04.04.2007 19:50

Reimleikar á Aðalgötunni



                                             Aðalgata 28.

360. Það var um mitt sumarið 1981 að ég fékk næturgesti á Aðalgötu 28 þar sem ég bjó á því herrans ári.

Forsaga þess máls var sú að ég hafði haustið áður sent inn lag í Söngvakeppni sjónvarpsins sem komst alla leið í 10 laga undanúrslitin. Ég var að vonum hæstánægður því það hafði spurst út að alls hefðu borist 550 lög. Lagið hét "Eftir ballið" og við "Miðaldamennirnir" höfðum tekið það upp í hljóðveri árið 1978 þegar Selma söng með okkur. Og þar sem til var upptaka af því síðan þá, þótti okkur alveg gráupplagt að stinga kassettu í umslag og setja í póst. Ekki komust menn á toppinn með framlag sitt að þessu sinni því lag sem heitir "Af litlum neista" vann keppnina með glæsibrag, en árangurinn var engu að síður vel viðunandi. Að keppninni lokinni þótti okkur rétt að láta reyna á hvort hægt væri að fylgja málinu eitthvað eftir og fórum til Akureyrar það sem lagið var tekið upp á ný, en Erla Stefánsdóttir sem hafði sungið með hljómsveitinni Póló féllst á að vera gestasöngkona. Það var svo um sumarið að hún kom frá Akureyri ásamt Leó Torfasyni gítarleikara og Viðari Eðvarðssyni saxófónleikara og söng með okkur á Hótel Höfn. Stækkuðu Miðaldamenn því talsvert að mannafla, gæðum og umfangi, en hljómsveitin var um þetta leiti aðeins tríó. Fleiri voru með í för, þar á meðal vinkona Erlu. Um nóttina var svo mannskapnum skipt niður á bæina til að gista, og kom það í minn hlut að hýsa m.a. vinkonuna. Hún gisti í litlu herbergi í austurenda íbúðarinnar og urðum við ábúendur ekki vör við neitt óeðlilegt fyrr en um morguninn, en þá kom vinkonan fram ósofin með öllu og illa til reika. Við spurðum forviða hverju sætti, en hún sagði okkur þá að hún hefði ekki fest blund vegna mannsins sem var að ganga upp og niður stigann sem lá upp við vegginn á herberginu í alla nótt. Hún skildi ekki hvað þessum manni hafði getað gengið til með svo undarlegu háttarlagi, og vildi fá skýringar á þessu fáránlega framferði hans. Það varð svolítið vandræðaleg þögn en svo fór ég að segja henni frá stiganum sem hafði einu sinni legið upp á loft einmitt þar sem herbergisveggurinn stóð núna. Viðbrögðin voru mestmegnis skelfingarsvipur og undarleg hljóð sem bárust frá hinum syfjaða næturgesti sem sat við eldhúsborðið. Þegar nokkuð hafði slegið á mesta eftirskjálftann vegna upplýsinganna um að ónæðið væri annars heims, vildi hún koma sér út úr húsinu sem allra, allra fyrst. Við horfðum því á eftir henni hálf hlaupa við fót niður stigann og út á götu. Útidyrnar lokuðust með svolitlum skelli og síðan hef ég engar spurnir haft af stúlkunni þeirri arna.



                                   1981 útgáfan af Miðaldamönnum.

Það var svo heilum tveimur áratugum síðar að Birgir Schiöth heimsótti mig þegar hann var staddur í bænum. Við gengum um húsið og hann benti mér á hvar hann hafði fæðst, hverju hefði verið breytt og einnig hvar hefðu verið tveir stigar sem ætlaðir voru þjónustufólkinu sem bjó á loftinu. Ég sagði honum frá áðurnefndu atviki og hann hló við og kinkaði ákaft kolli. Maðurinn sem gekk upp og niður stigann hafði verið þarna frá því að húsið var byggt, en enginn vissi nein deili á honum. Aldrei hafði neinn látist innan veggja hússins frá því að það var byggt árið 1930, en hann bætti því ekkert væri að óttast því gesturinn sem enginn sá eða þekkti hið minnsta til, væri í raun hinn besti karl.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 2
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 903
Gestir í gær: 489
Samtals flettingar: 323393
Samtals gestir: 36132
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 00:02:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni