15.07.2014 05:15

Og þá komu menn saman til að gráta...



941. Ég rakst á þessa gömlu en sögulegu Polaroidmynd (hér að neðan) þegar ég var að gramsa í gömlu dóti eins og ég geri svo oft (en allt of sjaldan þó, því nóg er til). Ég horfði á hana um stund, gruflaði stutta stund í lágþokubökkum hugans og velti fyrir mér staðnum og stundinni, en eftir svolitla stund rann upp það ljós sem dugði til þess að varpa ljósi á þetta löngu liðna augnablik og ljúfsára minningarbrot.

Myndin var tekin þ. 9. okt. 1986, eða daginn sem Stöð 2 fór fyrst í loftið og Jón Óttar flutti hljóðlausa ávarpið sem frægt er

Þá hafði ég rekið myndbandaleiguna Videóbjörninn við Hringbraut 119 (við hliðina á JL húsinu) í u.þ.b. tvö ár ásamt þeim Guðnýju Reimarsdóttir, Sverri Tryggvasyni, Pétri Ólafssyni, Birgi Kristmundssyni og Trausta Reykdal, en hann er Siglfirðingur sem býr á Eskifrði og er sonur Varða málara sem bjó eitt sinn á Túngötu 10.

Þetta var dagurinn sem heimurinn hrundi. Ég hafði leigt út heilar fjórar spólur frá því snemma um morguninn og ástandið var ekkert ósvipað hjá öðrum í bransanum sem ég hafði haft spurnir af.

Við sem á myndinni erum, vorum allir góðir kunningjar og samherjar, komum saman að loknum þessum örlagaríka degi inni á lagernum hjá mér og bárum saman bækur okkar. Við vorum svartsýnir á framtíðina og töldum víst að nú væri videóævintýrið sem átti að gera okkur alla ríka endanlega úti. Það er ekkert ofsagt að þarna hafi heilmikill grátkór komið saman og framið einhvern drungalegan gjörning sem einkenndist af svartsýni og vantrú á framtíðina. Það var ekki mikið um jákvæða strauma í þetta skiptið og engar gamansögur voru sagðar áður en menn tíndust út í haustnóttina hver til sins heima. Tilfellið var að það tók bransann nokkuð langan tíma að jafna sig þannig að út á hann yrði gerandi og ekki komust allir yfir þann hjalla sem Jón Óttar hafi þarna reist að okkar mati illu heilli. Reyndar er það svo að ég hef ekki enn þann dag í dag gerst áskrifandi að Stöð 2 og mun aldrei gerast, en til hvers þurfti maður svo sem að gera það þega maður átti videóleigu?




Á myndinni eru frá vinstri talið: Ástmundur Gíslason (hálfbróðir Röggu Gísla söngkonu), Ísleifur Haraldsson (rak nokkrar leigur í Grindavík og á Reykjavíkursvæðinu ásamt Magnúsi mági sínum og eiginkonum), Jón Björgvins (okkar maður á siglo.is), Ólafur Guðmundsson og (hálfbróðir Ásmundar) og Árni Sigurjónsson (mágur þeirra Ásmundar og Ólafs), allt frábærir drengir.

Þeir Ástmundur, Ólafur og Árni ráku myndbandaleigurnar Videosport að Háleitisbraut, Ægissíðu og í Eddufelli ásamt myndbandaútgáfu og framleiðslufyrirtækinu Bergvík. Þeir Ástmundur og Árni eru nú fallnir frá, enÓlafur rekur enn Bergvík ásamt fjölskyldu sinni.

Ég gat ekki setið á mér að vera svo andstyggilegur að kroppa út andlitið á Nonna Björgvins og stækka það eins og sést á myndinni hér að ofan, því svipurinn á honum er svo innilega lýsandi dæmi um ástandið á okkur öllum sem þarna sátum. (Sorrý Nonni).

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 291
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496787
Samtals gestir: 54813
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 11:10:06
clockhere

Tenglar

Eldra efni