26.07.2007 00:37

Verslað í Bónusvideó.



389. Einhvern tíma hefði ég hlotið mína eigin fordæmingu án áminningar fyrir það eitt að láta nokkurn mann sjá mig halda poka svona kyrfilega merktum Bónusvideó svo hátt á lofti sem glöggt má sjá, en núna er ég sem sagt farinn versla stundum í Bónusvideó.

Það var á því herrans ári 1981 þann 12. ágúst klukkan 16.00, sem ég byrjaði að leigja út videóspólur norður á Siglufirði. Upphaflegt stofnfé var hvorki meira né minna en heilar tólf þúsund krónur, og fyrir þær voru keyptar átján notaðar videóspólur í Videóbankanum við Laugarveg. Segja má að mjór sé mikils vísir og það varð síðan mitt aðalstarf í 24 ár að reka myndbandaleigur sem grundvallaðist á þessu umrædda upphafi. Fyrst á Siglufirði, þá Videóbjörninn Hringbraut 119 í Reykjavík og síðast Laugarásvideó í Laugarásnum. Það var á síðasta staðnum sem menn gátu loksins gert eitt og annað sem hugurinn hafði alltaf staðið til. Eitt af því var að hefja stórfelldan innflutning á svokölluðu jaðarefni sem var þá hvergi annars staðar til. Það gerði staðinn verulega sérstakan og orðspor hans fór hratt vaxandi. Eitt af því sem fréttist út var að starfsmönnum Bónusvideó sem margir hverjir voru góðir viðskiptavinir Laugarásvideós, var harðbannað að benda viðskiptavinum sínum á að myndefnið sem þeir leituðu að og var ekki til þar, væri fáanlegt í Laufgarásvideó. Þetta hleypti kergju í "suma" og Bónusvideó var úthrópað sem myndbandaleiga hins smekklausa undirmálsmanns sem gerir ekki gæðakröfur heldur vill láta matreiða afþreyinguna ofan í sig gagnrýnilaust án nokkurrar hugsunar.
"Þegar þú ert farinn að versla í Bónusvideó, þá ertu búinn að finna botninn."
Reyndar er ég þeirrar skoðunar enn í dag að þetta eigi við einhnver rök að styðjast en samt...

Áður fyrr horfði ég á að minnsta kosti eina bíómynd á hverjum einasta degi, en ég var að átta mig á því nýverið að ég hef hvorki notað DVD tækið né gamla spólujálkinn til að horfa á svo mikið sem eina einustu ræmu allt þetta ár. Ég spyr því sjálfan mig hvað sé eiginlega að gerast, en við þeirri spurningu er líklega ekki til neitt einfalt svar.
Ég læt mér alla vega ekki detta í hug að reyna að svara henni, yppi bara öxlum kæruleysislega og segi bara - SO WHAT!

Ég er nefnilega steinhættur í videóbransanum.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480895
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:17:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni