14.08.2010 12:57
Síðbúnar myndir frá Síldarævintýri
642. Undanfarnar vikur hefur skríbent síðunnar haldið til norðan heiða, eða nánar tiltekið á Siglufirði og unað hag sínum þar hið besta. Innsetningar hafa því verið með minna móti undanfarið utan tvær þær síðustu sem voru ritaðar og myndskreyttar fram í tímann.
Fyrir helgina var svo brunað suður á bóginn til að spila á Catalinu, taka eilítið til í bókhaldinu og síðast en ekki síst blogga smávegis. Eitthvað minna verður þó úr því en til stóð, þar sem stafræn skrímsli og ýmis konar andstyggilegheit hafa gert fólskulega árás á tölvuna mína svo hún getur tæplega talist nothæf til nokkurra hluta um þessar mundir. Þessi færsla er því unnin á "tölvu númer tvö" sem ég fæ stundum að setjast við ef hún er ekki í notkun.
En það verður að segjast að því miður var mun minna tekið af myndum á nýliðnu Síldarævintýri en efni stóðu til, en ekki verður kennt um skorti á myndefni. Líklega telja menn sig frekar hafa haft við ýmislegt annað að fást þessa sömu daga.
Þó eru allnokkrar myndir frá "ævintýrinu" inni á myndaalbúmi í möppu merkt Sigló 2010 umfram þær sem hér má sjá.
Á nýliðnu Síldarævintýri var þó farið á eina söltunarsýningu sem að venju fer fram á planinu fyrir framan Róaldsbrakka.
Myndlistarmaðurinn og músíkantinn Ragnar Páll var þar með nikkuna sína og spilaði þar tónlist sem hæfði hinni líðandi stund.
Hún Birna er svo alveg orginal síldarkerling.
Auðvitað er hún síldardama eða þannig, en síldarkerling engu að síður líka því að það er eiginlega meira og frekar starfsheitið á hinni saltandi, hausskerandi, slógdragandi og niðurleggjandi kvennastétt.
Eitt af hinum bráðbnauðsynlegu "mómentum" sem tilheyra.
Bjössi Sveins er ekki síðri í síldargallanum en í jakkafötunum, hvítu skyrtunni og með bindið eins og jafnan má sjá hann í bankanum.
Einn af hápunktunum í hverri einustu síldartörn og það sem allt snérist um...
Taka tunnu og merkið í stígvélið með það sama!
Svo var kallað hástöfum og í beinu framhaldi: - "TÓMA TUNNU"!!!!!
Síldargengið! - Harðsnúið lið sem kann handtökin alveg upp á sínar tíu.
Fjöldi áhugasamra fylgdist með alvöru síld saltaða í alvörunni.
Og svo var dansað á plani.
Öllu minna var gengið til fjalla en staðið hafði til og það þrátt fyrir marga alveg frábæra daga. En þó eitthvað því lengi hafði staðið til að kíkja á Styrbjarnardys uppi í Dalaskarði. Ég hafði einhverra hluta vegna álpast fram hjá dysinni án þess að staldra þar við í síðustu skipti sem ég hef átt þarna leið um og nú skyldi úr því bætt.
Eins og staðkunngir vita en hinir ekki, þá var oftast farið um Dalaskarð þegar menn áttu leið milli Siglufjarðar og Úlfsdala. Gengið er Siglufjarðarmegin upp fyrir ofan gömlu réttirnar eða hesthúsin og komið niður í Mánárdal norðan Mánárskriða, eða öfugt.
Sagt er að Styrbjörn hafi búið á Dalabæ og matur hafi eitt sinn verið til þurrðar genginn á bænum. Hann hafi þá farið yfir skarðið til Siglufjarðar, gengið í búr Hólsbónda og stolið "byrði sinni af mat". Hólsbóndi varð hans var, elti hann og náði uppi í skarðinu þar sem hann á hann að hafa drepið Styrbjörn og dysjað. Sagt er að varða hafi síðan verið hlaðin á dys hans og enn megi sjá merki um hana.
Frá Dalaskarði er lítill krókur út á Hafnarfjall, en þaðan er gott útsýni yfir bæinn og fjörðinn.
Það var því staldrað við um stund í blíðviðrinu og útiverunnar notið á fjallinu.
Þeir sem eiga leið fram hjá Bakaríinu að næturlagi, verða stundum varið við að (bakara)meistari Jakob kælir gjarnan nýbökuð brauð og kökur niður við opna hurð áður en dagurinn hefst. Ilminn leggur þá ekki bara um nágrennið, heldur á hann þar til að kitla einnig þefskyn nálægra svo ekki sé kveðið fastar að orði.
Biggi Dísu kom sérstaklega norður til að vitja róta sinna sem liggja um Túngötuna. Hvort hann fann þær eður ei skal ósagt látið, en fann alla vega Óla Sigga bekkjarbróðir sinn mjög auðveldlega. Eins og sjá má hafa þetta greinilega verið miklir fagnaðarfundir.
Ég er ekki frá því að Stebbi Sigmars sé búinn að taka sér hina endanlegu bólfestu fyrir framan Torgið hjá henni Erlu Gull, rétt eins og Þormóður Rammi nam allt land milli Hvanndala og Úlfsdala forðum. Ási P er svo líklega að gera ætt og erfðafræðirannsóknir á Stebba.
Síðasti miðvikudagur í júlí var dagur harmonikkunnar á Siglufirði og komu þá allmargir dragspilsþenjarar saman á torginu. Síðan dreifðu þeir sér út um bæ og léku fyrir þá sem á vegi þeirra urðu. Leið þeirra lá á Síldarminjasafnið, Heilsugæsluna, í verslanir, ýmsar stofnanir eða bara yfirleitt þar sem fólk var að finna.
Sturlaugur sem var einn af nikkurunum kaus að setja sig niður því sem næst undir svefnherbergisglugganum hjá mér og lék nokkra rómantíska slagara af fingrum fram. Ég brást við með að taka mynd af listamanninum sem sýndi því miður ekki mikla fyrirsætuhæfileika og stökk ekki bros.
Þeir bræður Steinþór og Guðmundur Þóroddsynir voru mikið á röltinu og átti ég skemmtilegt spjall við þá félaga m.a. um gömlu dagana á Sigló. Guðmundur var hér í eina tíð trommari í Siglfirskri unglingahljómsveit á sjöunda áratugnum ef ég man rét (sem ég er nokkurn vegin viss um að ég geri) en við Steinþór stuðluðum mjög að sameiningu Brekku og Suðurfráguttanna í Húnana sem margir muna eflaust eftir, en á þessum ágætu árum var oft verulegur ófriður milli hverfa og hart barist í hlíðunum fyrir ofan bæinn.
Öðlingurinn Viðar Ottesen er hugmyndafræðingurinn að frímerkjaútgáfu tengdri 20 ára afmæði Síldarævintýris. Hann fékk svo auglýsingagúrúinn (og trommarann) Birgir Ingimars til liðs við sig þegar kom að hönnun og uppsetningu og útkoman varð verulega flott. Hér er Viðar í söluhugleiðingum fyrir framan Torgið.
Ég hitti Gumma Páls (54) félaga og samverkamann frá því í denn á röltinu á Bátabryggjunni ásamt syninum (5) svo ég skírskoti til framsetningar og aðferðarfræði "Séð og Heyrt".
"Hannes boy" hefur verið einn af heitustu stöðunum á Sigló, ekki aðeins á Síldarævintýrinu, heldur í allt sumar sem er auðvitað ekkert skrýtið. Umhverfið er á allan hátt aðlaðandi og skemmtilegt, boðið er upp á frábæran og fjölbreyttan matseðil og viðmót starfsfólks er bæði fagmannlegra og þægilegra en margur hefur upplifað í annan tíma og á öðrum stað.
Tóti og Danni tróðu upp á mini sviðinu við Rauðkutorg sem er svæðið fyrir framan hinn stórkostlega "Hannes boy". Þetta eru sjóaðir drengir sem kunna alveg "fullt af gripum", enda var útkoman hin ágætasta.
Halastjarnan sem samanstóð af þeim Gylfa, Ara Jóns og Finnboga Kjartans tróð upp á Allanum fimmtudagskvöld. Eftir síðasta lag fjölgaði svo verulega uppi á palli hjá Gylfa.
Ég, Biggi Inga og Maggi Guðbrands vorum munstraðir á Rauðkupallinn á föstudagdskvöldið fyrir ævintýrið mikla. Líklega höfum við staðið okkur alveg þokkalega, því við vorum endurræstir á laugardagskvöldið.
Samkvæmt upplýsingum sem mér var tjáð að væru komnar frá lögreglu, voru u.þ.b. 300 manns á "okkar" svæði fyrra kvöldið og tæp 500 á hið síðara.
Hin nýja og breyta bæjarmynd eykur vissulega alla möguleika hvað varðar þjónustu við þá sem sækja bæinn heim. Með auknu framboði á afþreyingu, fjölgun veitingahúsa o.þ.h. kemur væntanlega minna í hlut hvers og eins, nema aðilar beri gæfu til þess að vina saman að því að "kakan" sem til skiptanna er stækki. Í ár var Síldarævintýrið mjög vel sótt rétt eins og aðrir atburðir á sumrinu sem senn er liðið og þess vegna geta velflestir gengið sáttir frá borði. Þetta þýðir líklega fátt annað en að það þarf að halda dampi og setja markið hærra á næsta ári en gert hefur verið mörg undanfarin ár ef ekki á að fara illa.
Við gerðum hlé á spilamennskunni meðan brennan og flugeldasýningin var. Fyrir þá sem voru þarna á Bátabryggjunni var eins og sitja á besta stað í stúkusæti og horfa á allan ljósaganginn, því sjónarhornið verður varla mikið betra.
Birgir Ingimarsson er einn aðal hugmyndafræðingurinn af því skemmtilega uppátæki að endurgera "Sumarsömbuna" hans Elíasar og grunar mig að honum hafi ekki verið þakkað neitt allt of vel fyrir innlegg sitt. Ég er nefnilega nokkuð sannfærður um að það hafi haft meiri áhrif á aðsókn en margur heldur. Þess má geta að núna hafa yfir 5000 aðilar spilað lagið á Youtube og þar sem teljarinn á þeim bæ telur hverja IP tölu aðeins einu sinni, má gera ráð fyrir að spilanir séu margföld sú tala. Rás tvö tók vel í að spila lagið fyrir Verslunnarmannahelgina og gerði talsvert af því, en Bylgjan hins vegar ekki. Á þeim bæ var hins vegar þjóðhátíðarlag þeirra Vestmannaeyinga spilað í bak og fyrir og jafnvel voru eldri þjóðhátíðarlög einnig rifjuð upp. Auðvitað var skýring á þessu háttarlagi þeirra Bylgjumanna, því flest er falt fyrir "rétt verð". Það lak út úr þeirra herbúðum að Vestmannaeyingar borga einfaldlega fyrir umfjöllun, en Siglfirðingar virðast hafa úr minna fé að moða og geta það ekki.
Ingvar Már leit við og sýndi okkur nýja höfuðskrautið sitt sem mig minnir að hann hafi talað um að taka ekki niður fyrr en í fyrsta lagi á þrettándanum á næsta ári.
Fyrir framan Aðalgötu 28 er þetta algeng sjón þegar líða fer á nótt og dansleikur er í Allanum. Reyndar var síðasta ævintýri með þeim rólegri, þrátt fyrir mun meiri aðsókn en þekkst hefur síðustu ár. En meðan dansleikurinn stendur yfir er mikill hávaði norðan við húsið, eða þeim megin sem danssalurinn og reykingasvæðið er. Þá er yfirleitt aðeins hægt að festa svefn með góðu móti sunnan megin í íbúðinni. Þegar líður á nóttina færist "ölvunarsvæðið" suður fyrir Allann, dansleiknum lýkur og gestir eru komnir út á götu án þess að vera neitt endilega á heimleið í bráð. Þá er ekki ólíklegt að sá eða sú sem sofið hefur sunnanvert í íbúðinni, verði að færa sig yfir ganginn og leggjast til hvílu í einhverju af norðurherbergjunum.
Svona gengur þetta stundum fyrir sig kvöld eftir kvöld og jafnvel helgi eftir helgi, og ég verð að segja að þetta er farið að verða svolítið lýjandi.
Á árum áður tóku menn einfaldlega þátt í gleðinni enda fáir aðrir kostir í stöðunni, en eftir því sem árin hafa liðið hafa þeir hinir sömu eitthvað lært að hemja gleðilæti sín þegar boðað hefur verið til mannamóta af þessu tagi.
Ég laumaðist upp á þak á Samkaupum til að ná þokkalegri mynd yfir Ráðhústorgið þegar snillingarnir í Fílapenslunum stigu á svið. Þá fjölgaði verulega í áheyrendahópnum og ég sperrti líka eyrun því ég hafði aðeins einu sinni áður heyrt í þeim félögum og það meira að segja bara svolítinn stubb.
Svo auðvitað líka nærmynd sem endar líklega í gylltum ramma uppi á stofuvegg við hliðina á Fjórum fjörugum, Bjarka Árna og hljómsveit hans, Gautum, Stormum, Gibson, Frum og fleirum.
Steingrímur var auðvitað á ferðinni með myndavélina sína ásamt fylgihlutum eins og sjá má. Ekki veitti heldur af innleggi hans á siglo.is, því ég hef sjaldan séð minni umfjöllun um ævintýrið en þetta árið þrátt fyrir að meira hafi verið´að gerast og flest betur heppnað en mörg síðast liðin ár.
Ragnar Páll er auðvitað ekkert annað en goðsögn og alveg ótal margt til lista lagt. Hann þandi nikkuna fyrir framan "Hannes boy" á sólríkum góðviðrisdegi og ljúfir tónar hans léku við hlustir viðstaddra.
Finnur Yngvi sem er einn af aðal driffjöðrunum (og e.t.v. skrautfjöðrunum líka) á "Hannes boy" og næsta nágrenni með tveimur af "stelpunum sínum" sem voru alveg harðduglegar á dælunum þessa helgi.
Flott pós...
Ég var svolítið hissa að hitta hana Hrafnhildi fyrir á nýjum slóðum og það á bak við dælu, því hún hefur í alllangan tíma gengt sömu stöðu á Catalinu þar sem ég hef verið að spila u.þ.b. einu sinni í mánuði undanfarin ár. Hún sagði mér að hún byggi um þessar mundir hjá móður sinni á Siglufirði en stefndi á að skoða sig um í útlandinu stóra þegar haustaði að.
Það var svo ekki hægt annað en að fá einhvern góðan mann til að smella af sér með "timburmönnunum" hennar Öllu Eysteins, en einhver svolítil nálgun við slíka menn er eflaust nokkuð algeng á svona mannamótum og jafnvel allt að því við hæfi. Fisflugmaðurinn Raggi Mikk átti leið hjá og tók erindi mínu vel eins og við var að búast af honum. Það var farið að styttast í hátíðahöldunum og eftir svolitla seti í þessum félagsskap stóð ég upp og hélt heim á leið inn í nóttina og mánudaginn.
Skrifað af LRÓ.