23.04.2007 02:37

Allt sem ég hef misst.



366. Talandi um hljómsveitina Sviðna jörð í síðasta pistli?

En það eðalband (sem er til í alvörunni fyrir þá sem ekki vita) skipa þeir Freyr Eyjólfsson, Magnús R. Einarsson, Hjörtur Howser, Ragnar Sigurjónsson og Einar Sigurðsson, en hljómsveitin gaf út plötuna "lög til að skjóta sig við" fyrir síðustu jól. Þarna er sem sagt valinn maður í hverju rúmi, en það er hins vegar gert út á undarlegri og óhefðbundnari tónlistarmið en tíðkast yfirleitt. Þessir "drengir" spila sveitatónlist, en aðeins með afar sorglegum textum. Við Axel tókum eitt lagið að okkur um nokkurra vikna skeið og spiluðum það talsvert á mannamótum, því okkur þótti textinn bæði sorglega fyndinn en með yndislega súrsætum undirtón.

Heimspekilegar vangaveltur um lífshlaup mannanna eru ekki alltaf eins stórkostlegar og glamúlkenndar og lesa má í glanstímaritum á læknabiðstofum. Betra væri að hinn einfaldi og oft á tíðum svolítið beiski sannleikur fengi að njóta sín svolítið hreinni og ómengaðri en hann er svo oft framreiddur. Það búa nefnilega ekki allir í glæstum höllum við endalausa hamingju í hvívetna, - því miður. Ég hef grun um að fleiri en þeir sem vilja gangast við því sjái sjálfa sig svolítið í ljóðlínunum hér að neðan eða a.m.k. á milli þeirra, - alla vega geri ég það.

Allt sem ég hef misst.

Bjarnafjörður, Barmahlíð, Búðir, Lómagnúpur,
Dynjandi og Dimmuborgir, Djúpavík og Núpur.
Arnarstapi og Ólafsvíkurenni,
og allir þessir staðir sem ég heimsótti með henni.
Kátt var á hjalla, - er ég kom til ykkar fyrst,
allt minnir mig þá mest á, - allt sem ég hef misst.

Að vakna að morgni, malla kaffi, mogganum hennar fletta,
sjá það þarf að taka til tár á blöðin detta.
Skæla svo eins og skrúfað væri frá krana,
jafnvel myndin í speglinum minnir á hana.
Andavaka um nætur, - með enga matarlist,
það eina sem ég hugsa um, - er allt sem ég hef misst.

Að ráfa um í reiðuleysi rétt eins og dæmdur maður,
finnast íbúðin auð og tóm og andstyggilegur staður.
Særður og lúinn og samviskubitinn,
en er far við vaskinn eftir varalitinn.
Þær yndislegu varir, - fæ ég aldrei framar kysst,
og ekkert var eins dýmætt, - og allt sem ég hef misst.

Bjarnafjörður, Barmahlíð, Búðir, Lómagnúpur,
Dynjandi og Dyrhólaey, Dritvík og Núpur.
Arnarstapi og Ólafsvíkurenni,
ég heimsæki ykkur aldrei aftur með henni.
Hjarta mitt er soltið, og sál mín er þyrst,
og alls staðar eru minningar um, - allt sem ég hef misst.

Það er engu líkara en að lofthugarnir Magnþóra og Ketilbjörn sem felldu hugi saman þegar þau voru bæði á erfiðum aldri og langaði til að verða þjóðlegir "framtíðartreflar" þessa lands og tilheyra "lopapeysuliðinu," hafi raðað saman þessum ljóðrænu línum sameiginlegum minningum sínum til dýrðar og vegsemdar. En það átti því miður ekki fyrir þeim að liggja að upplifa drauminn saman. Þau tóku einhvers staðar vitlausa beygju á lífsins göngu, settu sig niður í sitt hvorn landsfjórðunginn, áttu börn og buru og árin liðu hjá. Þegar fór svo að síga á seinni hlutann, vaknaði gamli draumurinn aftur hjá þeim báðum svo að segja samtímis. En aðstæður þeirra buðu ekki lengur upp á að þau höndluðu hamingjuna saman og þau gerðust því einmanna "skúffuskáld" með eirðarlítið blik í auga það sem eftir var þessarar jarðvistar. Sagt er að þau hafi aldrei náð saman og eða gengið í eina sæng, en upplifðu nostalgíuna upp aftur og aftur sitt í hvoru lagi. En þegar æfikvöldið nálgaðist eignuðust þau bæði gsm og lærðu að senda sms. Þau skiptust síðan á smáskilaboðum af sitt hvoru elliheimilinu allt fram undir þann sorglega tíma þegar allir hafa gleymt öllu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 633
Gestir í dag: 149
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477527
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 07:25:21
clockhere

Tenglar

Eldra efni