17.02.2008 06:06

Siglóferð í febrúar 2008



446.Þegar ég skrapp á heimaslóðir fyrir fáeinum dögum síðan verður að segjast að aðstæður til myndatöku utandyra voru  vægast sagt í slakara lagi þann tíma sem staldrað var við. Eins og sjá má af myndinni hér að ofan (og neðan reyndar líka,) var skyggni takmarkað og einskorðaðist að mestu við gráu tónana sem eru ekki alltaf það sem verið er að sækjast í. Það var því óvenju lítið um myndatökur í þessari ferð og reyndar svo lítið að það verður að teljast fullkomlega út úr korti, á skjön við allar hefðir og venjur og ferðalagið þess vegna nokkurs konar "afbrigði" að því leytinu.



En þegar sem ég brá mér í svolitla skoðunarferð um bæinn að venju, komu allt í einu upp í hugann húsin sem voru gefin hérna um árið. Þótti ýmsum þessi gjörð hvorki vera til fyrirmyndar eða af hinu góða fyrir "fasteignamarkaðinn" í bænum ef hægt var þá að tala um eitthvað slíkt á þeim tíma. En hún var þannig í höfuðatriðum að mig minnir, að í fyrstu var gerð kostnaðaráætlun sem gekk út á að rífa húsin. Sú fjárhæð var síðan látin fylgja húsinu sem styrkur til endurbyggingar og húsið gefið einhverjum sem líklegur þótti til að standa við þá meðfylgjandi kvöð að koma því í sómasamlegt ástand. Í öllum tilfellum var um að ræða hús sem bærinn hafði eignast með einum eða öðrum hætti og þurftu verulegra endurbóta við.



Ekki man ég hvort gjafahúsin sem gengu út voru fleiri en þessi þrjú sem myndirnar eru af, en enginn vildi þiggja "Hóla" við Lindargötu svo það var brotið niður. Mér finnst sem gömlum Brekkubúa mikil eftirsjá vera að því fallega húsi, en vissulega var ástand þess orðið slæmt og endurbygging þess hefði því væntanlega orðið mjög kostnaðarsöm.



En hvaða skoðun sem menn hafa á gjafaformúlunni og aðferðarfræðinni sem lögð var til grundvallar þeim gjörning sem á sér líklega fá eða engin fordæmi, verður að segjast að þegar litið er yfir sviðið í dag verður ekki annað sagt en að vel hafi tekist til með endurbætur.



Í dag eru þetta falleg og reisuleg hús sem ég hefði ekki viljað að vantaði inn í sínar götumyndirnar.



Sólroðið ský út við sjóndeildarhring.

Það hætti allt í einu að mugga og himininn varð allt að því alveg heiður. Það gerðist svo skyndilega að ekki var annað hægt en að staldra við, horfa upp í loftið og spyrja sjálfan sig svolítið hissa; - "hvað gerðist eiginlega..."
Gráu tónarnir voru að miklu leyti horfnir á braut og í stað þeirra voru litir jarðar, himins og hafs komnir í stutta heimsókn.En þetta ástand varði ekki lengi því skömmu síðar var allt orðið grátt á ný og þannig hélst það það sem eftir var af dvöl minni á Siglufirði í þetta skiptið.

En þar er alltaf gott að vera hvernig sem veðrið er.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 400
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 903
Gestir í gær: 489
Samtals flettingar: 323791
Samtals gestir: 36193
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 03:41:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni