16.12.2014 11:43
Slegið í gler

969. Rakst á hana þessa uppi í skáp á Aðalgötunni í haust, en hef því miður ekki minnstu hugmynd um hver tók hana. Lýsi því hér með eftir viðkomandi. Hún er mjög sennilega frá árabilinu 1976-77 eða 79-83, því þá átti ég þessi bláu djammjakkaföt með vesti og alles, og þá vorum við að spila saman þessir þrír. Við höfðum yfirleitt með okkur flöskusettið ef verið var að spila á einhverju þorrablótinu eða þess konar samkomu því eins og eitt ókeypis aukaskemmtiatriði var undantekningalaust vel þegið af skemmtinefndunum. Svo kom það stöku sinnum fyrir að aðrar flöskur slæddust með sem var þá ekki spilað á, heldur er miklu nær lagi að segja að þær hafi spilað með okkkur. Myndin er því miður orðin all nokkuð máð og segja má að áferðin á henni hafi svolítið orðið samferða þeim sem hún er af, því enginn okkar er lengur með dökkt og mikið hár svo dæmi sé tekið.