20.07.2014 10:09

Rigning



942. Þegar ég fór á fætur í morgun, leit ég út um gluggann og sá að það rigndi ekki í augnablikinu sem verða eiginlega að teljast tíðindi á þessum síðustu og hundblautu tímum. Það var hins vegar allt rennandi blautt utandyra eftir nóttina sem eru reyndar alls engin tíðindi. Það rigndi  mikið í júní og þegar ég fór norður fyrstu vikuna í júlí hlýt ég að hafa tekið rigninguna með mér því þar var varla hundi út sigandi flesta þá daga sem ég staldraði við og aðsókn á Þjóðlagahátíðina varð með dræmara móti. Ég kenni rigningunni að mestu leyti um það því dagskráin var glæsileg að vanda. Síðan ég kom að norðan hefur rignt mismikið hvern einasta dag og útlit er fyrir að þannig verði það svo lengi sem veðurfræðingar geta séð í kortum sínum.

Mað sama áframhaldi held ég að rigningin fari fljótlega að þrengja sér inn í sálina og setjist þar síðan að um ókomna tíð.

 

Þetta minnir mig á að árið sem ég fæddist rigndi líka mikið og þá mest fyrir norðan. Reyndar alveg gríðarlega mikið er mér sagt. Sumarið 1955 hefur löngum verið kennt við hina geysimiklu úrkomu sem einkenndi það og gjarnan nefnt "rigningarsumarið mikla".

Sé gluggað í gömul blöð sést að mikillar átu varð vart fyrir norðurlandi og síldveiðin byrjaði fyrr um vorið en hún hafði gert nokkru sinni áður og var þá mjög góð. Það bjargaði líklega vertíðinni því seinni hluta sumarsins var veiðin mun dræmari, en í heildina varð árið harla gott. Alla vega miðað fyrir árin á undan sem höfðu einkennst að aflaleysi.

Þetta var árið sem Halldór Laxness fékk Nóbelinn, Ragnar Fjalar Lárusson varð sóknarprestur Siglfirðinga, Jói dívana tók við rekstri Eyrarbúðarinnar og bæjarstjórnin frestaði byggingu elliheimilis,

 

"Ef ánamaðkar hefðu söguvitund og héldu annála, hefði rigningarsumarið mikla árið 1955 orðið þeim víti til varnaðar".

var haft eftir háskólanemanum Magnúsi Sigurðssyni í Lesbók morgunblaðsins þ. 9. apríl 2005.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 285
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496781
Samtals gestir: 54811
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 10:47:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni