18.01.2009 04:59

Blek-kreppa




531. Ég prentaði út talsvert af myndum um og eftir jólin á ljósmyndapappír, en þegar slíkt er gert er bleknotkunin talsvert meiri en við venjulega prentun. Það var svo í vikunni sem leið að ég ætlaði að prenta út eina myndina enn og skella henni í ramma. Þá kom það berlega í ljós rétt einu sinni enn að það eyðist allt sem af er tekið og rauði liturinn var núna alveg uppurinn.

Næst þegar ég átti leið í bæinn (til Reykjavíkur) kom ég því við í bókaversluninni Griffli í þeim tilgangi að ná mér í meira blek. Ég fann það á sínum stað en rak þá augun í lítið auglýsingaskilti sem á stóð:

 

VIÐSKIPTAVINIR ATHUGIÐ.

EKKI ERU AFGREIDD NEMA TVÖ BLEKHYLKI

SÖMU GERÐAR TIL SAMA KAUPENDA.

 

Það var sem sagt búið að taka upp skömmtun á blekhylkjum í tölvuprentara. Ég geri ráð fyrir að það sé vegna hinna tiltölulega nýtilkomnu innflutningshafta, því blekhylki eru vissulega hvorki matur, lyf eða olíuvörur sem boðað hefur verið að njóti forgangs þegar hinum dýrmæta gjaldeyri er úthlutað í húsi Davíðs. Þetta er kannski tákn þess sem koma skal og sé svo þá er þetta líklega býsna nýtt, a.m.k. fyrir hinar yngri kynslóðir Frónbúa. En sagan var ekki þar með öll sögð, þrátt fyrir að ég sæi það svart á hvítu eða þá í lit að blekhylkið sem mig vanhagaði um var að vísu til. Hinar nýju skömmtunarreglur breyttu litlu máli einar og sér því ég hafði alls ekki hugsað mér að hamstra, heldur ætlaði ég bara að kaupa aðeins eitt slíkt eins og venjulega. En Griffill sem hefur yfirleitt verið mjög vel samkeppnishæfur í verðum, virtist annað hvort ekki vera það lengur eða það var komið stríð eða eitthvað í þeim dúrnum. En kannski var þetta bara bein afleiðing hinna engilsaxnesku hryðjuverka síðan í haust.

Síðast þegar ég keypti HP hylki no 78 kostaði það 4.950 og þótti mér eiginlega nóg um, því þar áður kostaði það 4.490 og einhvern tíma 3.990. Nýjasta verðið var hins vegar hvorki meira né minna en litlar 8.485. Ég horfði lengi á þessar undarlegu tölur og velti fyrir mér hvort þetta væri örugglega það sem ég leitaði að, því mér fannst verðið einfaldlega ekki passa við varninginn. En þegar ég var búinn að skoða það í krók og kring sá ég að svo hlaut að vera. Eftir nokkra umhugsun tók ég þá ákvörðun að láta þetta ekki yfir mig ganga og leita annars staðar fyrir mér, eða bíða ella í áttina til vors í von um að gengið styrktist eða höftin minnkuðu. Ég gekk út bleklaus en ákvað þó að kíkja við í Office 1 sem er í næstu götu. Þar fann ég fljótlega standinn þar sem blekið átti að vera. Síðasta verð hafði verið 5.490, en allar birgðir voru þrotnar og vægast sagt var eyðilegt að líta yfir blekhylkjadeildina á þeim bænum.

 

Nú eru liðnir nokkrir dagar, mér er enn bleks vant og ég velti fyrir mér hvort í einhverri búð gæti verið að finna gamlan lager á verði síðan fyrir hrunið mikla. En það er víst alveg búið að loka Kaupfélaginu í Haganesvík og það fyrir margt löngu síðan.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 160
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 319
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 318506
Samtals gestir: 34990
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 05:42:09
clockhere

Tenglar

Eldra efni