22.07.2007 02:19
Júlíferð á Sigló, - fyrri hluti.
388. Ég skrapp á Sigló um helgina (13-16) og eins og svo oft á þessum tíma ársins var mikið að gerast í bænum. Mannlífið bar svolítið "keim til fortíðar" vegna þess hversu margir voru á ferli sem eru burtfluttir fyrir að vísu mislöngu síðan. Ástæðan var að sjálfsögðu sú að þrjú árgangsmót voru haldin þessa daga auk eins ættarmóts sem var reyndar ekki af minni gerðinni. Það voru árgangar ´47, ´52 og ´57 sem voru saman komnir til að finna til hinnar nostalgíulegu samkenndar sem eðlilega einkennir slíkar samkomur þegar bæði sætar og súrsætar minningar eru gjarnan rifjaðar upp. Svo voru "Gosarnir" frammi á Hóli með ættarmótið sitt, en það verður að segjast að viðkoma þeirra sem teljast til þessarar ættar er líklega talsvert langt yfir meðallagi, slíkur var fjöldinn á gamla kúabúinu. Reyndar var einnig haldið pílumót að Suðurgötu 10, en ég veit ekki hvort það hefur dregið að sér margmenni til bæjarins að þessu sinni.
Eitt af því sem ég klikka ekki á er að kaupa Sírópskökur hjá Kobba. Nokkuð sem ég hef hingað til ekki séð annars staðar. Alla vega ekkert sem stenst samanburð.
Biggi Ölmu sem er af ´57 árgerðinni var á ferðinni seinni part laugardagsins, bankaði upp á og tók nokkur létt en valinkunn rokkslagarastef frá því í denn á eldhúsgólfinu. Hann hlaut auðvitað sína umbun fyrir rétt eins og krakkarnir sem fara syngjandi milli búða á Öskudaginn. Við Biggi vorum nefnilega saman í hljómsveit að okkur minnti árið 1975 sællar minningar og spiluðum þá oft í Allanum hjá Villa Friðriks.
Eitt af því sem mér tókst alveg sérlega vel upp með að gera, var að læsa mig úti. Ég sá þá að stofuglugginn var opinn og einfaldast að fara þar inn. Ég fór því svolítinn rúnt ásamt Ingvari afkvæmi mínu um nágrennið í leit að stiga. Við fundum hann í garði við ónefnt hús í nágrenninu og rændum honum, reisum upp og ég klifraði upp og inn. Síðan fórum við annan leiðangur skömmu síðar, rétt eins og ræningjarnir í Kardímommuibænum þegar þeir skiluðu Soffíu frænku. Auðvitað lögðum við stigann aftur í grasfarið sitt þar sem hann hafði verið tíndur upp.
"Gosarnir" sem hafa tímgast með ólíkindum voru á Hóli.
Þarna tókst að mynda það sem kallast "sólarglenna" þó í fjarska sé.
Manngerð tjörn og manngerður lækur, hvílík ónáttúra á bak við tóra Bola gæti einhver heittrúaður umhverfisverndarsinni látið sér detta í hug að segja. En samt alveg ferlega flott rétt eins og Bakkatjörnin hinum megin í bænum.
En ég var aðallega kominn norður í þetta skipti til að skipta um útihurð á Aðalgötunnu. Hér má sjá þá gömlu og nýju. Tíminn sem ég valdi til skiptanna var líklega ekkert eðlilegri en svo margt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana. Ég byrjaði um tíuleytið á laugardagskvöldinu og var búinn rétt fyrir þrjú um nóttina. Þar sem inngangurinn í Bíókaffi þar sem Karma var að spila fyrir fyllu húsi, var innan við 10 metrum ofar í götunni var auðvitað erilsamt hjá mér við allt annað en hurðarísetningu.
Margir litu inn og það voru teknar langar pásur. Gummi Páls og Gústi Dan eru ekki daglegir gestir.
Maggi Jóns hjá Sam-bíóunum á Akureyri og fyrrum næst, næsti nágranni er það ekki heldur.
Maggi Árna (bróðir Elmars) er "alvöru" smiður og með pappíra upp á það. Hann var með ólíkindum hjálpsamur við að glerja, bora lista og skrúfa. En hann skrapp aðeins út af ballinu en fór þangað aftur, að vísu löngu seinna en hann ætlaði sér í upphafi.
Öðlingurinn Steini Garðars var líka einn af þessum góðu drengjum sem vildu leggja málefninu lið. Hann réðist að slúttjárninu sem hafði núna lokið hlutverki sínu. Inn um dyrnar gægist Rögnvaldur stórtónlistarmaður frá Sólgörðum sem færði mér disk að gjöf sem hann hafði tekið upp og ég þakkaði ekki nógsamlega fyrir. Alltaf þegar ég sé Rögnvald rifjast upp fyrir mér þegar ég seldi honum fyrsta rafmagnsorgelið. Hann kom ásamt föður sínum upp á Hverfisgötu 11 til að sækja gripinn samkvæmt umtali sem var forláta tveggja borða Yamaha rafmagnsorgel með fótbassa, og sá gamli spurði hvort þetta væri ekki bara einhver bölvuð vitleysa í stráknum að vera að kaupa svona lagað en ég hélt nú aldeilis ekki.
Ásgeir Sölva heiðraði mig líka með nærveru sinni, en við unnum saman í Húseiningum hf. á árabilinu ´78 - ´81
Þegar hurðin var komin í fór ég úr vinnufötunum, í þau skárri og leit aðeins út í tjaldið sem er komið inn á baklóðina hjá mér og þá einnig á bak við Bíókaffi. Ballið var búið og þar var slangur af skemmtilegu fólki sem var ekki farið heim alveg strax.
Gamlir popparar. Stjáni og Siggi Hólmsteins.
"Bleeeeeeeeeessaður," en ég skaut flöguskoti á móti.
Hann er ógeðslega frægur leikari eða eitthvað. Ég ætla að læðast bak við hann og vertu svo tilbúinn að taka mynd. Mér sýnist plottið hafa gengið upp.
Fleiri vildu leika þetta eftir og "frægi" maðurinn fílaði sig ágætlega en alveg ómeðvitað í þessu nýjasta hlutverki sínu.
En þá var komin röðin að mér. Þessir drengir sem eru gamlir kúnnar úr Laugarásvideó kölluðu mig "video-legend" og ég féllst því á þessa myndatöku alveg "ógeðslega" mikið upp með mér af öllu hólinu sem þeir demdu yfir mig.
Hverju skyldi hún vera að hvísla að honum og klukkan orðin svona margt???
Júhúúúú. Taktu mynd af okkur sagði Una sem er alltaf til í að sitja fyrir.
Og fleiri voru tilbúnir að sitja fyrir.
Tumi blikkari og Elli Ísfjörð jr. voru á Torginu. En nú var komið nóg og tími á svolítinn svefn.
Á sunnudeginum skrapp ég svolítinn rúnt í blíðunni. Ég velti fyrir mér hvort saga þessa "draugaskips" í slippnum er einhvers staðar til og aðgengileg.
Um kvöldið má segja að "kvöldblíðan lognværa" hafi verið ríkjandi með afgerandi hætti. Sjórinn orðinn seigfljótandi, sólin strýkur fjallatoppana og fjöllin standa á haus í sjónum.
Í þessu spilverki náttúrunnar kjagar ungamamma með afkvæmi sín fram hjá mér og hefur fátt annaað til málanna að leggja en bra, bra, bra...
Álfhóll við ós Fjarðarárinnar sem ég held að flestir þekki núorðið sem Hólsá.
Þegar heitara og svolítið kaldara loft mætist verður til svona míni-þoka.
Þessi mynd er tekin suður í Melasveit að lokinni einni af ferðum mínum á æskuslóðirnar. Ég er ekki farinn að sjá dagskrá Síldarævintýrisins ennþá, en er samt fyrir margt löngu búinn að taka þessa helgi frá og stefna fullt af fólki norður í Síldarbæinn.