23.05.2014 01:49

Gramsað í föðurgarði - annar hluti



934. Þegar séra Brandur faðir þeirra Guðrúnar og Jóns gerði tilraun til að flýja baslið, áfengisbölið og drykkjuvinina í Hrútafirðinum og fluttist suður í Skaptafellssýslu, voru börnin mjög ung að árum. Drengurinn aðeins fimm ára en stúlkan árinu eldri. Dvöl þeirra þar syðra varð þó styttri en til stóð eða aðeins tólf ár, því þegar faðir þeirra andaðist fluttust þau ásamt móður sinni aftur norður á Strandir. Hlutskipti þeirra í lífinu gátu varla orðið ólíkari því hún lifði í sárri fátæk alla sín tíð, en hann gekk menntaveginn og varð prestur og síðar prófastur. Börn séra Brands urðu alls fimmtán, en ég mun aðeins fara yfir sögu tveggja þeirra. Jóns sem var langafi minn og Guðrúnar m.a. vegna þess hve heimildir eru aðgengilegar um hana.

Saga hennar er mikil átaka og harmsaga, en hún var sterk til sálarinnar og stóð áföllin og brotsjóina af sér eins og klettur í lífsins ólgusjó.



Guðrún Brandsdóttir


Baslið beið eftir henni í sveitinni heima.

Guðrún Brandsdóttir var átján ára þegar hún kom í Hrútafjörð aftur og afburða myndarleg stúlka. Ljóst hárið liðaðist niður um fingerðan líkamann, í gráum augunum speglaðist enn bjarmi Skaftfellskra gleðistunda og allt fram á elliár birti yfir svip hennar þegar minnst var á þá sveit. En hafi hana forðum þegar hún fór um landið í kláfnum dreymt um að lífið yrði eitt heillandi ævintýri, þá var það aðeins tálsýn og heilmikill blekkingingarvefur. Fyrr en varði stóð hún í strangri lífsbaráttu, blásnauð húsmóðir í harðbýlu landi og á erfiðum tímum. Bróðir hennar og besti vinur gekk hins vegar menntaveginn og varð að lokum prófastur. Sjálf var hún að vísu mjög bókhneigð, en fátækar sveitastúlkur í lok nítjándu aldar áttu líltinn kost á námi. Hún giftist náfrænda sínum, Búa Jónssyni frá Kollsá og þau fóru að búa móti föður hans. Frændsystkinin Guðrún og Búi voru mjög ólík í skapi. Búi var mjög örlyndur, en hún ákaflega stillt og ýmislegt varð því til að gera sambúð þeirra erfiða og þá einkum framan af. Þrátt fyrir að hann væri dugnaðarmaður, búnaðist honum ekki vel og þau voru jafnan mjög fátæk. Þá voru engar tryggingar og sjaldnast neina fyrirgreiðslu að hafa, fáar eða engar skemmtanir voru haldnar og lífsbaráttan fólst að miklu leyti í því að lenda ekki á sveitinni. Danskur kaupmaður Riis, var þá á Borðeyri og annaðist allan útflutning. Hann var einráður um kaupverð afurða og réði því líka hvað hann seldi kramvöru sína dýrt og hversu hátt verð sem hann bauð fyrir saltkjöt Strandamanna, þá hrökk það oftast skammt til kaupa á brýnustu nauðsynjum úr verzlun hans. Hann hafði góðar gætur á reikningum fátækari bænda og neitaði þeim alveg um úttekt frá réttum til jóla ef þeir skulduðu sem oftast var. Fyrir jólin fékkst þó alltaf eitthvað smávegis, en meiri háttar viðskipti urðu að bíða fram yfir áramót. Tíu pottar af olíu urðu t.d. eitt sinn að endast frá hausti og fram á aðventu og ekki var hægt að hafa ljós öll kvöld í lágri og kaldri baðstofunni þar sem bókin var eina afþreyingin og það eina sem slegið gat á eymdina. Guðrún átti alltaf ákaflega erfitt með að hætta lestri, en um annað var ekki að ræða því slökkva þurfti snemma til að spara ljósmetið. Börnin voru líka hrædd við myrkrið og dreymdi, að tröllskessur væru að reyna að krækja í þau í dimmum bæjargöngunum. En svo komu jólin og þá fékkst meiri úttekt hjá kaupmanninum, en það dýrðlegasta við hátíð ljóssins var einmitt að fá að sofna við ljós og vakna síðan við það aftur.

 

Kuldinn, myrkrið - og svo hann Ásgeir blessaður.

Kuldinn var jafnvel skárri en myrkrið, en á vetrum var baðstofuglugginn loðinn innan af þykku hrími. Börnin skófu það með skeið niður í vaskafat og báru út á hlað og kysstu síðan á glerið til að gera það gegnsætt. Eina hitunin var ofnrör, sem lá upp úr eldhúsinu að neðan og upp í gegnum þekjuna. Til að nýta ylinn frá líkömum hvers annars sváfu tveir elstu drengirnir í rúminu hjá ömmu sinni, maddömu Valgerði. Alls urðu börn þeirra Guðrúnar og Búa fimm, fjórir drengir og ein stúlka. Yngsti sonurinn Ásgeir, var líkamlega bráðþroska, en þroskaheftur. Hann lifði langt fram á fimmtugsaldur og móðir hans skildi hann aldrei við sig. Hún fór með hann til Reykjavíkur þegar hún var orðin ekkja eftir langan búskap og bað til guðs að hún mætti lifa hann svo hann stæði ekki uppi einn í heiminum sem hún og gerði. Enginn gladdi hana meira og betur en sá eða sú sem var góður við hann "Geira", og hana tók sárt ef menn gerðu gys að honum. Ásgeir lést í Reykjavík árið 1945.




Dóttirin Sólveig.

Einkadóttirin, Sólveig Sigríður var falleg telpa og líktist móður sinni mjög og hafði m.a. Ijóst og sítt hár. Þegar hún óx úr grasi, dafnaði hún sérlega vel og virtist ætla að verða hin gjörvulegasta, en um vorið áður en hún átti að fermast smitaðist hún af barnaveiki. Þá var snjóþungt og ill færð, en faðir hennar fór kringum Hrútafjörð og sótti lækni á Hvammstanga sem greindi sjúkdóminn og sendi eftir öðrum lækni frá Búðardal. Saman framkvæmdu þeir barkaskurð á barninu við vægast sagt slæmar aðstæður sem var þá komið að köfnun. Í fyrstu virtist aðgerðin ætla að takast og telpunni létti um nóttina, en þá bilaði hjartað. Dauði einkadótturinnar var eflaust sárasta atvikið i lífi Guðrúnar, en henni gafst lítill tími til að syrgja. Hún þurfti nú að annast læknana tvo auk annars heimilisfólk og þurfti auk þess að ferðbúa mann sinn svo að hann gæti fylgt þeim til síns heima. Hún fór því snemma á fætur um morguninn eftir lítinn eða engan svefn til að gera honum skó. Sonur hennar Hermann, sem varð stór ættfaðir í Borgarnesi en þá smásnáði, tók eftir því að tárin hrundu í sífellu niður á hendurnar á henni meðan hún gerði skóna. Þá var hann of ungur til að skilja hvað gerst hafði og spurði: "Mamma, ætlarðu alltaf að gráta svona?" En hún svaraði: "Ég veit það ekki vinur minn." Tíminn eftir missi Sólveigar varð óbærilegur og í framhaldinu dreymdi hana um nætur að hún væri komin austur að Ásum í Skaftafellssýslu og allt væri eins og í gamla daga.




Sonurinn Georg

Elsti sonur þeirra hjóna hét Georg. Hann líktist einnig mjög móður sinni og hafði fengið bókhneigð hennar og næmi í arf, auk viljaþreksins og dagfarsprýðinnar. Hann var staðráðinn í að verða verkfræðingur og lét jafnvel ekki féleysið draga úr sér kjarkinn. Frændi hans lánaði honum fyrir fæði og húsnæði einn vetur í gagnfræðaskóla, en eftir það fékkst hann bæði við kennslu og vann í síldarbræðslu. Með ýtrustu sjálfsafneitun tókst honum að ljúka fjórða og fimmta bekk menntaskólans. Næsta haust greiddi hann fyrir húsnæði og fæði fyrirfram og keypti sér bækur, en síðan urðu guð og lukkan að ráða hvort hann ætti kol í ofninn. Bróðir hans Brandur, bjó með honum um tíma og minnist þess að einu sinni gátu þeir ekki kynt í heila viku og Georg las þá með vettlinga á höndunum. Það varð því mikil gleði þegar Brandur fékk greidd vinnulaun fyrir uppskipun og kom heim með kolapoka á bakinu. Sumarið eftir fimmta bekk ætlaði Georg enn að vinna fyrir sér við síldarbræðslu, en afli brást þá og um haustið var hann gersamlega félaus. En ekki datt honum þó í hug að gefast upp, heldur las síðasta bekkinn heima, náði prófinu um vorið og fékk styrk sem í hans augum var óhemju fé.

Um haustið fór hann utan, en þrem mánuðum síðar var hann allur. Hann hafði fengið spönsku veikina og upp úr henni lungnabólgu sem í þá daga var nánast dauðadómur.

Nú átti Guðrún aðeins eftir auk Ásgeirs, tvo heilbrigða syni þá Brand (1896-1982) og Hermann (1909-2005).




Sonurinn Brandur.

Brandur ólst upp í foreldrahúsum til tólf ára aldurs. Þá flutti hann með ömmu sinni, rnaddömu Valgerði að Kollafjarðarnesi til móðurbróður síns séra Jóns Brandssonar. Séra Jón fermdi þar frænda sinn og var hann fyrsta barnið sern fermt var í þá nýbyggðri kirkju að Kollafjarðarnesi.

Vorið 1919 réðst Brandur til starfa hjá Riisverslun á Borðeyri sem þá var enn mikill verslunarstaður, en síðar hjá Kaupfélagi Hútfirðinga á sama stað

Búi faðir Brands missti heilsuna á besta aldri og dó af berklum árið 1930. Þá fór Brandur heim að Litlu-Hvalsá til að veita búi móður sinnar forstöðu og fórst honum búreksturinn vel úr hendi. En vorið 1934 bregða Brandur og móðir hans búi. Fór þá Guðrún ásamt Ásgeiri syni sfnum að Kollafjarðarnesi til Jóns bróður síns, en Brandur vann tvo vetur við ýmis störf í Reykjavík og við vegavinnu á Holtavörðuheiði á sumrum. Sagt var að starf hans hafi að mestu verið fólgið í því að mylja grjót með sleggju. Hefur hann aðspurður játt því og að hann hafi mulið allan undirburð í veginn frá Sæluhúsi og norður á Grunnavatnshæðir sem er dágóður spotti. Haustið 1936 verða þáttaskil í lífi Brands, en þá réðst hann til starfa sem verkstjóri hjá Grænmetisverslun ríkisins sem síðar varð Grænmetisverslun landbúnaðarins. Þar starfaði hann óslitið til haustsins 1964 er hann var kominn fast að sjötugu. Önnur þáttaskil urðu í l´æifi hans árið 1942, en hóf hann búskap með konu sinni Guðrúnu Halldórsdóttur.

 

Árið 1937 fluttu móðir Brands og bróðir hans Ásgeir til Reykjavíkur og hélt hún um skeið

heimili með þeim bræðrum. Brandur ólst upp í fátækt, en með þrotlausu striti og sparsemi eignaðist hann eigið húsnæði og komst í nokkur efni. M.a. átti hann um árabil hlut í veitingastofu að Laugavegi 28 og rak hana ásamt Magna Guðmundssyni hagfræðingi og fleirum. Voru þeir Magni góðir vinir og þó Brandur minntist margra góðra vina og vinnufélaga, held ég að fáa hafi hann metið meir en Magna.

Eftir að Brandur lét af störfum hjá Grænmetisversluninni 1964 kominn fast að sjötugu, hélt hann sig enn við vinnu næsta áratuginn. Fyrst starfaði hann sem húsvörður en síðan næturvörður í Arnarhváli. Og svo mikil var eljusemi hans að eftir það annaðist hann innheimtustörf fyrir ýmis fyrirtæki, eða allt þar til heilsan var þrotin.

Verklaus gat hann ekki verið því vinnan var hans líf.




Sonurinn Hermann

Eftir barnaskólagöngu Hermanns í sinni heimasveit, lá leiðin í Héraðsskólann á Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu. Þá vann hann að venjulegum bústörfum, við vegagerð á Holtavörðuheiði og um tíma hjá Kaupfélaginu á Borðeyri. Eftir það stundaði hann ýmis störf í Reykjavík. Árið 1942 flutti hann í Borgarnes ásamt Hallberu konu sinni og gerðist hótelstjóri og meðeigandi í Hótel Borgarnesi. Í lok stríðsins fór Hermann til starfa hjá Kaupfélagi Borgfirðinga, þar sem hann vann það sem eftir var starfsævinnar eða í rúm 40 ár. Hermann var félagslyndur maður, sat m.a. í stjórn Verslunarmannafélags Borgarness og Starfsmannafélags KB. Hann tók þátt í undirbúningi að stofnun Félags eldri borgara í Borgarnesi og var fyrsti formaður þess. Mest starfaði hann þó fyrir Ungmennafélagið Skallagrím þar sem hann var formaður um skeið, tók virkan þátt í störfum leikdeildar félagsins og lék ýmis hlutverk í leiksýningum þess. Þá hélt hann ýmsum fróðleik til haga og birtust m.a. nokkrar greinar eftir hann í Strandapóstinum. Af honum er mikill ættbogi kominn.

 

Að lokum.

Guðrún horfði til þess í harmi sínum að sumar frændkonur hennar höfðu misst meira en hún og mest af öllum Valgerður föðursystir hennar. Valgerður systir séra Brands giftist efnuðum dannebrogsmanni í Húnavatnssýslu sem síðar tapaði öllu sínu fé vegna ábyrgða sem hann gekkst í fyrir menn sem síðan stóðu ekki í skilum. Þau eignuðust fjórtán börn og misstu þau öll. Yngstur var sonurinn Jón sem varð rúmlega tvítugur. Hann var á leið heim frá Reykjavík þegar hann veiktist í Borgarnesi og fréttist ekkert af honum norður á Strandir fyrr en búið var að jarða hann þar.

Mestu synd mannlífsins ef til vill að morðum og ránum undanskildum, taldi Guðrún vera mannlast. Hún talaði aldrei illa um aðra og væri hún þar sem menn höfðu uppi bakmælgi, kom þjáningasvipur á andlit hennar sem venjulega dugði til að breytt væri um umræðuefni.

Hún lést árið 1963, áttatíu og átta ára gömul. Lengi var hún furðu ung í anda og heimsótti Skaftafellssýslur þegar hún var um sjötugt sér til mikillar ánægju. Hún hafði þá ekki komið þar í hálfa öld, en var vel fagnað af fjölmörgum vinum sem mundu eftir henni sem kornungri stúlku. Skilningur hennar og samúð með öðrum aflaði henni vina á efri árum sem voru miklu yngri en hún sjálf.

"Kæmi ég til hennar í þungu skapi, var ég jafnan sáttari við lífið þegar ég fór aftur," sagði ung stúlka sem sótti til hennar huggun í erfiðleikum sínum.

 

Guðrún Brandsdóttir fékk ekki ráðið örlögum sínum, ekki umflúið fátækt og strit, hjónabandsörðugleika, missi tveggja efnilegra barna , vanheilsu þess þriðja og allar þær brostnu vonir sem sérhver maður og kona hlýtur að bera í brjósti sér.

Aðeins einu fékk hún stjórnað, - sinni eigin lund, og hún gerði það vel.

 

Heimildir: Tíminn frá 1967 og Lesbók Morgunblaðsins frá sama ári.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496670
Samtals gestir: 54802
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:28:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni