli Ólafssyni frá Mel, sótti sr. Brandur um austur að Ásum í Skaftártungu. Það kall fékk hann og hélt því til dauðadags, en þjónaði jafnframt öðrum brauðum í Skaftárþingi þegar þau voru prestslaus. Hann var stórskuldugur Staðarkirkju í Hrútafirði þegar hann kom að norðan, en innheimta þeirrar skuldar tók mörg ár og kostaði miklar bréfaskriftir og eftirleitan af hálfu yfirvalda.


                      


Séra Brandur var trúaður og góður kennari, lúfmenni hið mesta, en ákaflega drykkfelldur. Hann kvæntist fyrst Guðrúnu Jónsdóttur frá Skriðinsenni í Óspakseyrarhreppi, en þegar hún dó giftist hann systur hennar Valgerði. Hann átti sex börn með Guðrúnu og níu með Valgerði. Komust mörg þeirra upp og eru niðjar séra Brands fjölmennir í dag. Meðan hann þjónaði að Prestsbakka í Hrútafirði byggði hann þar nýja kirkju. Sá var háttur á í þá daga að bændur áttu að gjalda sinn hlut þar í, en illa gekk presti að innheimta þeirra hlut. Jukust við það skuldir hans að miklum mun en höfðu þó verið talsverðar fyrir.


Reyndi að flýja Bakkus.

Til er stutt frásögn um það þegar Brandur hafði í raun hrakist úr Hrútafirði og var á suðurleið.

"Í brattri brekku er klyfjalest á ferð. Séra Brandur Tómasson er að flytja búferlum með skyldulið sitt norðan úr Hrútafirði suður um land og austur í Skaftártungu. Hann ætlar sér að freista þess að hefja nýtt líf á nýjum slóðum þar sem hann vonast til að sér farnist betur. Eitthvað af búslóð mun hann hafa tekið með en margt varð þó að skilja eftir. Á einum hestinum ruggar sinn kláfurinn hvorum megin. Upp úr öðrum kláfnum gægist lítill drengur, en upp úr hinum lítil telpa. Þó að ferðin gangi hægt þykir börnunum hún spennandi, enda er þetta er þeirra fyrsta ferðalag. Lestin silast áfram yfir landið, það er staldrað við og fólk og hestar hvílast, en síðan er lagt aftur af stað. Þannig gengur þetta fyrir sig aftur og aftur, en sveitirnar vestan lands og sunnan líða hjá eins og furðuveraldir, bæði ólíkar hver annari og einnig afar ólíkar heimaslóðunum. Allt í einu hrasar sá hesturinn sem börnin ber, og eitt augnablik er ekki annað að sjá en hann muni hrapa fram af gilbrúninni þar sem farið er um og farþegarnir muni þá láta lífið í urðinni fyrir neðan. Móðir þeirra biður heitt til guðs. Hún er bænheyrð og kraftaverkið gerist, klárinn nær jafnvægi og heldur áfram eins og ekkert hafi í skorizt. Forsjónin ætlar nefnilega systkinunum og leikfélögunum að eiga langt líf þó að hlutskipti þeirra verði afar ólíkt. Hann varð prestur og síðar prófastur í sinni sveit, en hún varð bóndakona og lifði í mikilli fátækt og basli alla sína æfi".

 

Hefur hann eflaust vonast til að fjárhagurinn myndi að batna í hinu nýja brauði, enda yrði hann þar fjarri drykkjuvinum sínum. Ferð úr Hrútafirði í Skaftafellssýslu, yfir ótal óbrúaðar ár, var ekki smáræðis fyrirtæki kringum 1880. Presturinm og maddama Valgerður skildu tvær yngstu dætur sínar eftir hjá bróður hans, Jóni Tómassyni á Kollsá. Sömuleiðis lét prestur þar eftir skatthol sitt, sem náði frá gólfi til lofts og var hinn veglegasti gripur. En sú, sem honum var mest í mun að yrði um kyrrt í Hrútafirði þ.e. fátæktin, fylgdi honum dyggilega eftir alla hans tíð. Fyrsta búskaparárið að Ásum í Skaftártungu, féll ekki aðeins allur bústofn þeirra hjóna i harðindum, heldur reyndust nýir drykkjuvinir auðfundnir og fylltu fljótlega skarðið sem þeir gömlu skildu eftir sig.

Væri mark takandi á ritningargreininni sem segir að gjafmildum verði þúsundfalt aftur borgað, hefði séra Brandur orðið vellauðugur maður í lifanda lífi. Hann var mjög örlátur og til marks um það kom hann eitt sinni gangandi heim úr ferðalagi með hnakk sinn á bakinu. Hafði hann þá hitt einhvern sem hann taldi að þyrfti meira hesti en hann sjálfur og gaf honum sinn.


Grasið reyndist ekki grænna hinum meginn við lækinn.

Það mun hafa verið komið fram á sumar þegar sr. Brandur kom austur. Þá var prestsetrið enn í byggingu, enda hafði verið prestslaust í Tungunni á annan áratug. Það var því ekki fyrr en vorið eftir 1881, sem hann gat hafið búskap að Ásum og festi þá kaup á nýjum búsmala. Ein kýr fylgdi þó staðnum en 40 ær fékk hann á leigu og 60 keypti hann með því að borga fyrir þær 600 kr. á þremur árum með 4% rentu.

Sumarið á eftir var með eindæmum mikið grasleysissumar og heyjaðist sáralítið í Ásum. Hann varð því að kaupa meginhlutann af fóðrunum og var allan veturinn gangandi því ekki gat hann haft reiðhestinn heima. Kúnni varð hann að koma fyrir og sá varð endirinn að prestur missti meginhlutann af fénu og líka talsvert af því sem á fóðrum var. Og nú rak hvert hallærisárið annað fram eftir áratugnum. Vetrarharðindi og vorkuldar, grasleysi og óþurrkar, basl og bágindi. Ómegðin var mikil en bústofninn enginn. Skuldheimtumenn gerðu síðan kröfur í litlar embættistekjur og kaupstaðarferðir voru ekki hollar efnahag þeirra, sem reyndu að gleyma erfiðleikum lífsins yfir staupi i Bakkabúð. Það var ein af ástæðum þess að efnahagur sr. Brands rétti aldrei við eins og vonir höfðu staðið til. Vínhneigðin var honum lítt viðráðanleg ástríða, þótt hann rækti enibætti sitt af einstökum dugnaði og frábærum vaskleika.

Þessi löstur hans hefur eflaust verið ástæða þess að bindindismálum var hreyft á fyrsta héraðsfundinum sem hann sat í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi. Báru þeir sr. Oddgeir á Felli og sr. Hannes á Mýrum fram þá uppástungu að prestar í prófastsdæminu og sóknarnefndarmenn yrðu forgöngumenn að því að koma í veg fyrir óhóflega nautn áfengra drykkja. "Þessa uppástungu samþykkti fundurinn, en að skuldbinda nokkurrn til að ganga í almennt bindindi var fundurinn hins vegar alfarið mótfallinn.

En þessi fundarsamþykkt kom sr. Brandi að litlu haldi í baráttunni við Bakkus. Dugðu einnig lítt vinsamlegar aðvaranir sóknarnefnda og föðurlegar áminningar biskups. En upp úr öllu þessu að því er virðist vonlausa stríði við ölhneigðina, gnæfir þó persóna sr. Brands.


"Hann var góðmennið sem í fátækt sinni gaf sóknarbörnum sínum eftir lögboðin gjöld, klerkurinn sem prédikaði af andríki og krafti, af hug og hjarta hinnar stórgáfuðu, breysku trúarhetju", segir Stefán í Litla-Hvammi í endurminningum sínum.

Hann minnist fermingarföður síns af mikilli hrifningu og getur þess að hann hafi kynnst mörgum prestum á lífsleiðinni, en enginn þeirra komist nálægt sr. Brandi að mannkostum. Svo mikil hafi skyldurækni hans og ábyrgðartilfinningin verið, að þrátt fyrir dykkjuástríðuna vissi enginn til þess, að hann svo mikið sem dreypti á víni áður en hann gekk að prestverkum, hvort sem það var messugerð, eða það var skírn eða hjónavigsla sem átti að fara fram.


Síra Brandur Tómasson var prestur í Ásum á árabilinu 1880-1891, en auk þess þjónustaði hann önnur brauð í Vestur-Skaftatfellsprófastsdæmis sem hér segir:

í Meðallandi árin 1881-1884

í Álftaveri - 1881-1888

í Mýrdal -- 1885-1886

í Meðallandi - 1885-1888.

Á þessum árum voru tvær kirkjur í Skaftártungu og fjórar í Mýrdalnum. Munu ekki aðrir prestar hafa haft erfiðari prestsþjónustu hér á landi en sr. Brandur hafði þau misseri sem hann þjónaði beggja vegna Mýrdalssands. Til að sýna hvernig þessi þjónusta var rækt, skal hér birt skrá yfir messur sr. Brands, frá trínitatis til aðventu 1885 og á útmánuðum 1886.




Hvað skuldar Brandur prestur hér?

Skaftfellingar virðast hafa fyrirgefið honum breyskleikann og það margsinnis. Eitt sinn sem oftar var hann staddur á Eyrarbakka sem var næsti kaupstaður við Ása, en fékk enga úttekt því reikningur hans í versluninni stóð mun verr en kaupmanni líkaði. Sóknarbörn hans þau er nærstödd voru vildu liðsimna sálusorgara sínum og sá sem var í forsvari fyrir hópnum gekk inn í búðina og mælti stundarhátt: "Hvað skuldar Brandur prestur hér?" Kaupmaður nefndi töluna, en bændur höfðu gert samtök um að greiða upp skuldina svo prestur fengi úttekt eins og aðrir.

(Þannig kunna niðjar Brands söguna, en aðrir vilja láta hama gerast í Reykjavik og Daníel mágur hans á þá að hafa greitt skuldina).


Loforðið efnt.

Meðan sr. Brandur var enn í prestaskólanum í Reykjavík var það eitt sumar að hann var í kaupavinnu, að æskuvinur hans sem var bóndasonur að norðan bað hann um að jarða sig ef hann lifði hann. Brandur var skiljanlega ekki viss um hvort hann mundi lifa hann en játti þó bón vinar síns. Alllöngu síðar voru Brandi sem hafði þá tekið prestavígslu, veittir Ásar í Skaftártungu. Skrifaðist hann eftir það lengi á við vin sinn sem var orðinn stórbóndi fyrir norðan. En árin liðu og smátt og smátt dró úr bréfaskriftunum uns þau lögðust af. Þá var það vor eitt að beinagrind af karlmanni rak á fjöru Þykkvabæjarklausturs. Var beinagrindin óþekkjanleg, en við hana hékk ísaumað vaðmálsbelti með nafni mannsins sem enginn þar um slóðir kannaðist við. Um þetta leyti þjónaði séra Brandur Þykkvabæjarprestakalli ásamt Ásum og var honum tilkynnt um beinagrindina og fært beltið. Brá honum mjög þegar hann sá þar nafn æskuvinar síns. Um svipað leyti hafði hann frétt að hann hefði drukknað um veturinn og líkið ekki fundist. Jarðaði séra Brandur þá æskuvin sinn eins og hann hafði lofað.


Og hann bað fyrir guðshúsinu, söfnuðinum, Jóni og sjálfum sér.

Það rættist og sem spáð hafði verið að Meðallendingum héldist illa á prestum sínum þegar það gerðist að verið var að flytja prédikunarstóllinn sem tilheyrði kirkjunni í Langholti, en hann valt af hestinum og ofan í Skarðsá. Voru prestar þar jafnan stutt eftir það og oft prestlaust. Var þá brauðinu þjónað af nágrannaprestum og einn þeirra var sr. Brandur Tómasson í Ásum.

Jón nokkur Sverrisson sagði svo frá að þegar hann var um fermingu, þjónaði sr. Brandur í Langholtssókn. Hann sagði prest hafa verið góðan mann með lítil efni en stórt hjarta, tilþrifamikinn og skörulegan. Jón minnist þess að eitt sinn þegar Brandur kom í húsvitjun, stóð hann um stund úti fyrir bænum og kallaði síðan: "Hann síra Brandur vill koma inn". Var þá skjótt til dyra gengið og prestur leiddur í bæinn. Jón var þá að læra kverið og kominn að 6. kaflanum sem var bæði langur og tornuminn og kvörtuðu foreldrar hans yfir því við prest hve illa lærdómurinn gengi. En prestur svaraði: "Verið þið alveg róleg. Þið skuluð ekki hafa ábyggjur af þessum dreng. Hann Jón litli spjarar sig".

Eitt dimmt haustkvöld kom sr. Brandur að Grímsstöðum, þar sem foreldrar Jóns bjuggu þá. Hann var að koma frá því að skíra barn og bað um fylgd að Fjósakoti því þar ætlaði hann að gista. Fór Jón með honum, en prestur bað Jón segja sér þegar þeir væru komnir móts við kirkjuna sem Jón gerði. Fór þá sr. Brandur af baki, tók ofan hattinn og bað heitt og innilega fyrir guðshúsinu, söfnuðinum, Jóni og sjálfum sér.


Samskiptin við Mýrdælinga.

Um nokkurn tíma þjónaði séra Brandur Mýrdalsþingum auk síns eiginlega prestakalls. Mýrdælingar tóku honum illa því þeir vildu fá sinn eigin prest eins og áður hafði verið. Fyrsta sunnudag sem hann messaði þar mætti enginn til kirkju. Séra Brandur tók því með mestu ró, labbaði sér niður að Hvoli til hreppstjórans sem hann vissi harðastan í andstöðunni gegn sér og beiddist gistingar. Hún fékkst, en ekki var mikið haft við gestinn. Honum var vísað til svefns hjá börnunum, en hann tók því vel og sagði þeim sögur og ævintýri fram eftir kvöldinu. Morguninn eftir kvaddi prestur og þakkaði mikið fyrir sig en fór ekki langt, því hann gisti næstu nótt á bæ þar örkammt frá. Þannig fór hann um dalinn alla næstu vikuna, en talaði alls staðar mest við bömin. Næsta sunnudag messaði hann aftur í Mýrdal, en nú brá svo við að kirkjan var troðfull. Þurfti hann ekki að kvarta undan lélegri kirkjusókn Mýrdælinga eftir það.


Brandur var einlægur trúmaður og muna hafa verið margar sögur sagðar af trú hans þó flestar séu þær nú glataðar. Einhverju sinni hvessti mjög meðan Skaftfellingar voru á sjó og komust bátarnir ekki í land því að ógurlegir brimskaflar risu ógnarhátt við sendna ströndina. Uppi á sjávarkambinum stóð fjöldi fólks og horfði á hvernig eiginmenn og synir reyndu að brjótast til lands þegar séra Brand bar þarna að. Þegar hann sá hve tvísýnt var með lendingu og að bátamir bjuggust til að snúa frá, bað hann alla viðstadda að krjúpa á kné og biðja með sér. Heit og innileig bænin steig upp frá litla hópnum á hinni kaldranalegu og eyðilegu strönd og kannski hefur hún komist í gegnum dimm óveðursskýin, því að skyndilega sló á báruna, skipin renndu upp á sandinn og engan sakaði.


En ölvaður sté Brandur aldrei í stólinn.

Allir, sem þekkja til staðhátta austur þar, vita hvert þrekvirki það hefur verið að rækja prestsþjónustu í Skaftárþingi á þessum tíma með þeim hætti sem sr. Brandur mun hafa gert. Eitt dæmi um það hve mikinn vaskleik prestur sýndi í starfi sínu, nefnir sr. Þórhallur Bjarnarson í Kirkjublaði sínu er hann minntist hans. Maður í Ásasókn bað prest að jarða fyrir sig á laugardegi, en messa var boðuð daginn eftir á Sólheimum. Sr. Brandur brást vel við beiðni mannsins, jarðsöng, skírði síðan barn á leiðinni og lagði eftir það á Mýrdalssand í náttmyrkri og vonskuveðri. Náði hann að Sólheimum til messugerðar í tæka tíð, en þetta var á þorranum. Talið var að beiðnin um jarðsetninguna hafi verið gerð af glettni við prest til að gera honum erfiðara með að rækja þjónustuna í Mýrdalnum. En hvað sem um það er að segja, kunnu sóknarbörn sr. Brands vel að meta kosti hans og báru til hans óblandna hlýju sakir hjartagæsku og ljúfmennsku. Og svo mikið er víst að hjálpsamir reyndust þeir honum og freistuðu að rétta við hag hans þótt lítt stoðaði.

 

Aðeins einu sinni mun hafa orðið messufall hjá séra Brandi sem herma má upp á hann. Var það daginn eftir að hann hélt brúðkaup Hallfríðar dóttur sinnar og Magnúsar Sigurðssonar, sem var þá vinnumaður í Ásum. Þau voru foreldrar Guðbrands Magnússonar sem lengi var forstjóri Áfengisverslunarinnar. Sjálfsagt hefur hinn fátæka og vínhneigða Ásaklerk síst af öllu órað fyrir því að dóttursonur hans yrði í fyllingu tímans eins konar æðsta ráð yfir öllu áfengi á Íslandi, en umræddan dag mun séra Brandur enn hafa verið all nokkuð ölvaður eftir veisluna og því ófær um að sinna prestverkum.

Ölvaður steig séra Brandur nefnilega aldrei í stólinn, enda hefði hann tæpast getað það, því vín gerði honum afar erfitt um mál.



Önnur silfurskeiðanna af uppboðinu sem eru í eigu afkomendanna.


Leiðarlok.

Síra Brandur Tómasson varð ekki gamall maður. Hann andaðist 54 ára á miðju sumri 1891. Það var á sunnudegi og þá hafði messa verið boðuð í Ásum sem varð eigi af, en fjöldi manns var þó þegar mættur til messunnar þegar andlátið bar að. Í kjölfarið var bú hans boðið upp til greiðslu skulda hans sem aldrei höfðu sagt skilið við hann í lifanda lífi og eftir það uppboð átti maddama Valgerður ekkert eftir nema fötin sin og börnin ef frá eru taldar tvær silfurskeiðar, skreyttar fögru hörpudiskamunstri. Skeiðarnar voru upphaflega tólf, og voru boðnar tvær krónur í þær allar. Sá sem bauð gaf ekkjunni kost á að kaupa þær aftur á sama verði, en hún sá sér ekki fært að taka nema tvær þeirra og eru þær enn í eigu niðja hennar. Hún átti nú ekki annan kost en ferðast aftur yfir fjöll og heiðar heim í Hrútafjörð Tvö stjúpbörn hennar ílentust í Skaftafellssýslu, en fjögur fóru með henni. Þau Guðrún og Jón, sem verið höfðu í kláfunum fáeinum árum áður, svo og tvö yngri sem höfðu fæðst að Ásum.


Heimildir: Tíminn frá 1967, Lesbók Morgunblaðsins frá 1967, sr. Sigurður Ægisson og Sigurður Hjálmarsson föðurbróðir minn.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496567
Samtals gestir: 54788
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 03:44:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni