20.11.2008 08:33
Vinur minn Guðmundur Skoti og skórnir hans.
513. Eftirfarandi saga er af vini mínum Guðmundi Skota. Og þó að Guðmundur heiti í rauninni ekki Guðmundur svona í alvörunni, þá fékk hann samt viðurnefnið "Skotinn" fljótlega eftir landsleikinn við Skota á liðnu hausti og það verður ekki af honum skafið að hann stendur alveg fyllilega undir því. En eins og flestir vita þá gengu Skotasögurnar hér á árum áður út á hreint ótrúlega sparsemi þessara nágranna okkar og vinur minn Guðmundur sem er um margt líkur þarlendum. Hann hefur engu að síður alveg ágætan húmor fyrir sjálfum sér og er á heildina litið hinn vænsti félagi í alla staði. Og þrátt fyrir alla sparsemina sem oftast ber mest á í fari hans, verður það líka að koma fram, að hann getur einnig verið hinn mesti höfðingi heim að sækja.
En ástæða þess að ég settist niður til að rita þessar línur, var að fyrir fáeinum dögum átti ég erindi til hans. Ég hitti hann úti við þar sem hann var að mála svalahurðina hjá sér skjannahvíta. Í fyrstu var það málningardósin sem dró að sér athygli mína, en svona dós minntist ég ekki að hafa séð áður. Ég kastaði á hann kveðju en spurði hann síðan upp úr hvers konar málningu hann væri að mála.
"Þetta er nú bara frá henni Hörpu," svaraði hann og virtist svolítið undrandi á spurningunni.
"Þú meinar Hörpu sem síðar varð Harpa-Sjöfn og enn síðar Flugger?"
"Já, ég er búinn að eiga þessa dós lengi, hún hefur bæði verið drjúg og reynst mér vel í alla staði."
Hann glotti lítillega út í annað eins og hann gerir stundum og ég vissi alveg hvað hann var að hugsa. Hann er nefnilega pínulítið hreykinn af sparseminni í sér og fer ekkert í felur með það.
"Manstu nokkuð hvaða ár hún var keypt?"
Ég gat ekki annað en kímt svolítið með sjálfum mér og renndi augunum til dósarinnar.
"Hún var ekki keypt, heldur fékk ég hana gefins af því það átti að henda henni."
Þetta svar kom mér alls ekki á óvart.
"Hún kostaði sem sagt ekki krónu," svaraði hann hreykinn og það var eins og það hlakkaði í honum.
Guðmundur sem hafði setið á hækjum sér stóð nú upp og dæsti. Breitt bros færðist yfir andlitið á þessum litla manni sem var óvenju rauðleitt þessa stundina, en greinilegt var að það kætti hann að rifja upp sögu málningardósarinnar.
Þá tók ég eftir skónum hans og gat ekki orða bundist.
"Hvers konar fótabúnaður er nú þetta?"
"Já þetta," sagði hann og leit niður á fætur sér.
"Þetta er nú bara sparsemi og ráðdeild á krepputímum," svaraði hann og brosti nú enn breiðara en áður.
Ég gat ekki betur séð en að hann væri mjög hreykinn af skónum sem hann var í.
Ég þreifaði í vasann og fann að myndavélin var á sínum stað.
"Má ég nokkuð taka mynd af þessum merkilegu skóm?"
Og Guðmundur Skoti var nú aldeilis hræddur um það.
Hann fór úr skónum og lagði þá á grasið fyrir framan pallinn við hurðina og ég myndaði þá.
"Og sjáðu svo þessa fínu sóla," sagði hann og snéri skónum við.
"Menn nýta nú ekki hlutina mikið betur en þetta," bætti hann við og ég gat ekki annað en verið honum fyllilega sammála.
Mér fannst þetta ansi sérstakt skópar vægt til orða tekið og var eiginlega svolítið kjaftstopp, en nú fór Guðmundur að segja mér sögu þess og það leyndi sér ekki að hann var greinilega svolítið montinn af þeim.
Þannig var að árið sem Þjóðarsáttin var gerð keypti ég mér nýja skó beint úr kassanum. Það er nú ekki oft sem maður fer út í slíkar fjárfestingar, en ég var bara orðinn alveg skólaus og það var alveg bullandi útsala í Hagkaupum. Ég flæktist þarna um innan um fullt af kerlingum, bæði úr Vesturbænum og svo auðvitað alls konar öðrum kerlingum líka og þær rifu svo skóna úr hillunum að mér blöskraði hamagangurinn í þeim. Þetta var eins og að vera kominn í fuglabjarg þar sem allir fuglarnir voru gersamlega ofvirkir og sárvantaði rítalín. Ég leitaði að besta verðinu þarna og ég man ennþá að ég var næstum því búinn að kaupa sandala á tvöhundruðkall. En þá fór ég að hugsa um að það var svolítið slabb úti og stutt í veturinn, svo ég hugsaði mér að ég yrði líklega að spreða svolítið. Ég fann þá þessar fínu mokkasíur á vel innan við þúsundkallinn sem líka smellpössuðu og skellti mér á þær. Ég man líka að ég reyndi að fá smá aukaafslátt af því að kassinn utan um skóna fannst ekki, en það gekk nú ekki. Á þessum skóm gekk ég svo í þrjú ár samfleytt, enda ekki aðrir til skiptanna. Þá var nú annar eiginlega alveg búinn á því en hinn átti kannski svolítið eftir eins og sést. Það var svo þegar móðurbróðir minn andaðist um það leyti, að ég eignaðist hitt parið sem þetta er samansett úr. Hann notaði nefnilega sama númer og ég eða svona rétt rúmlega barnastærð. Það lá því beint við að ég fengi skóna hans, því enginn annar í fjölskyldunni gat notað þá smæðarinnar vegna og maður horfir ekki upp á að verðmætum sé fargað að óþörfu. Ég gekk í nokkur ár á þeim en svo fór nú að lokum að annar skórinn var orðinn botnlaus með öllu, en hinn mátti með góðum vilja nýta eitthvað lengur eins og þú sérð. Og það sem var svo heppilegt í báðum þessum tilfellum, að í annað skiptið var það sá hægri sem reyndist heldur seigari en í hinu sá vinstri. Þess vegna lá það svo beint við að sameina það sem eftir lifði af hvoru parinu. Og eins og þú sérð, þá er kannski svolítill sjónarmunur á þeim en þeir gera nú sama gagn fyrir það.
Ég hlustaði hljóður á ræðu Guðmundar sem er eflaust ein af þeim lengri sem hann hefur haldið hin síðari ár og mig setti hljóðan. Hann andaði djúpt og dæsti eins og hann væri að kasta mæðinni, en ég sá að hann var ekki alveg hættur ennþá.
"En ég er búinn að kaupa aðra útsöluskó sem ég nota ef ég fer út á meðal fólks. Þessir eru nefnilega farnir að verða svolítið lasnir."
Og Guðmundur Skoti horfði á þetta vel nýtta skópar sitt og það mátti greina söknuð og eftirsjá í svip hans.