24.07.2014 21:40

Led Zeppelin


Led Zeppelin um 1970


943. Síðast liðið mánudagskvöld dólaði ég í rólegheitunum eftir Dalveginum, áleiðis að Smáralindinni og stefndi þaðan upp í Lindir. Allt með eins venjubundnum hætti og hugsast gat, eltandi GPS-ið eins og hlýðinn rakki. Það voru mjög fáir á ferli og óvenju mikið næði um borð. Ég var saddur og sæll, enda nýkominn úr matarhléinu sem við fáum á u.þ.b. miðri strætóvaktinni. Ég hækkaði aðfeins í útvarpinu, en nei, þetta gengur ekki, ég vil ekki hlusta á rapp.

Ég ýtti á takkann þar sem ég vissi að rás 2 var prógrammeruð og þar kvað við heldur betur annan tón og hann all góðan.

Þátturinn "Albúmið" var að fara í loftið, en í honum taka þeir félagarnir Jón Ólafsson (Bítlavinafélagsmaður) og Kristján Freyr Halldórsson (fyrrum trommari í hljómsveitinni Reykjavík) fyrir plötur sem hafa haft afgerandi áhrif á rokksöguna. Að þessu sinni var Led Zepprelin viðfangsefnið, og þá aðallega fjórða plata þeirrar sveitar, en á henni er m.a. ein mest spilaða rokkballaða allra tíma, Stairway to heaven.

 

Fyrstu kynnin af þessari mögnuðu hljómsveit rifjuðust upp fyrir mér og ég gat ekki annað en glott svolítið út í annað við þá upprifjun, en það var árið 1969 á Gaggóárunum þegar unglingahljómsveitin Hendrix var og hét. Annar gítarleikarinn í bandinu Þórhallur Ben, hafði orðið fyrir tónlistarlegri vitrun og í beinu framhaldi af því skipti hann gamla tónlistarsmekknum út fyrir annan nýjan sem var að hans mati mun betri og þroskaðri. Hann bauð til sölu gegn vægu verði allar gömlu "kúlutyggjópoppplöturnar" sínar og hóf markvisst að kaupa þróaðra rokk fyrir lengra komna og í framhaldinu hlustuðum við strákarnir á Cream, Woodstock og fleira gæðaefni eftir skóla heima hjá Þórhalli. En það fékkst ekki mikið af svona efni í Föndurbúðinni hjá honum Júlla Júll blessuðum svo að það þurfti oftast að fá það sent í póstkröfu að sunnan.

Í eitt skiptið þegar búið var að aura saman fyrir einum góðum vinylgrip til viðbótar þeim sem fyrir voru, var hringt í Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur og spurt um afurð meistara Jimi Hendix og sveitar hans Experience. Ég man að það voru talsverð vonbrigði þegar því var svarað til að allt efni með honum væri uppselt í bili en ný sending þó væntanleg innan tíðar. Sá sem svaraði benti hins vegar á nýútkomna plötu með lítt þekktri hljómsveit sem spáð var mikilli velgengni og mælti eindregið með henni. Það varð úr að hún var keypt en að mig minnir með talsverðum semingi þó. Þegar platan kom var hún leyst út og sett á fóninn. Við áttum fá orð yfir það sem fyrir eyru bar þegar fyrsta lag á síðu A byrjaði. "Good times, bad times" hvílíkur kraftur, hvílíkir galdramenn voru þarna á ferðinni. Svo komu þau eitt af öðru, "Babe I´m gonna leave you", "You shock me", "Dazed and Confused", "Your time is gonna come", "Communication breakdown" og öll hin.

Það var engu líkara en þarna væri verið að fremja einhverja illskiljanlega tónlistargjörninga sem ekki voru þessa heims, slíkir voru töfrarnir.



Fjórða LP plata Led Zeppelin bar engan titil og hvergi var á henni að finna nöfn flytjenda. 


En við þá sem eru áhugasamir fyrir góðri rokktónlist sem nú er löngu orðin klassísk, mæli ég með að þeir smelli á linkinn http://www.ruv.is/sarpurinn/albumid/22072014-0 og hlusti á þrælgóðan þátt um eðalsveitina Led Zeppelin.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 285
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496781
Samtals gestir: 54811
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 10:47:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni