14.05.2008 17:46
Siglfirðingaball.
475. Ekki þykir mér annað við hæfi en að bæta við nokkrum völdum sýnishornum af ballinu. Sum eru kannski enn meira sérvalin en önnur, en vonandi sleppur þetta allt svona móralslega fyrir horn. Myndirnar tala sínu máli og þurfa því lítilla skýringa við.
Ekki voru allir bornir og barnfæddir Siglfirðingar sem þarna voru. Hér er tenginginn maður sem er ættaður frá Sigló, honum fylgir svo kona úr Reykjavík, þá vinkona hennar úr Breiðholtinu og síðan vinur hennar sem er Portúgali. Þá er vissulega farið að teygjast svolítið á þessu.
Þessi tvö fylgdust af miklum áhuga með því sem fram fór, en eru að öllum líkindum ekki að norðan. Alla vega man ég ekki eftir þeim þaðan.
En miklu fleiri myndir af ballilnu er að finna í myndaalbúmi í möppu merkt Catalina.
Eftirfarandi var svo skrifað þann 14. maí.
Það hefur oft komið til tals meðal nokkurs hóps Siglfirðinga sem búa sunnan heiða og hafa staðið fyrir hljómsveitarútgerð og dansleikjahaldi á ýmsum tímum, að koma saman annað hvort fyrir norðan eða sunnan og taka nokkur lög sér og öðrum sveitungum til skemmtunar. Oftar en ekki hefur viðkvæðið verið: "Jæja, nú förum við að gera eitthvað í málinu," en síðan líða ár og dagar og frasinn er svo endurtekinn næst þegar menn hittast. En að þessu sinni myndaðist einhver pressa á framkvæmdina, yfirlýsing var gefin út og dagsetningin ákveðin. Þannig var búið um hnútana að tæplega var hægt að hætta við, fresta málinu eða bakka út úr því nema vera heldur minni maður á eftir. Samkoman er hugsuð með svipuðu sniði og var norður á Sigló í Allanum um páskana fyrir fáeinum árum þegar Svavar rak þann ágæta stað. Stefnan hefur verið sett á skemmtistaðinn Catalinu við Hamraborg í Kópavogi næstkomandi laugardag eða þ. 17. maí.
Dansleikur hefst laust fyrir miðnætti, en eftir svolitla upphitun stíga á svið Siglfirðingarnir Selma Hauksdóttir, Magnús Guðbrandsson, Leó Ingi Leósson, og Kristbjörn Bjarnason.
Maggi Guðbrands...
Leó Ingi...
Kristbjörn Bjarna, og Eyþór að greinilega að syngja millirödd af mikilli innlifun...
Selma Hauks...
Dúóið Vanir Menn leikur síðan fyrir dansi. Það er frítt inn og eru Siglfirðingar á suðvesturhorninu hvattir til að nota tækifærið, hittast og skemmta sér saman.
Steingrímur Stefnisson og Sigríður Samsonardóttir eiga og reka staðinn, en fyrir þá sem ekki vita er Steingrímur sonur Stefnis Guðlaugssonar sem bjó á Eyrargötu 22 á Siglufirði fyrir allmörgum árum.
Samkvæmt síður en svo óbrigðulu minni mínu var það annað hvort árið 2002 eða 2003 sem stormað var norður um páskana og slegið upp balli í Allanum hjá Svavari. Dúóið Vanir Menn sem þá var skipað þeim sem þetta ritar auk gítarleikaranum Eþóri Stefánssyni, fékk mikinn og góðan liðsauka. Hér að ofan er það Selma Hauks sem þenur raddböndin.
Gummi Ingólfs söng líka um rauðu sokka rabbarbarans.
Kristbjörn (Stubbi) Bjarnason í hreint ótrúlegum stórsöngvarastellingum.
Biggi Ölmu söng Creadence Clearwater eins og honum er einum lagið.
Rabbi Erlends söng bæði einn og svo dúetta með Selmu.
(Myndin er reyndar fengin að láni hjá Steingrími.)
Ég var hins vegar vel geymdur á bak við hljómborðsgrindina.
Skrallið var svo endurtekið árið eftir, en þá átti Rabbi því miður ekki heimangengt. Í staðinn mætti Gauti Sveins með svört sólgleraugu og söng m.a. um Jamison við mikinn fögnuð ungra meyja sem þyrptust að sviðinu, föðmuðu fætur hans í endalausri hrifningu og höfðu hátt. En mér hefur því miður ekki tekist að grafa um neinar myndir frá þeim atburði. - Slíkar væru hins vegar vel þegnar.
Það var svo í október 2004 að 1978 útgáfan af Miðaldamönnum kom saman alveg eins skipuð og 26 árum áður. Þá eins og þarna var hún mönnuð talið frá vinstri: Leó, Gummi Ragnars, Selma Hauks, Biggi Inga og Maggi Guðbrands.