19.08.2009 04:50

Síldarbærinn Skagaströnd



583. Að kalla einhvern annan bæ "Síldarbæ"
en sjálfan Siglufjörð og það jafnvel með stórum staf, kemur mér reyndar svolítið undarlega fyrir sjónir því hingað til hef ég talið aðeins einn bæ á landinu geta með góðu móti staðið undir slíku. En sagan er víst ekki jafn einsleit í raun og hún er í huga Siglfirðings sem upplifði endi ævintýrisins mikla á sínum heimaslóðum og vissulega var silfir hafsins bæði saltað og brætt víðar en í "höfuðstað" síldarinnar. Ég rakst á frétt um ljósmyndasýningu um síldarárin á Skagaströnd og þar sem mér þótti hún merkilegra en margt annað sem á fjörurnar rekur, leyfði mér að fá hana lánaða til endurbirtingar.




Ljósmyndasýning um síldarárin á Skagaströnd

Síldarárin á Skagaströnd nefnist ljósmyndasýning sem sett hefur verið upp í bænum. Hún er risastór í þeim skilningi að myndirnar eru allar afar stórar, 2,5 m á hæð og 3,5 m á breidd.

Sýningarstaðurinn er líka talsvert frábrugðinn því sem venjulegt má teljast. Í stað þess að halda sýninguna innanhúss hafa myndirnar verið festar utan á hús víða um bæinn.

Síldarárin svokölluðu hafa jafnan yfir sér nokkurn ljóma en eins og önnur ævintýri tók síldarævintýrið á Skagaströnd enda. Þó saltað væri flest árin frá 1935 til 1962 dró mikið úr söltun á Skagaströnd eftir 1945 er Norðurlandssíldin fór að leita á nýjar slóðir.

Ljósmyndasýningunni er ekki ætlað að vera tæmandi lýsing á tuttugu og sjö síldarárum. Þess í stað hafa verið valdar myndir sem Skagstrendingurinn Guðmundur Guðnason tók árið 1959.

Þær eru allar svart-hvítar og afar vel teknar. Úr safni Guðmundar eru nú birtar myndir sem sýna annars vegar vinnuna sjálfa, uppskipun, síldarspekúlasjónir og vinnu á plani og hins vegar skemmtilegar nærmyndir af nokkrum einstaklingum við vinnu sína. 

 



2500 manna bær skipulagður

Óvíða höfðu síldarárin meiri áhrif en á Skagaströnd. Á vegum nýsköpunarstjórnarinnar var árið 1945 skipulagður um 2.500 manna bæ. Íbúar á Skagaströnd þá ekki nema liðlega 300 talsins. Það er því vægt til orða tekið að bærinn hafi átt að breyta um svip. Nær er að tala um endurbyggingu hans.

Síldariðnaður átti að vera hornsteinn bæjarins. Reisa átti risastóra verksmiðju og nýbyggingaráð myndi styðja þau félag, sem vildu setja upp sildarverkmiður við Húnaflóa, ef þær yrðu settar upp á Skagaströnd. Gert var ráð fyrir að nokkrum síldarsöltunarstöðvum yrði komið á fót af einstaklingum og félögum enda mætti ganga út frá að söltun yrði mjög mikil. Þá átti að kanna vilja til að koma upp niðursuðu- eða niðurlagningarverksmiðju á síld á Skagaströnd. Í tillögunum var talið heppilegast að gera einkum 35-50 tonna báta út frá Skagaströnd. Lagði Einar Olgeirsson til að nýbyggingarráð hlutaðist til um smíði fimm fiskiskipa af þessari stærð. Skipin yrðu síðan seld með því skilyrði að þau væru gerð út frá Skagaströnd. Myndi þetta gefa fólki aukna möguleika á öruggri vinnu yfir veturinn.




Síldarverksmiðja byggð

Þegar hafnargerð hófst á Skagaströnd fór stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þess á leit við ríkisstjórnina að fá leyfi til að hefja byggingu nýrra verksmiðja á Siglufirði og Skagaströnd. Var stefnt að því að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar til vinnslu fyrir síldarvertíð 1946. Þetta samþykkti Alþingi í lok febrúar árið 1945. Benda má á að á vertíðinni 1945 veiddust í Húnaflóa um 43% þeirrar síldar sem Síldarverskmiðjur ríkins fengu til vinnslu.

Byggingakostnaðurinn verksmiðjunnar á Skagatrönd fór langt fram úr áætlun og var ríkisstjórnin mikið gagnrýnd fyrir það. Fór þá heldur að grynnka á eftirlæti stjórnvalda við síldariðnaðinn. Kom líka fleira til. Síldarvetríðin 1945 var ein sú slakasta um árabil og sú lélegasta frá því Síldarverksmiðjur ríkisins tóku til starfa árið 1930.

 



Síldin hverfur

Það kom brátt á daginn að aflatregðan 1945 markaði upphaf hrun veiða Norðurlandssíldarinnar. Örlögin höguðu málum því svo að framkvæmdir við nýju verksmiðjuna á Skagaströnd hófust á sama tíma og síldin ákvað að leita á nýjar slóðir.

Með hruni veiða Norðurlandssíldarinnar var brostinn sá grunnur öll nýsköpun á Skagaströnd hvíldi á. Innan tíðar varð ljóst að draumurinn um síldarútvegsbæinn sem átti að vera fyrirmynd annarra bæja, myndi aldrei rætast. Enn í dag gnæfir verksmiðjustrompurinn yfir bæinn eins og risavaxinn minnisvarði um þessa stóru drauma.

(Fréttin er tekin af vefnum skagastrond.is)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 131
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 318158
Samtals gestir: 34908
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 10:32:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni