15.05.2016 02:28

Óli Jakob Hjálmarsson - minning


Þann 29. apríl sl. fór fram útför föður míns Óla Jakobs Hjálmarssonar fyrrverandi svæfingalæknis. Hún var einföld, látlaus og fór fram í kyrrþey að ósk hans sjálfs. Samt var dýptin og áhrifamátturinn í athöfninni svo mikill að hún getur aldrei liðið okkur úr minni sem þarna vorum. Það voru ekki haldnar neinar uppskrúfaðar minningarræður, engin fallbyssuskot rufu kyrrðina og ekki var blásið í neina lúðra á torgum úti. Tjaldið féll bara eftir lokaþáttinn í leikritinu mikla, persónur og leikendur fundu til samkenndarinnar og kærleikans þegar náinn ástvinur er kvaddur og við nutum návistarinnar hvert við annað og fundum í henni huggun. Látleysið og lítillætið á það stundum til að verða svo máttugt og mikilfenglegt.

Því miður vorum við aldrei í miklu sambandi hvor við annan, ég og þessi einræni, duli og hógværi maður sem ég hefði svo gjarnan viljað þekkja miklu meira og betur en ég gerði. En ég veit samt að hann var miklum mannkostum búinn og vel meinandi, þó hann bæri ekki tilfinningar sínar á torg. Það væri því líklega mikið stílbrot miðað við hans hátt að hafa allt of mörg orð um ferðalag hans sem nú er hafið frá myrkrinu til ljóssins, frá hinu jarðneska til hins himneska og frá þeirri veröld sem við þekkjum til stjarnanna.

Góða ferð elsku pabbi minn.





Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480837
Samtals gestir: 53309
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 04:33:36
clockhere

Tenglar

Eldra efni