23.04.2009 20:35
Gengið í kring um Gufunes
562. Það eitt kann að vera lítt merkileg og frekar hversdagsleg aðgerð svona ein og sér að fara með bílinn sinn á verkstæði til aðhlynningar, en aðstæður geta engu að síður orðið til þess að sú ferð vex með sjálfri sér ef myndavél, nægur tími og gott veðurfar eru til staðar. Það var raunin á að þessu sinni svo mætti á tilsettum tíma til Gústa sem hefur séð um mín bílamál undanfarin ár og ákvað að fá mér vænan göngutúr meðan viðgerð stæði yfir, en vera svo mættur aftur á upphafsreit áður en vinnudegi lyki og hann lokaði og læsti á eftir sér.
Þar sem Gústi er til húsa að Stórhöfðanum skammt fyrir ofan Gullinbrú, fannst mér upplagt að ganga fjörurnar fyrir Vog sem skilur að höfðann austan Ártúnsbrekku og Grafarvog. En þegar ég hafði gengið undir Gullinbrú snérist mér hugur og beygði til vinstri og út eftir fjörunni gegnt Sundahöfn. Hinum megin sjávar biðu þessi risavöxnu mannanna verk eftir því að næsta gámaskip legðist að Sundahöfn, tilbúnir í slaginn.
Ég leit til baka og sá að ég hafðio gengið drjúgan spöl en var strax farinn að velta fyrir mér hvað þessi göngutúr yrði langur. Ég hafði mætt með bílinn kl 15 en þurfti að vera komin aftur fyrir 18, en þá átti hann að vera tilbúinn og dagur að kvöldi kominn.
Framundan hlykkjaðist grófur vegarslóðinn meðfram fjöruborðinu og hvarf sjónum á bak við nef sem teygði sig aðeins utar en landið í kring. Svo birtist hann aftur lengra frá og aþr voru sýnilega einhverjar byggingar sem ég þurfti að vita nánari deili á.
Ég gekk fyrir "nefið" á landinu og hugsaði með mér að þetta væri fín æfing fyrir komandi sumar eftir gönguleysi liðinna vetrarmánaða. Alveg væri tímabært að fara að teygja úr sér og hreyfa skankana, því í næsta máuði væru fyrirhugaðar fyrstu ferðirnar m.a. með gönguhópnum okkar Magga Guðbrands (og auðvitað allra hinna).
Á stórgrýtinu fyrir ofan mig sá ég svolitla hreyfingu og hægði á mér. Nú er ég ekki góður að þekkja fuglana en sýnist þetta vera Tjaldur. Alla vega beið hann (eða hún) grafkyrr eftir að ég smellti af en flaug síðan á braut.
Ég nálgaðist þetta mannvirki og eins og það ber með sér mun það vera skólphreinsistöð. Ég velti fyrir mér hvort réttara sé að skrifa skolp eða skólpÉg vissi reyndar ekki af tilvist hennar fyrr en núna, en eftir svolitla athugun komst ég að því að sótt var um byggingaleyfi á árinu 2002 svo að ekki mun hún vera komin til ára sinna.
Ég lít um öxl og sé að stóru kranarnir við Sundahöfn eru búnir að fá verðugt verkefni.
Ég er nú kominn á þann stað í fjörunni sem er u.þ.b. beint fyrir neðan gömlu öskuhaugana. Þarna var allt sorp höfuðborgarsvæðisins á árabilinu 1965-1984 urðað og þarna urðu til landfyllingar sem skiptu tugum hektara. Ekki veit ég hvort það sem hér sést eru einhverjar leifar frá því árabili sem gægist undan jarðveginum sem ætlað var að hylja það sem ekki mátti sjást eða eitthvað annað.
Ég nálgaðist þessa svörtu hrúgu og var svolítið hissa á að bílhlassi af sandi eða fínni grús hefði verið sturtað á þennan stað. Litlu munaði að ég sparkaði af rælni í hauginn en sá þó rétt nægilega tímanlega að þarna var um grjótharðan malbiksafgang að ræða. Eins gott, - ég segi nú ekki annað og upp í hugann kom sagan af fallbyssukúluboltanum.
Sagt er að eitt sinn hafi óprúttnir hrekkjalómar klætt stóreflis fallbyssukúlu í leðurtuðru sem hafði verið notuð utan um uppblásinn gúmmíbelg sem fótbolti. Kúlan í tuðruni var síðan skilin eftir á víðavangi þar sem hún hreinlega bað hvern þann sparkara sem átti leið hjá að sýna snilli sína og getu. Slíkt var að sjálfsögðu mikil freisting fyrir marga og sumir hverjir fylgdu auðvitað vel á eftir þrumusparki sínu og fengu verulega bágt fyrir en kúlan hreyfðist að sjálfsögðu hvergi.
Þeir kúlusparkarar hafa þá líklega lotið snarlega í gras fyrir viðfangsefni sínu, en þó ekki þessar rúllur sem hefðu betur mátt enda á öðrum stað og betri en þessum.
Og auðvitað varð ég að hlaupa upp grasi gróna veggi dælustöðvarinnar til að geta virt betur fyrir mér útsýnið.
En þarna ofan af þaki dælustöðvarinnar sást vel í lúinn húsakost gömlu Áburðarverksmiðjunnar sem eru þarna fyrir, en á Wikipedia má lesa eftirfarandi um þá niðurlögðu starfsemi: Áburðarverksmiðjan í Gufunesi var vígð 22. maí 1954 en það ár hófst framleiðsla áburðar. Hún fékk rafmagn til framleiðslunnar úr Írafossvirkjun í Sogi. Á þeim tíma var ekki markaður fyrir alla þá raforku sem framleidd var nema til kæmi stóriðja. Sú stóriðja varð að áburðarverksmiðju í Gufunesi sem framleiddi köfnunarefnisáburð sem fékk nafnið Kjarni.
Bygging Írafossvirkjunar og Áburðarverksmiðjunnar var fjármögnuð með Marshallaðstoðinni. Stofnað var fyrirtækið Áburðarsala ríkisins sem hafði einkarétt á innflutningi og sölu áburðar. Þetta fyrirtæki flutti inn steinefnaáburð, þrífosfat og kalí til að blanda með hinum íslenska Kjarna en köfnunarefnið í áburðinum var unnið úr andrúmsloftinu.
Rekstur Áburðarverksmiðjunnar og Áburðarsölunnar var fljótlega sameinaður og hafði verksmiðjan einkaleyfi á sölu á áburði á Íslandi til ársins 1995.
Framleiðsla tilbúins áburðar hjá Áburðarverksmiðjunni fór árið 1999 fram í þessum fimm einingum sem allar eru staðsettar í Gufunesi: vetnisverksmiðju, köfnunarefnisverksmiðju, ammoníaksverksmiðju, sýruverksmiðju og blöndun. Verksmiðjan seldi þá því nær eingöngu í heildsölu til kaupfélaga og verslunarfyrirtækja. Efnaframleiðsla í verksmiðjunni var lögð niður í október árið 2001 og var þá hráefni flutt inn í kornaformi og blandað saman í verksmiðjunni og áburðurinn sekkjaður.
Ég notaði linsuna til að nálgast þessi gömlu hús betur og vitna enn og aftur í alfræðivefinn Wikipedia.
Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í verksmiðjunni 15. apríl 1990. Í kjölfar þess lýstu íbúar í Grafarvogi áhyggjum sínum á staðsetningu verksmiðjunnar svo nálægt íbúðarhverfi. Borgarráð samþykkti í apríl 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt. Öflug sprenging varð í verksmiðjunni 1. október 2001. Fimm starfsmenn verksmiðjunnar voru að störfum en engan sakaði. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu var sent á staðinn og greiðlega gekk að slökkva eldinn. Sagt var "að hús í Grafarvogi hafi nötrað og margir íbúar fundið loftþrýstibylgju". Þetta varð til þess að framleiðslu þar var hætt fyrr en ella.
Áburðarverksmiðjan var seld í mars 1999 fyrir 1.257 milljónir króna til einkaaðila. Fyrirtækið velti miklum fjármunum og verðmæti birgða var metið á 750 milljónir. Því var haldið fram að innan við 500 milljónir hafi verið greiddar fyrir sjálfa verksmiðjuna og aðstöðuna. Reykjavíkurborg samdi árið 2002 við hluthafa Áburðarverksmiðjunnar hf. um stöðvun efnaframleiðslu og kaup borgarinnar á fasteignum og aðstöðu fyrirtækisins fyrir 1.280 milljónir króna. Áburðarverksmiðjan hafði starfsleyfi til ársins 2019 og var lóðin sem hún leigði af Reykjavíkurborg 20 hektarar. Í aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir íbúðarbyggð í framtíðinni á þessu svæði og landfyllingum út í sjó.
Ágætt útsýni var ofan af dælustöðinni til Viðeyjar sem er um margt merkileg og er talin hafa risið úr sæ fyrir u.þ.b. 10.000 árum ásamt næstum öllu því svæði þar sem Reykjavík stendur nú. Þar hafa fundist merki um byggð allt frá landnámi, Viðeyjarstofa er fyrsta steinhús sem byggt er á Íslandi, þar var um tíma virðulegasti embættismannabústaður landsins um tíma og þar var einnig byggð fyrsta höfnin fyrir millilandaskip hérlendis. Nú lýsir hin alþjóðlega eða kannski margþjóðlega friðarsúla upp haustmyrkrið frá þessari smáeyju öllum heiminum og boðskap Bítlahjónanna John´s og Yoko til dýrðar.
Áður en ég fetaði mig aftur niður af þessum ágæta útsýnispalli leit ég um öxl og sá að það var komið skip undir risakranana. Þetta eru auðvitað alvöru græjur og það ekkert smá...
Ég nálgaðist nú Áburðarverksmiðjuhúsin og fyrir neðan þau kenndi ýmissa grasa en þó í óeiginlegum skilningi þess orðs. Ekki veit ég tegundaheiti þessa vörubíls eða neitt sem hægt er að velta sér upp úr og hafa einhver orð um. Ég auglýsi því bara eftir slíku, en víst er að hann hefur einhvern tíma verið í betra formi.
Þessi geymir stóð uppi á bakkanum og virtist vera að horfa út á hafið fullur af angurværð og eftirsjá, rétt eins og gamall sjóari sem er kominn í land eftir að hafa siglt um höfin sjö alla sína hunds og kattartíð.
Rosalega er mikið af drasli hérna, bæði fyrir innan og utan hliðið sem lokar veginum. En þar sem greið leið var um fjöruna fór ég þá leiðina og ályktaði sem svo að ökutækjum væri ekki ætlað að vera hér á flækingi en um gangandi gilti allt annað regluverk. Ég rölti því niður fyrir endann á girðingunni og hélt áfram ferð minni.
Og hvað ætli sé svo í öllum þessum gámum? Kannski bara enn meira handónýtt drasl, hættulegur eiturefnaúrgangur sem stökkbreytir öllum þeim sem nálgast þá eða e.t.v. aðsetur geimvera? Ég hafði farið aftur upp á bakkann en leiðin var nánast lokuð af gámunum og fleira dóti svo ég fór aftur niður í fjöru og hélt áfram.
Fyrir neðan verksmiðjuhúsin er útskipunarbryggjan og þar liggur þetta sannkallaða draugaskip. Eins og sjá má gæti það tekið sig vel út í hrollvekju af bestu og vönduðustu gerð útlitsins vegna. Ég var auðvitað forvitinn um þetta fley sem siglir varla mikið meira um höfin blaut og blá úr því sem orðið er.
Ég gekk því út á bryggjuna og sá þá hið vel læsilega nafn HREFNA RE 11. Það var eins og hvíta málningin sem notuð hafði verið til merkingarinnar hefði verið annað hvort af betri gerð eða mun seinna á ferðinni en sú á skrokknum. Mér fannst þetta eitthvað skrýtið svo ég gúgglaði henni Hrefnu sem átti að vera númer ellefu frá Reykjavík. Þá kemur í ljós hinn stóri sannleikur í málinu því hún Hrefna er nefnilega hann Þór þegar betur er að gáð. Þarna er nefnilega komið hið fornfræga varðskip Þór sem búið er að dulbúa og var "látið leika" hvalveiðiskip í kvikmyndinni Reykjavík Whale Whatsing Massacre sem var tekin upp s.l. sumar. Þessi gamli harðjaxl sem siglt hefur um norðurhöf í illskulegum ólgusjó og mögnuðu gjörningaveðri, klofið brotöldur og löðurfalda eins og riddari sem vinnur drekann og frelsar kóngsdóttur, mætt sjálfum Ægi í sínum alversta ham og tekið virkan þátt í þrem þorskastríðum og haft sigur, má muna sinn fífil öllu fegri en hann er í dag
Eftir að hafa vurt fyrir mér um stund þessa gömlu hafsins hetju úti við aflóga bryggju sem var auk þess að hruni komin, snéri ég við og þá bar fyrir augu þessi forkunnarfögru og tignarlegu fley sem greinilegt var að meira og betur var hugsað um.
Og það var þá sem ég sá þessa orðsendingu sem færa mátti rök fyrir að gætu alveg átt við ferðalanga og röltara eins og mig. En það sem mér þótti athyglisvert var að skiltið snéri öfugt, þ.e. það varð ekki séð fyrr en í bakaleiðinni þegar búið var að "fremja glæpinn". Mér fannst þess vegna skipta litlu hvort ég snéri við eða héldi áfram því ég var staddur því sem næst á miðju bannsvæðinu - og ég hélt auðvitað áfram.
En nú var ég kominn að svolítilli hindrun. Ég kom þarna gangandi á syllu utan á steinveggnum (sem sést betur á myndinni hér fyrir neðan). Við endann á veggnum er svo nokkuð djúpur skurður þar sem mér sýndist renna um heil ósköp af kælivatni frá stóru húsi þarna skammt fyrir ofan. Mér virtist því eina leiðin vera að ganga eftir rörunum og yfir á hólinn hinum megin við skurðinn ef ég ætlaði að halda áfram. Ég hóf að feta mig eftir rörinu en það gekk frekar hægt. Þegar ég var hálfnaður yfir sá ég hvar var betra að komast yfir og ég fetaði mig til baka. Eftir á að hyggja var það bara svipað og að klára málið og fara alla leið yfir á rörinu. En ég gekk sem sagt fyrst rörið og síðan sylluna til baka, eftir fjörugrjótinu og upp með kælivatnslæknum. Ég fór yfir hann á spýtu sem lá bakkanna á milli eins og brú og klifraði síðan upp klettinn.
Ég var mjög feginn að vera kominn yfir, en það er svo ekki fyrr en núna að ég veit til hvers þessi rör eru. Þau flytja metangasið sem unnið er úr hauggasi frá urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi um 10 km. leið að áfyllingarstöðinni við Bíldshöfða. Það má svo lesa á vef Orkuveitu Reykjavíkur sem á og rekur leiðsluna að uppsetning hennar hafi kostað ríflega 100 millur.
En nú var engin fjara lengur til að ganga eftir heldur aðeins bakkar sem slúttu í sjó fram.
Þetta finnst mér ekki mjög fallegt og svona á ekki að gera.
En ég var nú kominn út af hinu afgirta svæði þar sem óviðkomandi var bannaðir aðgangur og ég fann að mér létti svolítið. Veit ekki af hverju nema ef vera skyldi að minn innri maður er heldur löghlýðnari og meira fyrir að fara að fyrirmælum en "sá ytri". Og mig langar til að gera svolítla athugasemd við þetta síðasta, því ef það er til einhver innri maður sem svo oft er vitnað til, hlýtur sú nafngift þá ekki að vera til komin til að aðgreina hann frá þeim ytri sem að vísu er ekki nærri eins mikið talað um?
Og hér í Gufunesi eru bókstaflega allar hugsanlegar tegundir og útgáfur af sorpi og rusli í gríðarlegu magni. Samt hafa hvorki meira né minna en 1.5 milljón tonna verið urðuð í Álfsnesi.
Ég gekk nú áfram meðfram ströndinni og nú lá leiðin aftur í áttina inn til landsins. Það var farið að styttast í að hringurinn lokaðist.
En mýri neyddi mig aftur upp að girðingunni og nú var það stærðarinnar kurlhaugur sem blasti við.
Ég var kominn upp að aðalhliði og þar virtist vera búið að leggja þessum vagni fullim af brotajárni. Greinilegt var að hann hafði staðið þarna lengi og mér fannst staðsetningin ansi undarleg, eða rétt fyrir utan hliðið þar sem mesta umferðin var. Út frá fagurfræðilegum þáttum hefði ég talið eðlilegra að koma honum fyrir í meira skjóli.
Og þetta eru sem sagt fyrirtækin sem eru með starfsemi sína á hinum afgirta og ysta hluta Gufuness.
Næsti áfangi fólst svo í því að rölta upp á veg sem reyndist heldur lengri spölur en mig minnti.
Og áfram gakk, og fljótlega var ég kominn að Olís stöðinni í Grafarvogi.
Þegar ég lagði af stað hugsaði ég mér að taka nokkrar myndir af Gullinbrú, mannvirkinu sem tengir Grafarvoginn við Höfðann. Ekki veit ég af hverju hún dregur gullnafn sitt því fátt er við hana sem minnir í einhverju á þann eðalmálm. En hún er hins vegar hið mesta þarfaþing því um hana fara að meðaltali um 45.000 bílar á degi hverjum.
Skyldu "skreytilistamenn" ekki hafa þurft að hafa býsna mikið fyrir upsetningu þessara verka sinna. Aðstæður hafa eflaust ekki verið upp á það besta því þarna er nánast alltaf gríðarlega mikill straumur ýmist út eða inn í Voginn og "verkin" ná það hátt upp á stöplana að "listamaðurinn" hefur eflaust þurft að standa í tuðru eða bátskel sinni.
Þegar betur var að gáð sást að allir stöplar voru merktir með sama hætti og í öllum tilfellum beggja megin.
En göngubrúin er hið mesta þarfaþing. Þarna eru líka göngustígara sem liggja í allar áttir og nokkuð var um hljólandi, gangandi og skiokkandi umferð.
Og nú var bara brekkan upp að Stórhöfðanum eftir. Ég fann að það voru byrjaðar einhverjar strengjamyndanir í lærum og kálfum eftir þennan tæplega þriggja tíma labbitúr. En skyldi litla bláa Micran vera tilbúin?
Hún var svona næstum því alveg búin var mér sagt við komuna. Farðu bara inn og fáðu þér kaffi...
Og auðvitað þáði ég það því enginn fær staðist kaffið á þessum stað.
Þeir félagarnir Gústi (t.h.) og Hjörtur pósuðu síðan fyrir mig. Nokkrum dögum síðar átti ég leið um Höfðan og var þá búinn að prenta myndina út og skella henni í ramma. Nú hangir hún uppi á áberandi stað í kaffistofunni.
"Sestu inn, vertu þar og stígðu á bremsurnar". Ég gerði það auðvitað og fékk þá svolitla upplyftingu með það sama. Ég var um tíma "geymdur" alveg fast upp við loftið og nokkur bið var á því áð mér væri skilað til jarðarinnar aftur. En þar kom að lokum að horfið var til þess konar "slökunarstefnu" sem gerði mig frjálsan á ný og ég bakkaði út.
Að skreppa með bílinn á verkstæði til minni háttar lagfæringar var þegar allt var saman reiknað hið besta mál og hin skemmtilegasta ferð.