22.06.2008 12:40

Systkinabarnamót.

481. Eftir Siglufjarðarferðina á dögunum var haldið til skemmtilegs mannfagnaðar. Það var boðið til Syskinabarnamóts á Akureyri sem er í raun eins konar míni ættarmót. Ég sagði á Akureyri sem er þó ekki alls kostar rétt, því lengst af var dvalið í sumarbústað uppi í Vaðlaheiði. Þetta mót hefur verið haldið árlega eitthvað á annan áratug og mætingin hreint ótrúleg frá upphafi, enda samheldnin mikil hjá þessari fjölskyldu. Það eru börn Sóleyjar ömmu minnar og systkina hennar sem eru umrædd systkinabörn, en að þessu sinni mættum við Sæunn systir mín sem fulltrúar móður okkar sem ekki er lengur til staðar.

Það var lagt af stað frá Siglufirði nokkuð snemma föstudaginn 13. júní þó svo að mætingin væri ekki fyrr en í hádeginu daginn eftir. Ástæðan var fyrst og fremst gott veður og að langt er síðan þessi leið hefur verið farin öðru vísi en með hraði.



Ég gat ekki annað en staldrað við hjá Hringveri í Ólafsfirði og mundað vélina. Í þessu gamla og litla samkomuhúsi hafði nokkrum sinnum verið slegið á strengi og græjurnar þandar til hins ýtrasta á árunum upp úr 1970. Þá var það hljómsveitin Frum sem var þar á ferð. (Ég, Biggi Inga, Viddi, Gummi Ingólfs og Guðni Sveins, en síðar Tóti Ben og Gummi Ragnars.) Ég man sérstaklega eftir einu balli sem við spiluðum á í Hringveri, en Gautarnir höfðu ákveðið með stuttum fyrirvara að spila á Ketilásnum sama kvöld. Við töldum því að miklar líkur væru á algjöru messufalli en vildum ekki gefa okkur. Raunin varð sú að húsið fylltist og nokkrir Siglfirðingar sem nú orðið teljast til virðulegri borgara, styttu sér leið inn um gluggana þar sem þeim fannst biðröðin við miðasöluna vera of löng fyrir sinn smekk. Síðar um kvöldið þurfti svo auðvitað að bregða sér út í hreina loftið og guðsgræna náttúruna og var þá aftur faið út og inn um gluggann. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum um kvöldið og þar kom að einn gestanna festi sig í glugganum, líklega vegna ölvunar. Hann var því þarna hálfur úti og hálfur inni og söng hástöfum fyrir gesti meðan fæturnir dingluðu út í loftið og dyraverðir reyndu eins og þeir gátu að ná taki á þeim. Það fór þó svo að lokum að hann var dreginn út og rukkaður um aðgangseyrinn, en eftir það gekk hann um aðaldyr hússins.



Stutt er frá Hringveri og niður á Ólafsfjörð eða í austurbæ Fjallabyggðar.



Er ekki alveg viss um hvað þessi bær heitir en tel mestar líkur á að hann heiti Garður. Íbúðarhúsið er á bak við timburverkið sem blasir við á myndinni.



Þetta er líklega eins konar gestahús við bæinn, og mér sýnist sértækar ráðstafanir hafa verið gerðar til að halda gestunum "niðri" í öllum veðrum.



Það er styttra nú orðið til Dalvíkur eða Böggvistaðasands eins og bærinn hét í fyrstu en þegar fara þyrfti gamla Múlaveginn. Stundum í mikilli hálku eða ófærð, þoku eða náttmyrkri, og yfirleitt svo grútsyfjaðir og þreyttir að menn sáu varla út úr augunum eftir eitthvað sveitaballið inni í Eyjafirði eða jafnvel Þingeyjarsýslum. Hægra megin á myndinni er "Stóllinn" sem er óumdeilanlegt stolt Svardælinga. Oft hef ég heyrt ættmenni mín halda því fram að þetta sé fallegasta fjall á Íslandi, en ég set hana hiklaust á stall með öðrum rismiklum fjöllum s.s. Hólshyrnunni á Sigló.



Þessi vel klæddi maður upp á gamla mátann, tekur svo á móti vegfarendum sem koma að norðan. Ekki veit ég hvort þetta er sjálfur Jóhann risi sem er eflaust einn frægasti Svardælingurinn, en gaman væri að fá póst um það ef einhver veit betur. En hver sem hann er, þá vísar hann veginn til Byggðasafnsins.



Og fyrir framan Byggðasafnið er þessi hjallur með "tilheyrandi."



Þessir drengir voru að "fiska" reiðhjól upp úr tjörninni.



Seint á áttunda áratugnum þegar við (Miðaldamenn) höfðum eitt sinn verið að spila heila helgi einhvers staðar á ausurlandi, ókum við í gegn um Dalvík á sunnudegi á heimleiðinni. Oft var það svo að eftir lengri túra voru menn svolítið slæptir án þess að ég taki neitt dýpra í árinni, en ekki síður svangir. Þá rak Norsk kona matsölu í Víkurröst og okkur fannst tilvalið að koma við og fá okkur svolítið í gogginn hjá þeirri ágætu konu. Við spurðum hvað væri í pottunum og ég heyrði ekki betur en eitthvað væri minnst á fisk sem mér leist vel á. En sú Norska talaði ekki alveg óbjagaða íslensku og þegar diskarnir komu á borð voru á þeim svið og rófustappa. Ég var þar með kominn í bölvuð vandræði því svið hef ég aldrei getað ofan í mig látið, þrátt fyrir að ekkert vanti upp á góðan vilja í þá veru. Mér fannst ekki þægilegt að horft væri á mig brostnu augnaráði frá disknum, en herti upp hugann og borðaði alla rófustöppuna með bestu lyst en henti sviðunum út um gluggnn. Skömmu síðar upphófust mikil læti, hávaði og gauragangur fyrir utan og þeir gestir sem þarna voru flykktust út að gluggunum til að athuga hverju sætti. Voru þar mættir til leiks nokkrir kettir og létu ófriðlega þar sem þeir börðust um sviðakjammana tvo. Komst þá upp um strákinn Tuma sem varð svolítið vandræðalegur eða jafnvel rétt rúmlega það.



Sunnan við Dalvík í mynni Svarfaðardals hafa hestamenn komið sér upp glæsilegri aðstöðu. Þar hitti ég góða vinkonu frá því í eina tíð, hana Möggu Alfreðs frá Reykjum í Fljótum. Við Magga unnum saman ásamt öflugu gengi sem samanstóð aðallega af Siglfirðingum og Skaftfellingum, í Ísfélaginu í Vestmannaeyjum m.a. undir verkstjórn Bassa Möller fyrir aldarþriðjungi síðan. Nú býr hún og starfar á Dalvík og stundar hestamennsku af miklum móð.



Það er stutt yfir til Hríseyjar



Þegar innar dregur í Eyjafjörðinn er ekið fram hjá húsi Davíðs, Fagraskógi sem mér virðist standa ágætlega undir nafni. Þar fæddist Davíð Stefánsson skáld, en hann bjó lengst af á Akureyri.



Hörgárdalur og Öxnadalur til vinstri. Hér liggur þjóðvegur eitt yfir Tröllaskaga innanverðan og fjöllin þarna eru vissulega svolítið Tröllsleg að sjá. Kannski eilítið meira en venjulega.



Þar sem nægur tími var til stefnu datt mér í hug að renna upp að hinu forna höfuðbóli Möðruvöllum.

Höfuðbýlið Möðruvellir stendur neðan við dalsmynnið í Hörgárdal, nokkru norðan við ána. Hefur þar lengstum verið stórbýlt, enda góð engi allt í kring og vel til búskapar fallið. Eru 13 kílómetrar frá Möðruvöllum til Akureyrar.

Möðruvellir voru eins og áður sagði höfuðbýli og hefur verið nálega alla tíð. Á 10. og 11. öld bjó þar t.a.m. Guðmundur Eyjólfsson hinn ríki, bróðir Einar Þveræings. Þótti hann með mestu höfðingjum landsins, en Halldór sonur hans var einn þeirra fjórmenninga sem Ólafur Tryggvason hélt í gíslingu hjá sér í Noregi meðan hann beið þess að Íslendingar gengju kristni á hönd. Var Halldór þar ásamt með Kjartani Ólafssyni pá og hefur Ólafur konungur sennilega valið Halldór sökum þess hve fjölskylda hans var áhrifamikil á Íslandi.

Árið 1296 setti Jörundur biskup Þorsteinsson á Hólum á fót munkaklaustur af reglu Ágústínusar á Möðrudal og státaði það brátt af einu stærsta og veglegasta bókasafni landsins í þá tíð. Klaustrið brann árið 1316 í kjölfar mikillar drykkju- og svallveislu munkanna þar eftir því sem sagan segir. Samdi þjóðskáldið Davíð Stefánsson leikrit um það sem nefnist Munkarnir á Möðruvöllum. Er legstaður Davíðs í Möðruvallarkirkjugarði.

Þegar Íslendingar breyttu um sið um miðja 16. öldina féll staðurinn undir Danakonung. Var þar síðan aðsetur margra amtmanna konungs, en einn þeirra var Bjarni Thorarensen skáld. Eins og Davíð er var Bjarni jarðaður þar í kirkjugarðinum.

Þá var á Möðruvöllum stofnaður Gagnfræðaskóli með lögum þann 17. nóvember árið 1879. Hann hóf þó ekki starfsemi fyrr en þremur arum síðar eða árið 1880. Var það fyrsti gagnfræðaskólinn á landinu. Fór þar fram almennt nám með sérstakri áherslu á búnaðarfræði. Stóð skólahald þar fram til ársins 1902 þegar skólahúsið brann og var þá skólinn fluttur til Akureyrar.

Árið 1974 var svo sett á fót tilraunabúi í Nautgriparækt á Möðruvöllum og mun vera þar enn.

Af kunnum einstaklingum sem fæðst hafa á Möðruvöllum má nefna Jón Sveinsson eða Nonna eins og hann er betur þekktur. Fæddist hann þar árið 1845. Þá fæddist Hannes Hafstein fyrsti ráðherrann þar árið 1861. Steindór Steindórsson frá Hlöðum síðar skólameistari Menntaskólans á Akureyri fæddist þar einnig.

Núverandi kirkja á Möðruvöllum var byggð á árunum 1865 - 1867, en forveri hennar varð eldi að bráð árið 1865. Hefur því verið haldið fram að hvergi á byggðu bóli á Íslandi hafi eldur valdið jafn miklu tjóni. Eins og áður sagði brann klaustrið þar árið 1326, kirkjan árið 1865 og skólinn árið 1902, en auk þess brann allur bærinn árið 1712, amtmannsstofan árið 1826 og aftur 1874 og þá brann íbúðarhúsið þar árið 1937. (Gúgglað)



Þessi var á beit í Möðruvallatúninu íklædd sínum "jugreoppeholdere."



Ég hitti Guðrúnu Sonju og Baldur Ben (frá Sigló) á Akureyri og þar sem við vorum á spjalli tók ég eftir þessu bráðskemmtilega einkanúmeri sem þó virðist ekki tjá sig um nokkurn skapaðan hlut, enga afstöðu taka og engan boðskap hafa fram að færa, ef svo mætti að orði komast.



Það voru að hefjast Bíladagar á Akureyri þessa helgi og þarna var Haukur Þór (Leósson) auðvitað mættur á nýja bílnum sínum með sæþotuna í eftirdragi.

Það var staldrað aðeins við á Ráðhústorginu, en þar var flest með öðrum hætti en venjulega. Það var greinilega orðið margt um manninn í bænum og ég verð að segja það hreint út að mér fannst Akureyringar ekki öfundsverðir af gestunum eins og þeir komu mér fyrir sjónir. Þessi friðsæli, bráðfallegi og snyrtilegi bær með sínu léttdanska ívafi var að breytast og það allhratt í einhvers konar ormagryfju. Það var þegar orðið mikið um rusl á götum og gangstéttum þó að klukkan væri ekki orðin nema hálf ellefu. Umbúðir utan af sælgæti og samlokum, tómir sígarettupakkar og gosílát. Mikið unglingafyllerí og lyktin af bráðnu gúmmí lá í loftinu því urmull gerfitöffara með hor í nös gerði sem þeir gátu til að spæna upp malbikið. Akureyri var snemma á föstudagskvöldi orðinn sóðalegri bær en orð fá lýst.



Það var því best að koma sér á mótsstað uppi í Vaðlaheiðinni.



Frá Hlíðarseli er frábært útsýni til allra átta.



Og ekki spillti veðrið og sólarlagið fyrir.



Til að búa sér og sínum svefnstað hafði ég fjarlægt tvo bekki úr bílnum og sett tvíbreiða dýnu í þeirra stað inn í Caravan. Og eftir að búið var að líma álpappír fyrir gluggana var kominn hinn ákjósanlegasti hvílustaður.



Að morgni var síðan búist til að hefja hina "formlegu" dagskrá.



(Amtsbókasafnið. - Gúggluð mynd.)

Laugardagurinn hófst á því að Amtmannsbókasafnið var skoðað, en það er annars öllu jafna lokað úm helgar. En þar er hún Magga frænka mín bókavörður svo að hópurinn fékk einkaleiðsögn um staðinn.

Amtsbókasafnið var stofnað árið 1827 af Grími Jónssyni amtmanni á Möðruvöllum. Aðsetur safnsins var í Laxdalshúsi fyrstu 20 árin og fluttist síðan milli ýmissa húsa og var meðal annars til húsa í Ráðhúsi Akureyrarkaupstaðar í Búðargili og Samkomuhúsinu.

Árið 1906 varð Amtsbókasafnið formlega eign Akureyrarbæjar, með þeim skilyrðum að kaupstaðurinn myndi byggja fyrir safnið eldtraust geymsluhús og lestrarstofu. Árið 1933 var vakið máls á að aldarafmæli Matthíasar Jochumssonar nálgaðist og ákveðið að reisa minnisvarða í formi vandaðs húss yfir Amtsbókasafnið. Efnt var til samkeppni um teikningar af húsinu og hlutu tveir ungir arkitektar 1. verðlaun, þeir Bárður Ísleifsson og Gunnlaugur Halldórsson. Ákveðið var að húsið skyldi standa við Brekkugötu, þar sem það stendur í dag. En það var ekki fyrr en 30 árum síðar að framkvæmdir hófust og þá í tilefni 100 ára afmælis Akureyrarbæjar. Leitað var til arkitektanna sem unnu samkeppnina 1935 og lögðu þeir fram alveg nýja og nútímalega hugmynd að bókhlöðu. Hið nýja húsnæði var vígt þann 9. nóvember árið 1968.

Ákvörðun um viðbyggingu var tekin á fundi bæjarstjórnar 29. ágúst 1987 á 125 ára afmæli Akureyrarbæjar. Í framhaldi af þessari ákvörðun var efnt til samkeppni um hönnun hússins. Tillaga Guðmundar Jónssonar arkitekts í Noregi hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni og voru ummæli dómnefndar svohljóðandi:
"Tillaga nr. 2 sameinar núverandi hús og nýbyggingu í listræna heild án þess að núverandi hús glati nokkru af sérkennum sínum."
Árið 2000 var ákveðið að hefja framkvæmdir og var verkið boðið út á vordögum 2001. Fyrsta skóflustungan var tekin 1. júní það ár og nýtt og endurbætt húsnæðið formlega opnað 6. mars 2004.
(Textinn er fenginn að láni frá akureyri.is)



Götunöfn á Akureyri (að minnsta kosti sum) benda til þess að ráðamenn bæjarins séu hinir mestu húmoristar.



En safnið er glæsilegt.



Og þar eru að virðist endalausar hirslur sem hýsa hinar margvíslegustu "bókmenntir."



Þaðan var farið og bjórverksmiðjan Kaldi skoðuð.



Þessi ungi maður stóð við dæluna og lét jafnframt dæluna ganga. Hann skenkti þeim sem vildu ótæpilega en sagði okkur í leiðinni frá framleiðslunni. Hann upplýsti okkur m.a. að nýlega hefði milljónasta flaskan farið í gegn um tækin sem væri u.þ.b. ári á undan áætlun.

Eftirfarandi var gúgglað af vef fyrirtækisins.

Saga Bruggsmiðjunnar er nú ekki löng, þar sem að fyrirtækið er einungis rúmlega eins árs. Þó svo að fyrirtækið hafi verið starfrækt í stuttan tíma þá hefur það tekið miklum breytingum frá upphaflegri mynd.

Hugmyndina af fyrirtækinu kom frá konu á Árskogssandi, henni Agnesi Sigurðardóttur. Hún fékk hugmyndina á að opna litla bruggverksmiðju eftir að hafa séð frétt í sjónvarpinu frá lítilli verksmiðju í Danmörku. Viku seinna er hún og eiginmaður hennar, Ólafur Þröstur Ólafsson, komin út til Danmerkur að skoða bruggverksmiðju. Þetta gerist í júní 2005. Í október skrifa þau undir kaupsamninga á bruggtækjum út í Tékklandi. Í desember 2005 var fyrirtækið formlega stofnað. Í byrjun árs 2006 koma síðan aðrir aðilar inn í fyrirtækið. Í dag er Bruggsmiðjan í eigu 15 aðila. Agnes og Ólafur eiga rúm 56%, og 44% skiptast á milli 14 aðila. Byrjað var að byggja húsnæðið í mars 2006. Húsið er 380 fermetrar með millilofti. Og er staðsett á Árskogssandi eins og áður sagði. Fyrsta bruggun var 22 ágúst og fyrsta átöppun var 28 september. Formleg opnun var síðan 30 september að viðstöddum fjölda fólks.

Agnes og Ólafur sáu færi á að koma með nýja tegund af bjór á markaðinn. Þeim langaði að búa til bjór sem væri mjög vandaður og með miklu bragði. Þess vegna var valið að brugga bjór eftir Tékkneskri hefð frá 1842, þar sem Tékkland er frægt um allan heim fyrir góðan og einstaklega vandaðan bjór. Þau höfðu tvær leiðir til að finna bjór við hæfi, kaupa uppskrift af öðrum erlendum bjór og flytja hana inn til landsins, eða fara leiðina sem þau völdu að gera og það var að fá bruggmeistara til liðs við sig og búa til sinn eigin bjór sem þau gætu sniðið eftir sínum eigin hugmyndum. Þar sem að markmiðið var að búa til eðal bjór þá var valið einungis allra besta hráefni sem völ er á og kemur allt hráefnið frá Tékklandi, fyrir utan að sjálfsögðu íslenska vatnið sem að kemur úr lind við Sólarfjall við utanverðan eyjafjörð. Útkoman er Kaldi. Íslenskur bjór, bruggaður eftir tékkneskri hefð, með besta hráefni sem völ er á, ógerilsneyddur,með engum viðbættu sykri og án rótvarnarefna, sem gerir hann eins hollan og bjór getur mögulega orðið.

Í upphafi var gert ráð fyrir ársframleiðslu uppá 170.000 lítra á ári. En eftir ótrúlega sölu og mikla eftirspurn fyrstu mánuðina, var fljótlega ákveðið að bæta við gerjunartönkum og auka gerjunarplássið um 10 þúsund lítra. Stækkunin kom í maí 2006. Í dag áætlað að framleiða um 300,000 lítra af Kalda á ári.

Hjá fyrirtækinu vinna í dag 5 manns sem er fastráðnir og 2 í hlutastarfi. Það má til gamans geta að á Íslandi eru einungis 4 lærðir bruggmeistarar og 2 af þeim eru hjá Bruggsmiðjunni. Annar þessara bruggmeistara, David Masa er nokkuð þekkt nafn í bruggheiminum. Hann hefur sérhæft sig í því koma af stað litlum brugghúsum út um allan heim. Hann er bruggmeistari í 4 ættlið og með 9 ára nám á bakinu, þar sem að grunn bruggmeistaranám er 4 ár. Hinn bruggmeistarinn er ungur og hefur ný lokið 4 ára bruggmeistara námi í Tékklandi og hefur samhliða unnið í aldagömlu munkabrugghúsi.



Mér finnst einhvern vegin að hin gylltu bruggtæki hefðu sómt sér vel sem leikmunir í Star wars.



Suðutækin eru hins vegar meira "venjuleg" á að líta.



Kynningin kostaði þúsundkall á mann og innifalið var bjórglas kyrfilega mergt í bak og fyrir svo og eins mikið af framleiðslunni sjálfri og menn gátu í sig látið meðan á heimsókninni stóð.



Og því var auðvitað vel tekið.



Næst var komið við í Freyjulundi hjá hinni Siglfirsku listakonu Öllu Eysteins, en þegar þangað var komið reyndist ekki nokkur vera heima nema kötturinn.



En þar var samt nóg að sjá.



Litla systir ásamt ókunnum "manni."



Ingvar virðist tilbúinn að leggja til höfuðið í þeirri von að það fullkomni þennan skúlptúr, en einhvern vegin virðist mér eitthvað vanta upp á samræminguna. Sennilega hefur búkur spýtukarlsins of marga ferkantaða fleti en Ingvar er meira "ávalur" í laginu. Það var því hætt við að skilja Ingvar eftir hjá Öllu til frekari úrvinnslu.



Meeeeeeeee...



Og þessir virðast bara slakir þó svo að full rúta af fólki virði þá fyrir sér.



Og auðvitað er flaggað.



Það er "bíó" í verkfærageymslunni. - Um kvöldið eru skoðaðar gamlar slidesmyndir af fjölskyldumeðlimum á tjaldi sem komið hefur verið þar fyrir. Margir sjá sjálfa sig með "gamalt útlit" og alls konar athugasemdir fljúga gegn um loftið, en sýningin vekur að vonum mikla kátínu.



Þarna eru líka leiktæki fyrir "börnin."



Ekki stóð á því að hinir fullorðnu fyndu barnið í sjálfum sér.




Hann Ingvar tjaldaði í talsverðum halla þrátt fyrir gnótt sléttlendis. Ég veit ekki af hverju hann gerði það, en sjáiði græna kassann fyrir framan tjaldið sem er greinilega tómur?



Á sunnudegi var farið að huga að heimferð.



Í nágrenninu býr sjálfur "Jóhannes í Bónus " í alveg þokkalegum híbýlum.



En það sem vakti aðallega athygli mína, var hversu rólegar endurnar á tjörninni voru. en mér er sagt að ástæðan fyrir því sé einfaldlega sú að þær eru úr plasti. 



En nafnið á bæ Jóhannesar er alvöru eins og sjá má. Hváll er eitthvað svo mikilúðlegt og virðulegt sbr. Arnarhváll.



En þarna rétt hjá er annað býli þar sem eflaust er eitthvað minna um þægindi, en staðirnir eiga þá það sameiginlegt að halda fugla sem aldrei fara neitt. 



Það var ekið upp í Skíðasvæði þeirra Akureyringa Hlíðarfjall. Þangað hef ég aldrei komið en vildi sjá staðinn og vita hvort þaðan væri hægt að mynda höfuðstað Norðurlands. Svo reyndist ekki vera með góðu móti, en þetta skilti vakti athygli mína. Það er auðvitað ekkert að þessu skilti, en það er samt svolítið skondið að lesa á það í sumrinu og blíðunni.



Hafa ekki allir heyrt um hinn landsfræga Brynjuís? Ég hef það auðvitað og svo hef æég líka smakkað hann og mér til mikillar undrunar fannst mér hann ekki standa undir frægðinni, en slíkt er auðvitað alltaf smekksatriði.



Það var allavega svo mikil traffík við og í kring um ísbúðina að það jaðraði við öngþveiti sem segir auðvitað heilmikið um skoðanir annarra á ísnum.



Og þegar rennt var úr bænum sá ég afkvæmi mitt vera að bisa við Sæþotuna á Höfnersbryggju.



á Suðurleið var litið við á Flugumýri í Skagafirði hjá Margréti, annari "litlu systur" sem þar býr. Einn af íbúunum (sá guli og græni) naut frelsisins og fór víða.
 


Og til að gera ekki upp á milli okkar systkinanna "heimsótti" hann (eða hún) Sæu systir sem tók honum fagnandi eins og sjá má.



Svo var komið að mér, en ég óttaðist pínulítið að hann (eða hún)  goggaði svolítið ofan í kollinn á mér, en sá ótti reyndist með öllu ástæðulaus.

Þegar leið að miðnætti var haldið af stað suður.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 679
Gestir í dag: 118
Flettingar í gær: 903
Gestir í gær: 489
Samtals flettingar: 324070
Samtals gestir: 36248
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 13:45:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni