14.10.2007 15:53

Og úti er ævintýri.



405. 17 mánaða "hjónabandi" er lokið. Það verður að teljast svolítið Hollywoodlegt, en svona lætur hún stundum þessi undarlega tík sem við köllum pólitík. Og einhverjir þurfa því í kjölfar nýliðinna atburða að hefja leit að nýju lífi og það sem allra fyrst, ef þeir ætla sér að ná landi á undan keppinautunum og hefja sambúð með einhverjum sem er nýkominn á "kjötmarkaðinn." Einhvern tíma sagði líka einhver að pólitík snérist um val á milli framagosa og metorðasjúkra einstaklinga, en að sjálfsögðu er bara ljótt að tala svona. Allir vita að þeir sem bjóða sig fram til að vinna að framgangi góðra máli fyrir lýðinn í þessu landi, gera það af takmarkalítilli fórnfýsi þar sem hagsmunir heildarinnar eru þeir einu sem horft er til og hafðir að leiðarljósi.

"Gamli" meirihlutinn sem þrátt fyrir að vera tiltölulega kornungur, er allur og hefur fellt sína síðustu fjöður. Ég heyrði einhvern (sennilega sjálfstæðismann) tala um pólitískan undanflæming. Mér fannst svolítið undarlega að orði komist og datt í hug hvort ekki væri þá rökrétt að spyrja svona út í loftið: Villtist einhver undan einhverjum, hafði farið fram einhver pólitísk innræting farið fram þar sem aðeins komu við sögu tveir menn og það úr sitt hvorum flokknum og var þá annar að svíkja sannfæringu hins. Eða kom kannski einhver styggð að hjörðinni og eitt ráðvillt og sárlega jarmandi "lambið" rataði ekki til "móður" sinnar þrátt fyrir að tilheyra ekki strangt til tekið hjörð "móðurinnar?"
Hvernig ber annars að skilja orðasambandið "pólitískur undanflæmingur" í þessu tilfelli?
Ofvirkir svitakirtlar hafa líklega verið störfum hlaðnir í Valhöll síðustu dagana og þykkjulegt andrúmsloftið því væntanlega meðal annars mettað af þeirri starfsemi.
Ekki vildi ég vera þar um þessar mundir.

Ég heyrði annan (grunar sterklega að sá sé framsóknarmaður) lýsa yfir vanþóknun sinni og furðu á því að meintur undanflæmingur yrði ekki næsti borgarstjóri. Ég spurði hann hvort það væri alveg eðlilegt miðað við fylgið á bak við manninn.Hann horfði á mig um stund svolítið barnslega sakleysislegur á svipinn og virtist hissa á skilningsleysi mínu á hinu nýja pólitíska landslagi og augljósum sóknartækifærum sinna manna.
"En maðurinn er snillingur" sagði hann án þess að sjá ástæðu til að útskýra þá fullyrðingu neitt frekar og það kenndi svolítillar vorkunnar í röddinni.

Maður hristir nú bara höfuðið og leyfir flösunni að fjúka. Ég skal alveg viðurkenna að ég skil ekki margt af því sem hefur verið að gerast í henni Reykjavík undanfarið, enda áhuginn takmarkaður. Kannski af því að ég er Siglfirðingur með lögheimili í Hafnarfirði og merkjanlegan vott af höfuðborgarfælni.Ég horfði á myndina hér að ofan nokkra stund og upp í hugann komu orð sem einhver spekingur lét einhvern tíma falla.
"Kona þarfnast öryggis, eins og karlmaðurinn viðurkenningar." Ekki að það eigi við svona bókstaflega í þessu tilfelli, en skyldi þau geta átt við í "yfirfærðri" merkingu?

Ég veit ekki.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480773
Samtals gestir: 53306
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 03:50:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni